15.03.1973
Sameinað þing: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2562 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

157. mál, milliþinganefnd í byggðamálum

Flm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Á undanförnum áratugum hafa orðið mjög miklar breytingar á byggð í okkar landi. Um síðustu aldamót var landið furðulega jafnt byggt. Kemur þetta m. a. glögglega fram í töflu í Fjármálatíðindum frá 1961. Eins og lesa má út úr þessari töflu, má heita, að byggð hafi verið alls staðar á landinu, miðað við núverandi kjördæmaskipun, á bilinu frá 11.2–17.0% af íbúafjölda landsins, að vísu þá tekið saman Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Nánar tilgreint var skiptingin þannig, að íbúar voru flestir á Suðurlandi eða 17.0%, þá á Vestfjörðum 15.9%, á Norðurlandi eystra, 14.6%, á Austurlandi 13.6%, á Vesturlandi 12.4%, á Norðurlandi vestra 11.2%, en í Reykjavík voru þá aðeins 8.5% og á Reykjanesi eða Reykjaneskjördæmi, sem nú heitir, 6.8%, þannig að samtals voru íbúar Reykjavíkur og Reykjaness 15.3%.

Eftir aldamótin hins vegar fer þessi skipting að raskast. Reykjavík tekur að stækka. Árið 1910 er íbúafjöldi Reykjavíkur þegar kominn upp í 13.6%. Á öllum öðrum svæðum er hins vegar nokkur fækkun nema á Reykjanesi. Þannig heldur þróunin síðan áfram með vaxandi hraða allt fram á síðasta áratug. Árið 1960 er íbúafjöldi í Reykjavík kominn upp í 40.8% og Reykjanes orðið næststærst með 14.6%. Norðurl. e. kemur næst með 11.1 þá, þá Suðurl. með 9.1%, Miðvesturl. með 6.8%, Vestfirðirnir með 5.9% og Austurland með sama hundraðshluta, 5.9%, en það er Norðurl. v., sem rekur lestina með 5.8%.

Við þessa töflu hef ég bætt á árinu 1970. Þá virðist fjölgun í Reykjavík að vísu hafa stöðvazt, en það er fyrst og fremst og raunar eingöngu vegna þess, að þéttbýlissvæðin í kring taka við fólksflutningunum. Samtals voru í Reykjavík og á Reykjanesi um 58.7% íbúa landsins árið 1970, en nú munu íbúar þessa landshluta vera orðnir nálægt 60.0%. Í öllum kjördæmum landsins öðrum hefur fækkað. Á Norðurlandi e. er íbúafjöldinn kominn niður í 10.9%, á Suðurl. niður í 8.85%, á Vesturl. var óbreytt, 6.5%, árið 1970, á Austurlandi hafði fækkað í 5.5%, á Vestfjörðum niður í 4.9% og á Norðurl. v. niður í 4.85%.

Fólksfækkun hefur þannig orðið einna mest á Vestfjörðum. Á Norðurlandi e. verður fólksfækkun eina minnst, á Akureyri eflaust sinn þátt í því. Hins vegar virðist lítið lát hafa orðið á fólksfækkun í þessum landshluta síðari árin. Ekki er síður athyglisvert, að fólksfækkun, sem verður mjög mikil á Suðurlandi og Austurlandi á fyrri áratugum þessarar aldar, virðist nokkurn veginn hafa stöðvazt. Njóta þessir landshlutar þar eflaust nálægðar við þéttbýlið og stórbatnandi samgangna.

Heldur virðist þannig hafa dregið úr byggðaröskun á síðasta áratug. Af þessu gæti einhver ályktað, að fram undan væri jafnvægi í þessum málum. Það tel ég vægast sagt mjög vafasamt. Margt bendir til þess, að önnur stórfelld skriða sé fram undan í röskun byggðar í landinu, verði ekki gripið til áhrifameiri aðgerða en beitt hefur verið til þessa. Í því sambandi vil ég leyfa mér að vísa til kafla úr ályktun samstarfsnefndar Vestfirðinga, Austfirðinga og Norðlendinga frá fundi þessara aðila á Akureyri 9. og 10. nóv. s. l. Fundurinn taldi, að eftirgreind atriði gæfu til kynna enn vaxandi byggðaröskun, a. m. k. með tilliti til þessara landshluta, og vil ég leyfa mér að lesa nokkur atriði úr þeirri ályktun með leyft hæstv. forseta:

„1. Vegna óvenjulegrar aldursskiptingar þjóðarinnar mun miklu fleira ungt fólk koma til starfa og velja sér búsetu í þjóðfélaginu á þessum áratug en nokkru sinni fyrr og að öllum líkindum hlutfallslega fleira en verða mun síðar. Meðalmenntun þessa fólks almennt verður meiri en verið hefur, og því mun það gera kröfur um víðtækara úrval atvinnutækifæra og þjónustu en nú er fyrir hendi.

2. Atvinnuvegir utan Reykjanessvæðisins eru einhæfir, og horfur eru á, að framleiðsluaukning verði mjög mikil á næstu árum í þeim atvinnugreinum, sem hinir strjálbýlli landshlutar byggja nær alla afkomu sína á, þannig að þótt framleiðsla aukist til muna, fjölgi fólki ekki í þessum atvinnugreinum.

