15.03.1973
Sameinað þing: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2560 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

144. mál, atvinnulýðræði

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hér er hreyft við ágætu máli, og án þess að ég ætli mér að fjölyrða um þetta mál, sem hér er til umr., vil ég einfaldlega leyfa mér að fullyrða, að það sé löngu orðið tímabært, að átak verði gert á þessu sviði. Í nálægum löndum hefur átt sér stað merkileg þróun í þá átt að koma á a. m. k. einhverjum vísi að svokölluðu atvinnulýðræði. Í málefnasamningi núv. stjórnarflokka er ákvæði í þessa átt, en þar segir, með leyfi forseta, að ríkisstj. hafi sett sér það höfuðmarkmið í félagsmálum að beita sér fyrir setningu löggjafar um hlutdeild starfsfólks í stjórn fyrirtækja og tryggja, að slíkri skipan verði komið á í ríkisfyrirtækjum. Nú er það að vísu svo, að nokkur dráttur hefur orðið á, að þessu ákvæði málefnasamningsins væri komið í framkvæmd, en ég vil leyfa mér að vona, að svo verði fljótlega. E. t. v. er skýringin að einhverju leyti sú, að beðið hafi verið eftir endanlegri afstöðu verkalýðshreyfingarinnar til þessa máls, en um það var fjallað á síðasta Alþýðusambandsþingi. Að sjálfsögðu þarf ekki að taka fram, að það er algerlega óhjákvæmilegt, að álit aðila vinnumarkaðarins liggi fyrir, áður en löggjöf af þessu tagi er sett. Hitt er svo annað mál, að ekki verður séð, að neitt sé á móti því, að Alþ. lýsi yfir vilja sínum í þessum efnum, lýsi yfir þeim vilja sínum, að löggjöf af þessu tagi verði undirbúin.

Ég vil láta þess getið hér, að ég hef flutt æðimargar till. í þessum sama anda hér á hv. Alþ., í fyrsta sinn 1964 og síðan á hverju ári, meðan ég átti sæti á þingi, fram til 1967. Þessar till. fjölluðu sem sagt um þróun í átt til atvinnulýðræðis, og í þeim var gert ráð fyrir, að gerð yrði langtímaáætlun um rétt starfsmanna til áhrif á stjórn fyrirtækja, sem þeir starfa hjá, og var að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að fyrsta stóra skrefið yrði á vegum opinberra fyrirtækja. Nú er það að vísu svo, að till. þessi hlaut heldur dræmar undirtektir hér á Alþ. Jafnvel Alþfl.þm. vildu ekki veita þessu máli liðsinni þá, og enginn úr þeirra hópi tók til máls til stuðnings till. öll þessi ár. Enda verður það að segjast, að ræða á borð við þá, sem hv. 7. þm. Reykv. Gylfi Þ. Gíslason, flutti hér áðan, er í dag býsna óvenjuleg af hans munni og hefði að sjálfsögðu þótt algert „rarítet“ fyrir fáeinum árum. En hvað um það. Frumkvæði Alþfl. nú er alls ekkert verra fyrir það, þótt undirtektir flokksins hafi verið slælegar áður fyrr, og ég vil undirstrika það, að ég fagna mjög eindregið þessari þáltill., og lýsi því yfir, að ég styð eindregið efni hennar.