19.03.1973
Efri deild: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2587 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

113. mál, fjölbrautaskóli

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Þegar frv. um stofnun fjölbrautaskóla var rætt við 1. umr., gat ég ekki verið viðstaddur, og því langar mig að gera nú að þessu sinni í stuttu máli grein fyrir afstöðu minni til þess.

Í fyrsta lagi vil ég taka það fram, að ég hef áhuga á því, að frv. nái fram að ganga. Í annan stað tel ég, að þörf sé á að koma slíku samræmdu fræðslukerfi á eins víða og nokkur kostur er. Í fræðsluráði Árnessýslu höfum við rætt nokkuð um skipulag skólamála, og fræðslustjórinn á Suðurlandi, Valgarð Runólfsson, hefur oftlega rætt við mig um möguleika á því að skipuleggja skólastarf á Suðurlandi á þann hátt, að jafngildi fjölbrautaskóla, og erum við á einu máli um, að að því beri að keppa.

Mér sýnist, að þetta frv., eins og það liggur fyrir, leysi ekki þann vanda, svo að óyggjandi sé, og því hef ég leyft mér að bera fram brtt. við 7. gr. þess, sem ég ætla, að nægi til þess að opna möguleika fyrir strjálbýlis byggðarlög að koma slíku kerfi á, ef áhugi er fyrir hendi um það, því að þótt í 6. gr. sé getið um það, að stofna megi fjölbrautaskóla víðar en í Reykjavík með samkomulagi við fleiri sveitarfélög, þá leysir það ekki þann vanda, sem ég hef hér gert að umræðuefni, og kem ég betur að því síðar.

Ég vil í framhaldi af þessu gera nokkru nánari grein fyrir till. minni, en kemst þó ekki hjá því að rekja í örstuttu máli nokkra þætti, sem til þess liggja, að frv. þetta er fram komið, svo og ástæðuna til þess, að ég vil með þessum tillöguflutningi opna leiðir til þess að stofna til fjölbrautaskóla við önnur skilyrði en frv. gerir ráð fyrir.

Ég hygg, að það hafi verið í júlí 1971, að fræðsluráð Reykjavíkur samþykkti till. um stofnun tilrannaskóla á gagnfræða- og menntaskólastigi, sem það sendi borgarstjórninni ásamt grg. Borgarstjórnin samþykkti till. fræðsluráðs, og fljótlega fram af því hófust viðræður við fulltrúa ríkisvaldsins um málið. Árangur þeirra viðræðna varð samningur um stofnun tilraunaskóla, sem á síðara stigi var nefndur sameinaður framhaldsskóli. Það frv. til l., sem hér er til umr. um fjölbrautaskóla, er í öllum megin atriðum byggt á þeim samningi, sem Reykjavíkurborg og ríkisvaldið hafa gert um sameinaðan framhaldsskóla. Í till. fræðsluráðsins í Reykjavík segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skólanum verði valinn staður í Breiðholtshverfi og verði hann hverfisskóli, er taki við öllum nemendum hverfisins að skyldunámi loknu.“

Eins og þessi tilvitnun ber með sér, var skólanum ætlað að þjóna tilteknu hverfi innan stærra heildarsvæðis, en ekki ætlað að ná til alls fræðsluumdæmisins.

Mér skilst, að þetta frv. geri einnig ráð fyrir því, að fjölbrautaskóli sé sérstök stofnun, sem undir sama þaki gefur fólki kost á mörgum valbrautum. Einnig er gert ráð fyrir því, að kennsla í ákveðnum greinum verði stöðluð og geti verið sameiginleg fyrir nemendur í mismunandi valgreinum. Þá byggir þetta skólaform á þeirri skipulagningu í námi, sem nefnd hefur verið einingarkerfi, þ. e. a. s. að hver námseining, sem lögð er að baki, verði metin nemandanum til ávinnings í framhaldsnámi, þótt hann skipti um aðalvalgrein. Það segir sig sjálft, að slíkt skólaform er mjög hagkvæmt fyrir ungt fólk, sem oft er leitandi um staðfasta ákvörðun um framtíðarstarf. Með þessu móti falla síður gagnslaus niður þau námsár, sem fara til þess að leita fyrir sér og finna verkefni við þeirra hæfi. Sú skoðun á vaxandi fylgi að fagna, að skóli í þessu formi muni leysa margan vanda þessara unglinga og að nauðsynlegt sé að stuðla að því, að hver einstaklingur nái góðri starfsmenntun á sem skemmstum tíma, ella muni innan skamms verða mjög tilfinnanlegur skortur á sérhæfðum starfskröftum í þjóðfélaginu. Þessi skoðun kemur víða fram, og má m. a. finna hana í till. verk- og tæknimenntunarnefndar. Þar kemur fram, að talið er nauðsynlegt að tengja saman allar námsbrautir og skóla á framhaldsskólastigi í samræmt kerfi.