3. Þjónustugreinarnar, sem taka munu til sín mjög verulegan hluta viðbótarvinnuafls, vaxa nær eingöngu á Reykjanessvæðinu, en eru mjög vanþróaðar utan þess, sem er ein meginástæða búseturöskunarinnar.

4. Rík tilhneiging til að staðsetja öll stóriðjufyrirtæki og önnur ný og þýðingarmeiri á Reykjanessvæðinu.

5. Mismunur á aðstöðu til menntunar, þjónustunota og hvers kyns menningarlífs á Reykjanessvæðinu og í öðrum landshlutum fer vaxandi.

6. Raunhæfur skilningur þjóðarinnar á gildi jafnvægis í byggðaþróun er of lítill.

7. Mótun á framkvæmd byggðastefnu hefur ekki fengið þann sess í stjórnkerfi ríkisins, sem henni ber og bráðnauðsynlegt er, að hún fái:

Það, sem ég hef nú lesið, eru staðreyndir. Sú spurning hlýtur að vakna, hvað hafi valdið þessari þróun. Fyrst vil ég telja byltingu í atvinnuháttum. Á fyrri öldum var landbúnaðurinn aðalatvinuvegur landsmanna, en þeir, sem við sjóinn bjuggu, höfðu einnig útræði. Bátar voru þá smáir. Aflanum mátti landa nokkurn veginn hvar sem menn vildu. Verstöðvum var dreift um firði og útnes. Þá var byggðin einkum þar, sem beitilönd voru góð eða fiskur nógur við landsteinana. Ýmis hlunnindi önnur juku jafnframt á dreifingu byggðarinnar, eins og t. d. rekaviður á ströndum, æðarvarp í eyjum og fleiri hlunnindi. Í nálægt því 1000 ár var byggðin þannig furðujöfn um landið allt og lítið, sem hvatti til fólksflutninga eða samþjöppunar byggðar á einum stað fremur en öðrum.

Fyrir fáum árum ræddi ég allítarlega við gamlan mann vestur á fjörðum. Þetta var afar greindur og athugull maður, og hann lýsti á áhrifamikinn máta þróun byggðarinnar í sínu byggðarlagi. Þegar hann var ungur, sagði hann, þyrptist fólkið í verbúðirnar úti með firðinum. Um vertíðina var róið stutt og mikill afli fluttur á land. Síðan kom vélin í bátinn. Þá var auðvelt að sigla lengri leið á miðin, og meira þurfti ekki til þess, að fólkið fluttist inn í þorpið við botn fjarðarins. Verbúðirnar lögðust þar með niður. Mér hefur oft virzt þessi litla saga gamla mannsins lýsa betur en flest annað þeim miklu áhrifum, sem tækniþróunin sem slík hefur haft á þróun byggðar. Í þessu tilfelli olli hún fyrst og fremst röskun innan byggðarlags, en fyrir byggðarlagið var um byltingu að ræða.

Upp úr aldamótunum hófst togaraútgerðin. Útgerð fyrsta togarans hófst frá Hafnarfirði 1904. Þetta varð til þess, að íbúafjöldi Hafnarfjarðar meira en þrefaldaðist fyrsta áratug aldarinnar. Í Reykjavík varð einnig á þeim árum mikil fjölgun, og átti togaraútgerðin áreiðanlega verulegan þátt í því. Önnur þorp, þar sem hafnir voru góðar, stækkuðu einnig, eins og t. d. Ísafjörður, Seyðisfjörður, og fleiri staðir.

Þessi þróun hélt síðan áfram jafnt og þétt og gerir enn. Ný og stórvirkari atvinnutæki komu til sögunnar og þau voru yfirleitt sett niður á hinu vaxandi svæði við Faxaflóa, en einkum í Reykjavík. Þar var fljótlega meiri hluti togaraflotans og stöðugt vaxandi iðnaður.

Í þessu sambandi er einnig rétt að hafa í huga, að áhrif styrjaldarinnar voru mikil á búsetuna í landinu. Fyrir síðustu heimsstyrjöld var atvinnuleysi. Það hvarf eins og dögg,fyrir sólu með hersetunni. Framkvæmdir á vegum herjanna urðu hins vegar langtum mestar við sunnanverðan Faxaflóann. Fyrst og fremst af þessum sökum fjölgaði Reykvíkingum um 18. þús. á árunum 1940–1950. Einnig var mikil fjölgun í Hafnarfirði, Keflavík og á Akranesi.

Þessi þróun atvinnumála hefur að sjálfsögðu leitt til mikillar tekjuröskunar. Fróður maður hefur áætlað, að meðaltekjur í dreifbýlinu séu 15 þús. kr. lægri á hvern íbúa en á þéttbýlissvæðinu á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu eða að svo hafi verið á síðasta ári.

Í öðru lagi vil ég nefna opinbera starfsemi. Árið 1845 voru íbúar Reykjavíkur 950. Þá hafði bærinn verið valinn sem höfuðstaður landsins. Þjóðin fór smám saman að koma upp ýmsum stofnunum, og yfirleitt þótti ekki annað koma til greina en að staðsetja þær í eða við Reykjavík. Þetta eitt leiddi til verulegrar fjölgunar í bænum og ójafnaðar, sem enn eykst.

