19.03.1973
Efri deild: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2585 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

105. mál, dómari og rannsóknardeild í ávana- og fíkniefnamálum

Frsm. (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Allshn. Ed. hefur rætt frv. þetta um sérstakan dómstól og rannsóknardeild í ávana- og fíkniefnamálum. Hún hefur fengið umsagnir frá Læknafélagi Íslands og lögreglustj. í Reykjavík. N. leggur einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Umsagnir komu aðeins frá tveimur aðilum um þetta frv., enda þótt við hefðum sent það til fleiri. Læknafélag Íslands sendi svo hljóðandi umsögn:

„Stjórn Læknafélags Íslands fagnar flutningi þessa frv., sem getur, ef að lögum verður, samræmt og eflt til muna varnir gegn ólöglegri meðferð ávana- og fíkniefna. Læknafélag Íslands sér ekki ástæðu til að gera athugasemd við frv.“

Lögreglustjórinn í Reykjavík sendi grg. og leyfi ég mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér upp úr þeirri umsögn. Þar segir m. a.:

Sérstakur samstarfshópur löggæzlumanna hafði hér vinnuaðstöðu og leitaðist við að staðreyna, hvort og hvað mikil brögð væru orðin að dreifingu, neyzlu og annarri meðferð ávana- og fíkniefna meðal íslenzkra ungmenna. Könnunin beindist í fyrstu einkum aftur í tímann, og leiddi hún í ljós, að neyzla fíkniefna var þegar orðin umtalsverð á landi hér, þannig að frekari ráðstafana væri þörf.“

Lögreglustjórinn er algerlega fylgjandi fyrra meginefnisatriði þessa frv., þ. e. skipun sérstaks dóms. Aftur á móti segir hann svo, þar sem hann ræðir um stofnun sérstakrar deildar lögreglunnar:

„Frv. því, er lagt hefur verið fram á hinu háa Alþingi, er m. a. ætlað að tengja nánar frumrannsóknir mála. Uppljóstrun um misferli getur beinlínis oltið á góðri samvinnu dómara og lögreglumanna, en lögreglumennirnir hafa oft aflað gagna og fylgzt með aðilum, er hafa fellt á sig grun um misferli, nokkurn tíma, áður en til beinna aðgerða dregur. Þegar svo er komið, að þeirra sé þörf, er mjög nauðsynlegt, að lögreglan eigi greiðan aðgang að dómara, til þess að fá hjá heimild til húsrannsóknar eða annan úrskurð, sem atbeina dómara þarf til samkvæmt lögum.“

Enn fremur segir hann að rétt þyki að benda á, hvort eigi væri hagkvæmt út frá hagsýnissjónarmiði að tryggja dómaranum starfsaðstöðu hjá einhverju þeirra dómaraembætta, sem fyrir hendi eru.

Lögreglustjórinn í Reykjavík er þess vegna ekki hlynntur því, að sérstök rannsóknardeild lögreglumanna starfi við þetta nýja dómaraembætti. Hins vegar var n. sammála um, að hér væri um svo aðkallandi og mikið vandamál að ræða og mál, þar sem þyrfti svo mikla sérhæfingu einstakra lögreglumanna, að okkur fannst sjálfsagt að leggja til, að þarna yrði sérstök rannsóknardeild undir stjórn eða í samvinnu við þann nýja dómstól, sem hér skal setja upp.

Eins og hv. alþm. er kunnugt um, þá eru tvö meginefnisatriði þessa nýja frv. Það er í fyrsta lagi stofnun sérstaks dóms í ávana- og fíkniefnamálum, sem skal hafa aðsetur í Reykjavík. Og í öðru lagi er það svo 8. gr., að við embætti dómara í ávana- og fíkniefnamálum og undir hans stjórn skal starfa sérstök deild lögreglumanna.

Síðan þetta frv. kom fram hér í þinginu, hafa gerzt ýmsir atburðir, er benda eindregið til þess, að enn þá sé langt í land hjá okkur að hafa hemil á þessum málum, svo sem vera skyldi. Hins vegar eru þær gleðilegu fréttir að fá utan úr löndum, að á ýmsum stöðum virðist margt benda til þess, að heldur sé að draga úr þeirri ofneyzlu, sem verið hefur í okkar nágrannalöndum á undanförnum árum. Eitt er víst, að við erum sammála um það, að mikil þörf sé fyrir sérstakan dómstól hér og mikil þörf fyrir sérstaka deild lögreglumanna, er hafi verið sérmenntaðir, ekki sízt í því að fara mannlega og þó valdsmannlega með þau ungmenni, sem oftast er hér um að ræða. Þess vegna höfum við komizt að þessari niðurstöðu að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.