19.03.1973
Efri deild: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2590 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

113. mál, fjölbrautaskóli

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Enda þótt flm. brtt. á þskj. 381, hv. 6. þm. Sunnl., hafi tekið till. sína aftur til 3. umr., vil ég ekki láta hjá líða að lýsa afstöðu minni til hennar. Ég er hlynntur þessari brtt., enda þótt skilningur minn á 6. gr. frv. sé og hafi verið sá, að hún gefi heimild þeirri aðferð við stofnun fjölbrautaskóla, sem nánar er útfærð í brtt. á þskj. 381.

Það er hverju orði sannara hjá flm., að það námsfyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í fjölbrautaskóla, er því dýrmætara landshlutum og héruðum, því erfiðara sem þau héruð ella eiga með að halda uppi framhaldsnámi. Og úr því að einhverjir tefja, að vafi geti leikið á, eins og 6. gr. er orðuð í frv., að unnt sé að efna til fjölbrautaskólahalds með verkaskiptingu milli skólastofnana, sem þegar eru til og þar sem byggingar hafa verið reistar, þá er sjálfsagt að taka af öll tvímæli um það efni.

Jafnframt vil ég vekja athygli á því, að verði að lögum þau frv., sem nú liggja fyrir hv. Nd. um endurskipun skyldunámsins, liggur það fyrir, að á eftir verður að fylgja allsherjarendurskoðun framhaldsnáms, og þá verður einn veigamesti þáttur þeirrar endurskoðunar að ganga nánar frá því, hversu fjölbrautaskólahaldi verði bezt við komið við mismunandi skilyrði, því að ljóst er á undirtektum þann skamma tíma, sem liðinn er, frá því að fjölbrautaskóli kom á dagskrá, að sú hugmynd á mjög mikinn hljómgrunn um allt land, bæði í þéttbýli og strjálbýli.