Í þriðja lagi má telja verzlunina. Þróun hennar hafði svipuð áhrif. Hún jókst mest í Reykjavík, þangað komu stærstu skipin, og svo varð raunar í vaxandi mæli. Siglingum erlendis frá til hafna úti um land fer stöðugt fækkandi.

Í fjórða lagi vil ég nefna hinar ýmsu þjónustugreinar. Í Reykjavík og á þéttbýlissvæðinu í kring eru þær allar mestar og beztar. Þar er heilbrigðisþjónusta langsamlega bezt og sumar greinar þeirrar þjónustu nálægt því ófáanlegar annars staðar á landinu, t. d. skurðlækningar, tannlækningar, og fleira mætti nefna. Þar eru hinir æðri skólar. Þar eru þjóðleikhúsið og sinfóníuhljómsveitin, sem allir landsmenn standa þó að. Sérfræðiþjónusta t. d. verkfræðinga er fyrst og fremst fáanleg í Reykjavík, og fjölmargt fleira mætti nefna. Til Reykjavíkur verða íbúar dreifbýlisins að sækja flestalla þjónustu, stóra og smáa, enda verða ferðirnar margar.

Í fimmta lagi vil ég nefna ýmsar félagslegar framkvæmdir af hálfu hins opinbera. Það er furðulegt, en þó hygg ég, að það sé satt, að ýmsar merkar framkvæmdir á þessum sviðum hafa aukið á ójöfnuð á milli landsmanna eða a. m. k. dregið hann fram í dagsljósið og það þrátt fyrir þá staðreynd, að í margar slíkar framkvæmdir hefur verulegu fjármagni verið varið í dreifbýlinu. Í þessu sambandi má nefna talsímann. Sjálfvirkur sími er nú víða kominn, en enginn samanburður er á símakerfi Reykjavíkur og nágrennis annars vegar og dreifbýlisins hins vegar, einkum er náð skal á milli byggðarlaga, sem ég hygg, að flestir þm. þekki af eigin raun. Staðreyndin er jafnframt sú, sem allir munu sjá, að íbúar dreifbýlisins verða að hafa langtum meiri samskipti símleiðis við hinar fjölmörgu opinberu stofnanir á höfuðborgarsvæðinu og leita símleiðis margháttaðrar þjónustu, sem aðeins er unnt að fá þar. Allir, sem hafa reynt að nota þennan síma, vita hins vegar, að stundum er ógerlegt að ná sambandi jafnvel klukkutímum saman. Auk þess fer því víðs fjarri, að nokkur jöfnuður ríki í talsímakostnaði. Þar ríkir þvert á móti ójöfnuður. Sjónvarp er orðið mikil lyftistöng fyrir hinar dreifðu byggðir eins og aðra landsmenn. Enn eru þó mörg byggðarlög afskekkt að þessu leyti. Þannig eykur sjónvarpið á ójöfnuð gagnvart íbúum slíkra byggðarlaga, og úr því verður að bæta. Mikið fé hefur verið lagt til vegabóta út um land, eins og ég mun minnast á síðar, og fleira, sem fjármagn hefur verið ráðstafað til, en það virðist ekki hrökkva til. Bilið virðist aukast. Framfarirnar í vegamálum hafa orðið mestar á höfuðborgarsvæðinu.

Í sjötta lagi vil ég nefna húsnæðismálin, sem eru e. t. v. einhver stærsti þrándur í götu eðlilegrar byggðaþróunar víðast um landið, ef ekki alls staðar. Þar hefur hið opinbera gengið fram fyrir skjöldu og þegar látið reisa um eða yfir 1000 íbúðir í Reykjavík með kjörum, sem eiga sér engan samanburð um landið.

Í sjöunda lagi vil ég nefna erfiðan fjárhag sveitarfélaga úti um land. Þau bera mörg, sveitarfélögin þar, miklar fjárhagsbyrðar, sem eru þéttbýlinu ókunnar. Svo er t. d. um flest eða öll sjávarþorp, þar sem útgerð er stunduð. Kostnaður við nauðsynlegar hafnir er þar víðast svo mikill, að hann sligar algerlega fjárhag viðkomandi sveitarfélags. Um þessar hafnir er þó fluttur á land aflinn, sem er grundvöllurinn að allri velmegun þjóðarinnar í dag.

Í áttunda lagi vil ég nefna skort á atvinnu fyrir menntað fólk. Það hefur þegar leitt til mikilla flutninga og getur gert í vaxandi mæli, eins og ég hef þegar minnzt á og mun minnast á síðar.

Ýmislegt fleira mætti telja, sem valdið hefur byggðaröskun, en ég vil ljúka þessari upptalningu með því að minnast á það atriði, sem gengur eins og rauður þráður þvert í gegnum flest eða allt það, sem ég hef talið hér að framan. Það er lífskjarabreytingin sjálf. Á fyrri áratugum og öldum var einskis annars krafizt en að hafa sæmilega vinnu og sæmilega í sig og á. Með auknum tekjum þjóðarinnar breyttist þetta. Menn fóru að leita eftir alls konar lífsþægindum, sem of langt mál yrði að telja hér upp, en allir þekkja. Meðal þeirra eru hins vegar ýmis atriði, sem ég hef nefnt að framan. Mörgum þessum óskum var aðeins fullnægt í þéttbýlinu, en hins vegar var fyrri kröfum í mörgum tilfellum betur fullnægt í dreifbýlinu en í þéttbýli, sem þá var að vísu mjög lítið.

