19.03.1973
Efri deild: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2581 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

197. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 374 er frv. til l. um breyt. á l. um tollskrá. Eins og fram kemur í aths. frv., er þetta frv. flutt í kjölfar þeirrar samþykktar, sem Alþ. gerði fyrir nokkru, að staðfesta samning Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu, og hefur verið skipzt á tilkynningum samningsaðila um, að samningurinn hafi hlotið þá meðferð, sem nauðsynleg er hjá hvorum samningsaðila um sig, til þess að hann taki gildi. Tilkynningaskiptin fóru fram 28. febr. s. l., og tekur samningurinn því gildi 1. apríl n. k.

Lagafrv. þetta er bein afleiðing af staðfestingu Íslands á samningi Íslands við Efnahagsbandalagið og felur eingöngu í sér nauðsynlegar orðalagsbreytingar á 1. gr. l. um tollskrá o. fl. nr. 1. frá 1970, til þess að tollfríðindum þeim, sem innflutningur frá EFTA-löndunum hefur notið, verði jafnframt heitt gagnvart innflutningi frá Efnahagsbandalaginu. Jafnframt eru tiltekin þau 21 tollskrárnr., sem samningur Íslands og EBE tekur ekki til varðandi innflutning til Íslands, en falla hins vegar undir ákvæði EFTA-samningsins um fríverzlun.

Það þótti rétt að hafa þennan hátt á breytingunum gagnvart Efnahagsbandalaginu nú. Hins vegar er tollskráin í endurskoðun, og er gert ráð fyrir að leggja fram heildarfrv. til l. að tollskrá í byrjun næsta þings, svo að samþykkt laga um tollskrá geti farið fram fyrir 1. jan. 1974, en þá kemur og til afgreiðslu breyting vegna samninganna við EFTA og Efnahagsbandalagið. Þá munu einnig verða tekin til meðferðar þau önnur atriði, sem hafa sérstaklega verið til endurskoðunar í sambandi við heildarendurskoðun á tollskránni. Frv. þetta felur hins vegar ekki í sér neina aðra breytingu en sem leiðir af þessum samningi, og er þess vænzt, að hv. Alþ. geti afgreitt frv með þeim hætti.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. fjhn. d., og treysti því, að það fái fljóta afgreiðslu hér í hv. deild.