30.10.1972
Neðri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir upplýsingarnar varðandi ástæðurnar fyrir því, að fréttamenn hafa ekki fengið tækifæri til þess að fylgjast með framgagni gæzlunnar eftir útfærsluna 1. sept. Það kann vissulega að vera álitamál, hvort heppilegt sé, að starfsmenn Landhelgisgæzlunnar vinni störf sín undir smáspá fréttamanna. En ég trúi því ekki, að þeir, skipherrarnir á varðskipunum okkar, séu það ístöðulitlir, að þeir létu framavonina, í fyrirsögnum dagblaða, glepja fyrir sér við skyldustörfin. Ég vil mínna á, að þegar landhelgin var færð út í 12 sjómílur 1958, þá fékk fréttamaður útvarps að fara með einu varðskipanna. Það var ekki talið álitamál þá, þegar um var að ræða pláss fyrir fáa eða jafnvel einn, að Ríkisútvarpið, sá fjölmiðill —, ef maður má nota það leiðinlega orð, — sem nær til flestra, ætti að sitja þarna í fyrirrúmi. Reynslan varð þá sú, að Ríkisútvarpið flutti þá 8–9 daga, sem fréttamaðurinn var um borð í Þór, daglegar fréttir frá honum af því, sem var að gerast við Austurlandið, og heimsfréttastofurnar notuðu þá heimild í túlkun þess, sem var að gerast. Víst er kveðið svo á, að ferðir varðskipanna eigi að vera með leynd. En ég fæ ekki séð, hvernig vera blaðamanns eða fréttamanns um borð í varðskipunum mundu rjúfa þá leynd, fremur en þær upplýsingar, sem fara á milli brezku eftirlitsskipanna og brezku togaranna hér við land, sem fylgjast með varðskipunum.

Síðan 1958 hefur sjónvarpið komið til sögunnar á Íslandi, og ég er persónulega viss um það, að áhöfnum varðskipanna er vernd í því, að kvikmyndavél sé í gangi um borð, þegar kastast í kekki milli varðskipsmanna og áhafna brezku togaranna og eftirlitsskipanna. Sé kvikmyndavél í gangi um borð í íslenzku varðskipunum í höndum manns, sem kann að nota hana, — sé þar ábyrgur fréttamaður, — þá verður engu logið í heimspressunni um það, sem er að gerast á Íslandsmiðum. Fram að þessu hafa erlendu fréttastofurnar fyrst og fremst fengið sínar upplýsingar frá brezku togaraeigendunum. Ég hef fylgzt talsvert með tilraunum fréttamanna útvarpsins til þess að segja ítarlegar og glöggar fréttir af því, sem gerist við Landhelgisgæzluna á miðunum, og ég staðhæfi, að ekki hafi staðið á þeim að inna eftir upplýsingum hjá fréttafulltrúa Landhelgisgæzlunnar. Það var hann, sem sagði frá því í gær, að brezku togaraskipstjórarnir, eða skipstjórar eftirlitsskipanna, hefðu verið að leita heimíldar fyrir brezku togarana til að leita landvars, að slíkri heimild hefði verið synjað í einu tilfelli. Og það var hann, sem sagði fréttamönnum útvarps og sjónvarps frá því í gærkvöld, að púðurskotum hefði verið skotið að togurunum til þess að reka þá úr landvari. Starf blaðafulltrúa við Landhelgisgæzluna, hversu ágætur sem hann kynni að vera, getur aldrei komið í stað þess að hafa fréttamenn með á miðunum, og ég fæ ekki séð, hvers vegna ekki er hægt að veita blaðamönnum takmarkað leyfi til þess að vera um borð í varðskipunum og fylgjast með því, sem er að gerast á miðunum nú, eins og það var hægt 1958. Sjálfur hef ég innt yfirmenn á varðskipunum eftir því, hvort þeir teldu, að nærvera fréttamanna um borð yrði til trafala, eða hvort þeim yrði stoð í nærveru þeirra þar, og þeir menn, sem ég hef rætt þetta mál við hafa látið í ljós þá skoðun sína, að ef í harðbakkann slægi, gæti verið mjög gott að hafa fréttamenn þarna um borð með kvikmyndatökuvélar.