Eins og ég hef áður rakið með tilvísun til ályktunar samstarfsnefndar Vestfirðinga, Austfirðinga og Norðlendinga, er margt, sem bendir til, að þessi þróun muni halda áfram. Ofangreind áhrif munu að ýmsu leyti haldast, og jafnframt hafa bætzt við ný. Sérstaklega vil ég leggja áherzlu á háa fæðingartölu á 6. áratugnum, sem fram kom í þessari ályktun, en lága á þeim 7., sem veldur því, að aldursskipting þjóðarinnar er mjög óvenjuleg um þessar mundir. Nálægt því 40 þús. Íslendingar verða tvítugir á þessum áratug. Það er athyglisvert, að hlutfallslega meiri hl. þessa unga fólks býr eins og er úti á landi. Hins vegar má telja öruggt, að það kjósi að ganga menntaveginn í vaxandi mæli eins og annað æskufólk þessa lands, og er það eðlilegt og sjálfsagt. Þá blasir hins vegar við sú staðreynd, að atvinna fyrir menntað fólk er sáralítil úti á landi. Það dregst því til höfuðborgarsvæðisins. Ef svo fer, mun það reynast mikil blóðtaka fyrir dreifbýlið.

Því miður hafa ýmsir lengi neitað að viðurkenna, hve alvarleg sú þróun er, sem ég hef nú rakið. Það er þó furðulegt. Fram á það má jafnvel sýna með tölum. Það kostar a. m. k. 2–3 millj. kr. að byggja yfir hverja fjölskyldu á nýjum stað. Umferðin eykst auk þess, og vegakerfið verður að bæta, ekki sízt á Reykjavíkursvæðinu, við aðflutninga. Atvinnu verður að skapa, og það kostar einnig fjármagn. Áætla má, að beinn útlagður kostnaður við að flytja t. d. Austfirðinga alla í annan landshluta yrði a. m. k. 4500–5000 millj. kr. vegna húsnæðis, gatna og annars, sem því fylgir, eingöngu, en heildarkostnaðurinn yrði vitanlega langtum og margfalt meiri. Gífurleg verðmæti í atvinnufyrirtækjum, höfnum, félagslegum aðbúnaði o. fl. færi forgörðum. Það má því verja miklu fjármagni til þess að bæta aðstöðu í dreifbýlinu og koma í veg fyrir brottflutninga. Ef til vill hafa hörmungarnar í Vestmannaeyjum opnað augu manna fyrir þessari staðreynd.

Ég er einnig sannfærður um, að fjárhagslega er það mjög óæskilegt fyrir þjóðfélagið og ekki sízt Reykjavík og höfuðborgarsvæðið, að hlutfallsleg aukning verði meiri á þessu svæði en annars staðar á landinu. Þetta eru þó að mínu viti smámunir einir hjá hinum óbeinu áhrifum. Víða eru sveitirnar að tæmast í kringum þorpin. Þorpin fá ekki lengur nýtt blóð úr sveitunum, og þá mun þess ekki langt að bíða, að þorpin tæmast einnig. Að sjálfsögðu verða landgæðin ekki nýtt, þar sem fólkið er flutt á brott. Að vísu segja sumir, að eins gott sé að flytja inn landbúnaðarafurðir. Þá gleymist hins vegar hinn mikilvægi þáttur landbúnaðarins, ekki aðeins í matvælaframleiðslu þjóðarinnar, heldur einnig sem undirstöðuframleiðsla fyrir fjölþættan og mikilvægan iðnað. Einnig er rétt að minnast þess, að góð matvara verður stöðugt eftirsóttari í fjölgandi heimi. Það er sannfæring mín, að þess verði ekki langt að bíða, að okkur Íslendingum eða öðrum verður ekki talið heimilt að nýta ekki hvert það landsvæði, sem nýtanlegt er til matvælaframleiðslu. Það mun skorturinn, sem fram undan er í heiminum, ákveða.

Ég hef einnig heyrt grjótharða þéttbýlismenn fullyrða, að við gætum alveg eins sótt sjóinn á togurum frá Faxaflóasvæðinu. Þetta er að sjálfsögðu svo mikil fjarstæða, að varla er svaravert. Hinir fjölmörgu litlu bátar og fiskvinnslustöðvarnar mörgu úti um landið eru mikilvægustu hlekkirnir í hráefnaöflun landsmanna og vinnslu. Slíku verður aldrei sinnt frá einum landshluta við breytileg veður og aðstæður. Nægir í þessu sambandi að benda á loðnuveiðarnar og þá erfiðleika, sem það hefur valdið þjóðinni, að fiskvinnslustöðvarnar í Vestmannaeyjum eru ekki starfræktar eins og stendur.

Þótt ofangreindar raddir hafi heyrzt, viðurkenna þó margir hins vegar hina alvarlegu þróun í byggðamálum. Á Alþ, hafa verið fluttar ýmsar till. til úrbóta, en því miður hefur oft orðið minna úr framkvæmdum en undirtektir hafa gefið til kynna upp á síðkastið.