Í fyrrnefndum till. fræðsluráðs Reykjavíkur um tilraunaskóla kemur þetta líka fram, en þar er lagt til, að í því hverfi, sem honum var ætlað að þjóna, verði allt almennt framhaldsnám sameinað í einni kennslustofnun. Þá kemur þetta og fram í ályktun frá ráðstefnu háskólamenntaðra kennara, sem haldin var sumarið 1972, ef ég man rétt. Þar er bent á nauðsyn þess, að sameinuðum framhaldsskólum verði komið upp í strjálbýlinu, og er megináherzla lögð á þessi atriði: Í fyrsta lagi, að stefnt verði að því, að almennt framhaldsnám í tilteknu umdæmi verði sameinað og námsskrár samræmdar. Í öðru lagi, að nemendur eigi kost á að velja um námsbrautir og valgreinar, hver við sitt hæfi, eftir þroska og áhugasviði. Og í þriðja lagi, að markmið framhaldsnámsins sé, að nemendur geti auk almennrar menntunar aukið kunnáttu sína og hæfni til frekara náms í æðri skólum og sérskólum eða undirbúið sig undir ýmis störf í atvinnulífinu með sérhæfðu námi þar að lútandi.

Mér virðist þetta frv. eingöngu miða að því að stofna einn skóla í hverju tilviki og muni því kalla á miklar byggingarframkvæmdir, auk þess sem slíkum stofnunum verður ekki við komið nema í þéttbýli. Og þótt í 6. gr. sé gert ráð fyrir samvinnu fleiri sveitarfélaga um slíka stofnun, eins og ég gat um áðan, sem er mjög mikilvægt ákvæði, einkum fyrir fjölmennari sveitarfélög, þá verður ekki séð, að frv. leyfi slíka samvinnuskóla sem till. mín gerir ráð fyrir og ég tel nauðsynlegt að koma á, ef hlutur strjálbýlisins á ekki að liggja eftir í þessu efni. Þeir skólar, sem hugsanlega gætu haft samvinnu um slíka skipulagningu náms í hinum einstöku fræðsluumdæmum, gætu væntanlega verið t. d. menntaskólar, héraðsskólar, iðnskólar, framhaldsdeildir gagnfræðaskóla, sem starfandi eru, og ýmsir sérskólar tengdir atvinnuvegunum, og fleiri skóla mætti ugglaust tengja þessu starfi.

Till. mín hnígur í þá átt að auðvelda sveitarfélögum eða samtökum þeirra að koma á fót fjölbrautaskólum með því að nýta húsnæði, sem er til á viðkomandi svæði. Með því að nokkrir skólar sameinist í þessu skyni og vinni eftir samræmdum náms- og kennsluáætlunum, væri hægt að koma á hagkvæmri verkaskiptingu milli þeirra, veita fræðslu á mun fleiri sviðum framhaldsnáms, og miklu fleiri starfs menntaðir, sérhæfðir kennarar mundu fást til starfa í strjálbýlinu en nú er.

Heimild til að stofna og starfrækja fjölbrautaskóla í strjálbýli er réttlætismál, sem ég tel vera mikilvægan þátt í þeirri viðleitni að bæta námsaðstöðuna þar. Á hinn bóginn er fyrirsjáanlegt, að ýmis sveitarfélög munu ekki sjá sér fært að taka þátt í stofnkostnaði við slíka skóla, ef um fjárfrekar nýbyggingar er að ræða. Ef till. mín verður samþykkt, má gera ráð fyrir möguleikum til margbreytilegs framhaldsnáms í strjálbýlum byggðarlögum, án þess að koma þurfi til verulegra nýbygginga. Till. mun því leiða til raunverulegs sparnaðar fyrir ríki og sveitarfélög. Að mínum dómi leyfir þetta frv. till. l. um fjölbrautaskóla ekki þá sameiningu skóla, sem till. mín gerir ráð fyrir. Till. er flutt til þess að taka af allan vafa og hindra hugsanlegan ágreining um túlkun síðar meir, þegar og ef till. um slíka sameiningu kemur fram.

Herra forseti. Ég tel ekki þörf frekari skýringa af minni hendi varðandi till. mína á þskj. 381, og ég gæti látið máli mínu lokið. En ég vil þó að lokum segja þetta: Vegna þess, hversu síðbúin till. mín er og menn hafa ekki átt þess kost að kynna sér efni hennar, mun ég taka hana aftur til 3. umr. En um leið vildi ég mega bera fram þá ósk við hv. menntmn., að hún tæki till. til athugunar milli umr. til þess að kanna, hvort verða mætti samstaða um endanlega afgreiðslu hennar.