19.03.1973
Efri deild: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2582 í B-deild Alþingistíðinda. (1969)

30. mál, leigunám hvalveiðiskipa

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Við fulltrúar Sjálfstfl. í allshn. höfum ekki skrifað undir nál. Það er ekki vegna þess, að það sé nokkur minnsti ágreiningur um nauðsyn þess að tryggja skip til viðhlítandi landhelgisgæzlu, heldur vegna hins, að við teljum, að eins og málin standa nú sé þarflaust að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir. Hafi einhvern tíma þurft á því að halda, þá hefur það a. m. k. náð tilgangi sínum. Það tókust samningar milli rn. og Hvals hf. um leigu á einu hvalveiðiskipi, sem mér skilst, að hafi reynzt ágætlega til þessara starfa, og það skip er enn í leigu og ekkert, sem bendir sérstaklega til þess, að þurfi á að halda á næstunni slíkum lögum, sem hér er farið fram á að staðfesta. Brbl. hafa því, ef þau hafa að einhverju leyti stuðlað að samningum um skipið, gert sitt gagn. Ég skal ekkert fullyrða um, hvort það hafi nokkurn tíma verið þörf á þeim, en við skulum ekki deila um það. En eins og sakir standa í dag þykir okkur mjög óeðlilegt að framlengja þessi lög ótímabundin og slíkt eigi ekki að gera, að ákveða um leigunám eða veita leigunámsheimildir, nema brýna nauðsyn beri til.

Við þetta er einnig því að bæta, að hæstv. forsrh. hefur gefið hér ýmsar eftirtektarverðar upplýsingar í sinni ræðu, sem í rauninni eru nægileg rök fyrir þeirri skoðun okkar í minni hl. n., að þetta frv. eigi ekki að staðfesta eða sé þarflaust að staðfesta og veita slíka heimild sem hér um ræðir. Ef ég hef skilið hann rétt, þá er ekkert, sem bendir til þess, að ekki sé fullur vilji fyrir hjá báðum aðilum, bæði ríkisstj. að mæta sanngjörnum óskum Hvals hf., því að auðvitað má ekki stöðva hvalveiðar, — við sjáum, hvaða þýðingu þær hafa við þjóðarbúið, — og einnig af hálfu Hvals að verða við sanngjörnum óskum ríkisstj. um framhaldandi leigu skips, ef hægt verður að fá annað skip til hvalveiðanna. Mér sýnist því allt benda til þess, að það sé alveg ástæðulaust að veita heimild þá, sem hér um ræðir, þ. e. a. s. með þeim hætti að samþykkja þetta frv.

Nú skilst mér, ef ég hef tekið rétt eftir, að það hafi orðið um það samkomulag að fresta til næstu mánaðamóta endanlegri ákvörðun um, hvað gert yrði í þessu máli. Ég held, að það liggi a. m. k. alveg ljóst fyrir, að Alþ. verði ekki lokið fyrir næstu mánaðamót, og ég held þess vegna, að undir öllum kringumstæðum eigi að fresta afgreiðslu þessa máls hér í hv. d. og sjá til, hvort gerist nokkur þörf á að vera að veita þá heimild, sem hér um ræðir. Ég hygg í rauninni, að það sé enginn hér í hv. d., sem telur það út af fyrir sig æskilegt að þurfa að grípa til heimilda sem þessara, og úr því að ríkisstj. sjálf hefur talið, að hægt væri að fresta þessu máli um skeið og sjá, hvernig til tækist, þá sýnist mér, að það væri í bili æskilegast að láta málið liggja, en að öðru leyti, ef það fæst ekki fram, þá er það skoðun okkar í minni hl. n. með hliðsjón af öllum atvikum málsins, eins og þau eru, að þetta frv. eigi ekki að samþykkja, það sé þarflaust. Þurfi hins vegar á því að halda að grípa til einhverra aðgerða til að tryggja Landhelgisgæzlunni nauðsynlegan skipakost, hvort sem það verður með þessum hætti eða öðrum, þá mun ekki standa á okkur til liðsinnis við hæstv. ríkisstj. í því efni, en við væntum þess, að hún vilji taka með sanngirni á málum og heimta ekki sér til handa leigunámsheimildir, nema brýna nauðsyn beri til. En það er sýnilegt, að málin standa nú þannig, að þessi brýna nauðsyn er ekki fyrir hendi.