Sem dæmi má nefna till., sem samþ. var árið 1963 um 5 ára áætlun til stöðvunar á fólksflótta frá Vestfjörðum. Hún hefur ekki enn verið framkvæmd nema að mjög litlu leyti.

Einnig má nefna till. um jöfnun á kostnaði við vöruflutninga um landið, þáltill., sem flutt var fyrir tveimur árum og hefur ekki enn komið til framkvæmda.

Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum, að vinna hefur hafizt við landshlutaáætlanir, einkum samgönguáætlanir. Byggðaáætlanir eru fyrst nú að hefjast.

Á sumum sviðum hefur að vísu verið gert stórt átak og myndarlegt. Svo er t. d. með rafvæðingu dreifbýlisins, sem hófst með miklum myndarskap fyrir allmörgum árum. Síðan var mjög dregið úr þeim framkvæmdum á tímum viðreisnarstjórnarinnar, en nú á að reka endahnútinn á þetta mál með myndarlegu átaki.

Töluverðu fjármagni hefur verið veitt til dreifbýlisins til atvinnuuppbyggingar, einkum nú upp á síðkastið. Hefur þar á orðið mikil breyting til batnaðar. Nefna má atvinnujöfnunarsjóð, sem nú nefnist byggðasjóður og í tíð núv. ríkisstj. var stórkostlega aukinn, eins og allir þekkja. Mikið fjármagn hefur runnið til uppbyggingar togaraútgerðar um landið, og ráðgert er að veita þúsundir millj. til endurbóta á frystihúsunum. Fleira má vissulega nefna, sem vel hefur verið gert eða a. m. k. reynt. Leitazt er við að bæta heilbrigðisþjónustu og menntun.

Staðreyndin er þó sú, að árangur hefur orðið minni en til hefur verið stofnað. Um það tala tölurnar, sem ég hef fyrr rakið. Spurningin verður því sú: Hvers vegna? Þeirri spurningu verður að svara, annað væri ábyrgðarleysi og leiðir fyrst og fremst til sóunar á kröftum og fjármagni.

Ég er sannfærður um, að þetta stafar fyrst og fremst af því, að ekki hefur verið unnið að þessum málum nógu samhliða eða alhliða. Það er ekki nóg að veita fjármagni til nýrra frystihúsa eða togara eða annarrar atvinnuuppbyggingar. Slíku verður að fylgja átak í húsnæðismálum, þjónustugreinum, starfsaðstaða fyrir menntað fólk, fjölbreyttara félagslíf, góð heilbrigðisþjónusta, aðstaða til menntunar og fjölmargt fleira. Þessi mikilvægi þáttur stjórnsýslu hefur ekki heldur náð að verða metinn til jafns við aðra þætti. Segja má, að dreifbýlishugsjónin hafi verið eins konar aukastarf í ríkisbákninu.

Ég er því þeirrar skoðunar, að í okkar dreifbýlismálum skorti viðurkennda stefnu. Slík stefna þarf að verða fastur þáttur í stjórnkerfi landsins og í öllum opinberum aðgerðum. Það er með þetta í huga, sem ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Vilhjálmi Hjálmarssyni og Stefáni Valgeirssyni að leggja fram till. til þál. um mörkun almennrar stefnu í byggðamálum.

Við leggjum til, að Alþ. feli 7 manna n. þm., sem kosin verði hlutfallskosningu í sameinuðu Alþ., að gera till. um markmið og leiðir og mörkun almennrar stefnu til jafnvægis í byggð landsins. Skal að því stefnt, að markviss stefna á því sviði verði viðurkenndur og fastur þáttur í íslenzkri stjórnsýslu.

Einhver segir e. t. v., að réttara sé að fela ríkisstj. sjálfri að marka slíka stefnu. Á það get ég ekki fallizt. Til þess eru dæmin allt of mörg um þáltill., sem samþ. hafa verið og sendar ríkisstj. og rykfallið þar í skúffum. Þetta er allt of mikilvægt mál til þess, að svo megi um það fara.

Öðrum sýnist e. t. v., að fela ætti þetta n. sérfræðinga. Því er ég einnig ósammála. Þetta mál er engu síður mannlegs eðlis en sérfræðilegs, og það er í grundvallaratriðum stjórnmálalegs eðlis.

Eðlilegast virðist, að stjórnmálamenn marki hina almennu stefnu og skipi henni sess í stjórnkerfinu. : Að sjálfsögðu munu þeir nota til hins ítrasta og í ríkum mæli starfskrafta sérfræðinga við þá tillögugerð.

Í till. eru síðan talin upp nokkur atriði, sem n. er m. a. falið að skoða.

Í fyrsta lagi er nefnt, að kanna skuli, hvaða atriði valda fyrst og fremst mismunum á milli landsmanna eftir búsetu, bæði fjárhagslegri og félagslegri. Þetta hef ég rakið að nokkru fyrr í ræðu minni. Slíkar grundvallarupplýsingar eru hins vegar mikilvægar og þurfa að skoðast langtum nánar. Mér sýnist eðlilegt að fela t. d. þjóðfélagsfræðingi að rannsaka þetta til hlítar.

Í öðru lagi á n. að kanna eins og unnt er hin þjóðhagslegu áhrif þeirrar þróunar í byggðamálum, sem átt hefur sér stað á undanförnum áratugum. Það skal viðurkennt, að hér er um allerfitt verkefni að ræða. Þó hygg ég, að tilraun í þessa átt mundi varpa nokkru ljósi á þetta mikilvæga mál.

Í þriðja lagi ber n. að kanna, hvaða ráðstafanir nágrannaþjóðirnar hafa gert á þessu sviði og hvaða almenna stefnu þær hafa markað. Staðreyndin er sú, að aðrar þjóðir hafa tekið þessi mál langtum fastari tökum en við Íslendingar höfum gert. Svo er t. d. með Norðmenn. Þar var þegar á árunum 1945–1951 lagður grundvöllur að markvissri þróunarstefnu fyrir Norður-Noreg. Síðan hefur sú starfsemi margfaldazt og tekið á sig fastara form. Starfið nær til allra þátta þjóðlífsins á þessum svæðum. Um starfsemina eru reglulega gefnar ítarlegar skýrslur til Stórþingsins. Ég hef hér undir höndum skýrsluna frá árunum 1972–1973, sem fjallar um markmið og leiðir í dreifbýlisþróun. Þar er að finna mjög mikinn fróðleik, sem of langt mál yrði að rekja hér. En ég vil geta þess jafnframt, sem hv. þm. geta séð í síðasta hefti af Nordisk kontakt, að í norska Stórþinginu hafa verið lagðar fram tvær yfirgripsmiklar till. tveggja síðustu ríkisstj. um endurskoðun á þessum málum með nánari útfærslu en til þessa hefur verið, og er þar enn lögð rík áherzla á almenna stefnumótun með byggðaþróun í landinu öllu í huga. Í öllu þessu má finna mjög mikinn fróðleik, sem of langt mál yrði að rekja hér. Slíkt þarf n. hins vegar að skoða ítarlega. Það er sannfæring mín, að af Norðmönnum megi mikið læra í þessu sambandi. Ég vil að vísu geta þess, að stefna Norðmanna á þessu sviði hefur einnig verið mikið gagnrýnd þar í landi. Má í því sambandi benda á hina athyglisverðu bók Ottars Brooks: „Hvad sker í Nord-Norge, en studie í norsk utkantpolitik.“ Ottar Brooks fullyrðir, að um of hafi verið einblínt á hin stórvirku nýju tæki atvinnuveganna, eins og togaraútgerð og frystihús. Hitt hafi gleymzt, að víða megi tryggja betri lífskjör á ódýrari máta, með búskap og trilluútgerð. Hvað sem því líður, er víst, að sama lausnin hentar ekki öllum byggðarlögum landsins. Slíkt þarf n. einnig að hafa í huga og kynna sér.

Í fjórða lagi er n. ætlað að athuga, hvað unnt er að gera af opinberri hálfu til þess að jafna metin á milli landsmanna, og gera tilraun til þess að meta áhrif slíkra aðgerða og kostnað við slíkar aðgerðir. Fjölmargt kemur að sjálfsögðu til greina í þessu sambandi. Sumt hef ég nefnt. Benda má á aukið fjármagn til uppbyggingar í dreifbýlinu. Þetta er þó líklega það sviðið, sem einna skást hefur verið sinnt á síðustu árum. Staðreyndin er sú, að í þessu sambandi hefur nú verið gert myndarlegt átak, sem stundum gleymist og ég hef bent á hér áður. Það er mikið fjármagn, sem til dreifbýlisins rennur, ekki aðeins í gegnum stórefldan byggðasjóð, endurbætur á frystihúsunum, til vegamála, til opinberra framkvæmda, heldur einnig í gegnum aðra stofnlánasjóði eins og stofnlánasjóð landbúnaðarins, lánasjóð sveitarfélaga o. fl. Þótt sjálfsagt sé að skoða þetta atriði vandlega, hygg ég þó, að leggja beri meiri áherzlu á aðra þætti.

Ég vil nefna flutning opinberra stofnana. Það er nú í athugun hjá sérstakri n., og vænti ég mikils af störfum þeirrar n., en gera má ráð fyrir, að hún skili áliti á þessu ári. Slíkt þarf hins vegar að fella inn í þá heildarmynd, sem stefnt er að með þessari till. Auka þarf jöfnuð fjárhagslega. Ég hef bent á erfiðleika sveitarfélaganna. Um það liggja nú fyrir miklar upplýsingar. Ég hef nefnt hafnirnar. Þar standa fyrir dyrum endurbætur, en ég óttast, að meira þurfi að gera, ef duga skal.

Sjálfsagt er að stefna að sem mestum jöfnuði í talsímakostnaði, og ber í því sambandi að taka tillit til aðstöðumunar dreifbýlisins, sem talsíminn verður að brúa að verulegu leyti.

Á sviði húsnæðismála getur hið opinbera haft mjög mikil áhrif til bóta, en þá verður stefnan að gerbreytast frá því, sem nú er, dreifbýlinu í vil. „Breiðholtsframkvæmdir“ fyrir dreifbýlið verða að hefjast hið fyrsta.

Benda má á skattaívilnanir, sem geta stuðlað að flutningi fyrirtækja út á land og eru notaðar í ríkum mæli t. d. í Noregi. Opinberar álögur, sem auka ójöfnuð, þurfa að hverfa, t. d. söluskattur af vöruflutningum.

Á sviði félagsmála má benda á ýmislegt. Ekki virðist óeðlilegt, að þjóðleikhús og sinfóníuhljómsveit okkar landsmanna allra leiki meira úti um land eða sjónvarpað verði frá slíkum sýningum fyrir landsmenn alla. Skoða þarf aukna áætlanagerð og framkvæmd hennar. Og fjölmargt fleira mætti nefna, sem að liði getur komið.

Í fimmta lagi er n. ætlað að gera till. um markmið í byggðamálum. Að hverju viljum við stefna á þessu sviði? Þetta á ekki aðeins við um landið sem heild, heldur einnig um einstakar byggðir. Gert er ráð fyrir aukinni áætlanagerð á næstunni, og er það góðra gjalda vert. En mér hefur oft virzt, að markmiðin vanti, og vil ég líta á dæmi.

Í Vestur-Barðastrandarsýslu búa nú tæplega 2 þús. manns. Fyrir þetta svæði þyrfti að gera sérstaka svæðisáætlun. Við gerð slíkrar áætlunar er vitanlega fjarstæða að miða við að viðhalda 2. þús. íbúum. Miða verður við a. m. k, tvöföldun þessa íbúafjölda, t. d. á næstu 10 árum. Ekki er heldur nægilegt, að slík áætlun nái til eins þáttar atvinnulífsins eða atvinnulífsins eins. Hún verður að ná til þeirra allra og einnig þjónustugreina, húsnæðismála og hinna fjölmörgu annarra þátta, sem ég hef oft nefnt.

En einnig þarf að setja markmið fyrir landið í heild. líklega er tiltölulega lítil hætta á verulegri byggðaröskun á Vesturlandi og Suðurlandi á næstu árum. Þessi landhlutar eru í nágrenni þéttbýlisins og munu njóta góðs í vaxandi mæli af bættum samgöngum. Þetta sýna raunar þær tölur, sem ég las í upphafi míns máls. Öðru máli gegnir hins vegar um Vestfirðina, Norðurlandið og Austfirðina. Þar verður að gera sérstakt átak. N. þarf að athuga, hvert markmiðið á að vera einnig að þessu leyti.

Í sjötta lagi er n. ætlað að gera till. um leiðir til þess að ná fyrrgreindum markmiðum. M. ö. o. er n. ætlað að velja úr þeim fjölmörgu atriðum, sem til greina koma og hún hefur áður skoðað. Henni ber að velja þau, sem hún telur, að bezt henti okkar staðháttum, séu árangursríkust og auðveldust í framkvæmd.

Loks er n. ætlað að leggja fram drög að almennri stefnu í byggðamálum. Með þessu á n. að gera till. um eins konar nýjan ramma um allar framkvæmdir í byggðamálum. Henni er ætlað að gera till. um þá stefnu, sem verði ríkisvaldinu og stofnunum þess leiðarljós við framkvæmd byggðastefnunnar. Það er t. d. mikilvægt í mínum huga, ef viðurkennt fæst, að opinberar aðgerðir skuli ekki stuðla að ójöfnuði meðal landsmanna, ef með skynsamlegu móti er hægt að koma í veg fyrir slíkt. Það er ekki síður mikilvægt að fá viðurkennt, að réttmætt sé og þjóðhagslega nauðsynlegt að verja verulegu fjármagni til að viðhalda byggð í landinu öllu. Ég er að vísu sjálfur heldur vantrúaður á einhverja allsherjaráætlun um byggð í landinu. Ég er hræddur um, að framkvæmdir á einstökum sviðum og í einstökum landshlutum kunni að drukkna í gerð slíkrar áætlunar. Hins vegar þarf að marka almenna stefnu að þessu leyti. Á að stefna að sömu hundraðshlutadreifingu íbúanna um landið og nú er? Það er í mínum huga fjarstæða. Fjölgun verður að verða tiltölulega meiri úti í dreifbýlinu. Blóðtakan er þegar orðin svo mikil, að á hættulegt stig er komið. Á að leggja áherzlu á byggðakjarna, eins og nokkur áherzla hefur verið lögð á upp á síðkastið, eða á dreifingu byggðarinnar.

Það eru slíkar spurningar og þá fyrst og fremst svörin við þeim, sem marka munu hina almennu stefnu.

Í þessu sambandi þarf n. einnig að gera till. um það, hvernig stjórn byggðamálanna verði háttað. Mér virðist vel koma til greina að fela einu rn. að fylgjast með þessum málum. Það yrði eins konar þverfaglegt rn., eins og nú er mjög rætt um í mörgum tilfellum, og hefði yfirumsjón með framkvæmd byggðastefnunnar. Því bæri að gæta þess, að ekki sé brugðið út af þeirri stefnu, sem samþ. hefur verið. Ég tel einnig sjálfsagt að fela landshlutunum sjálfum í vaxandi mæli verkefni við framkvæmd slíkrar stefnu. T. d. er nauðsynlegt, að þar verði unnið að verulegu leyti að ýmsum byggða- og svæðisáætlunum. Einnig er eðlilegt, að stofnanir landshlutanna eða fulltrúar fái í vaxandi mæli tillögu- og ákvarðanarétt um úthlutun fjármagns til ýmiss konar framkvæmda. Þaðan þurfa að koma till. um forgangshröðun verkefna, og mér virðist sjálfsagt að skoða, hvort til greina geti komið aukin sjálfstjórn landshlutanna að einhverju leyti.

Það er hins vegar ekki á valdi u. að ákveða slíka stefnu, því að n. er aðeins ætlað að leggja fram drög að almennri stefnu í byggðamálum. Þessi drög þyrfti að ræða á Alþingi. Alþ. þarf að ákveða, hver stefnan verður. Mér sýnist einnig sjálfsagt, að Alþ. sé reglulega gerð grein fyrir því, hvað líður framkvæmd þeirrar stefnu, sem ákveðin hefur verið.

Að lokum er n. ætlað að fá eðlilega starfsaðstöðu og sérfræðiþjónustu. Eðlilegt virðist, að Framkvæmdastofnun ríkisins verði falið að veita n. þá aðstoð, sem hún þarfnast. Sömuleiðis sýnist flm. eðlilegt, að byggðasjóður greiði kostnað við störf nefndarinnar.

Sjálfsagt segir einhver, að rétt sé að fela Framkvæmdastofnun ríkisins þetta verkefni. Það er í tízku að vísa öllu til Stofnunarinnar (með stóru S). Þetta er hins vegar misskilningur að mínu viti. Framkvæmdastofnunin starfar innan þess ramma, sem nú ræður og ég hef leitazt við að sýna að er mjög ófullkominn. Auk þess vinnur Framkvæmdastofnun ríkisins fyrst og fremst á sviði atvinnumála og nokkuð á sviði samgöngumála. Það eru aðeins tveir þættir af fjölmörgum, sem áhrif hafa á byggðaþróun, eins og ég hef margendurtekið. Þegar ný stefna hefur verið mörkuð, er hins vegar sjálfsagt, að Framkvæmdastofnun ríkisins hagi starfsemi sinni í samræmi við þá stefnu.

Ég vil taka það fram, að þótt með þáltill. þessari sé rætt um að marka almenna stefnu í byggðamálum, og ég hef lagt áherzlu á, að sem flestir þættir þessara mála þurfa að fylgjast að, sé ég ekkert athugavert við það, að stöðugt sé ýtt á á einstökum sviðum. Fyrir Alþ. liggja athyglisverðar till. um endurbætur á takmörkuðum sviðum byggðamála. Þeim hyggst ég yfirleitt fylgja, og ég hef einnig í huga að hreyfa öðrum málum svipaðs eðlis. Slíkar framkvæmdir þurfa hins vegar að falla inn í þann almenna ramma, sem lagt er til, að ákveðinn verði með þessari þáltill.

Að lokum vil ég leggja sérstaka áherzlu á það, að alls ekki má vinna að byggðaþróun með því að ota einum landshluta gegn öðrum, enda er það algerlega óþarft. Viðbótarkostnaðurinn, þótt á hann einan sé litið, við hvern nýjan íbúa í höfuðborginni eða í nærliggjandi þéttbýli hennar er meiri en nemur meðalkostnaði vegna þeirra, sem fyrir eru. Reykjavík og þetta svæði er m. ö. o. komið fram úr hagkvæmnismarkinu. Öðru máli gegnir um dreifbýlið. Það er alls staðar komið niður fyrir það mark. Þar er aukinn íbúafjöldi höfuðforsenda aukinnar hagkvæmni. Þannig má vera ljóst, að það er þjóðhagslega hagkvæmt frá rekstrarlegu sjónarmiði að jafna byggðina betur en nú er orðið. Byggðastefnunni er því ekki beint gegn neinum. Um þjóðarhag er að ræða. Ég hygg einnig, að stöðugt fleirum verði ljóst, að sú velmegun, sem þéttbýlið býr við, á að verulegu leyti rætur sínar að rekja til öflunar og vinnslu hráefnis í dreifbýlinu. Gera þarf mönnum ljóst, að það er sannarlega þess virði að leggja töluvert af mörkum til þess að viðhalda þeirri framleiðslu og nýtingu landsins alls.

Ég hef farið allmörgum orðum um þetta málefni. Það hef ég gert vegna þess, að það er sannfæring mín, að jafnvægi í byggð landsins er enn stærra mál en landhelgismálið og efnahagsmálin til samans. Við munum lengi þrauka og höfum raunar gert það, þótt gengið falli. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að ná tökum á fiskveiðilögsögunni allri. En við munum aldrei nýta þessa fiskveiðilögsögu, ef við gerumst borgríki, öll búsett á suðvesturhorni landsins. Enda er það sannfæring mín, að þá munum við ekki lengi geta gert tilkall til lands okkar.

Það er vitanlega fjarstæða, að jafnvægi náist í byggð landsins með einu stóru allsherjarátaki. Að því þarf að vinna jafnt og þétt á mörgum sviðum og löngum tíma. En ég vona, að mér hafi tekizt að sýna fram á, að því aðeins muni þetta takast, ef unnið verður alhliða með markvissa stefnu að leiðarljósi. Að mótun slíkrar stefnu er þessari þáltill. ætlað að stuðla.

Herra forseti. Ég vil svo að lokum leggja til, að till. verði að þessari umr. lokinni vísað til síðari umr. og hv. allshn.