30.10.1972
Neðri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

27. mál, Tæknistofnun sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. shlj. því, sem hér liggur fyrir, var flutt á síðasta þingi, en það náði þá ekki fullnaðarafgreiðslu hér á Alþingi. Mér hefur þótt rétt að freista þess á nýjan leik að fá þetta frv. samþ., þar sem hér er um allþýðingarmikið mál að ræða.

Meginefni þessa frv. er það, að komið verði á fót sérstakri stofnun, Tæknistofnun sjávarútvegsins, sem hafi með höndum rannsóknir og tilraunir á ýmsu því, sem varðar sérstaklega tækniframfarir í sjávarútvegsmálum. Það er gert ráð fyrir því, að þessi stofnun verði undir stjórn samtaka útvegsmanna og sjómanna og það verði þeir, sem beri því mestan veg og vanda af rekstri þessarar stofnunar. Hér er ekki gert ráð fyrir því að byggja upp í upphafi stóra eða dýra stofnun. Lagt er til, að tiltekinn hluti af tekjum fiskimálasjóðs renni til þess að reka þessa stofnun, en einnig komi til nokkur föst fjárveiting á fjárl. Búast mætti við, að tekjur þessarar stofnunar af þessum tveimur tekjustofnum yrðu í kringum 6–7 millj. kr. á ári, eins og nú standa sakir. En nokkrar viðbótartekjur gæti stofnunin haft fyrir tiltekin verk, sem hún tæki að sér og fengi greiðslur fyrir.

Eins og kunnugt er, þá eru nú nokkrir aðilar, sem gefa sig að þessum málum að meira eða minna leyti. Þannig hefur það verið um nokkra hríð, að Fiskifélag Íslands hefur skipt sér af þessum málum, þótt lítið sé, hefur haft stundum í sinni þjónustu tæknifræðing eða tæknifróða menn, sem unnið hafa að nokkrum leiðbeiningarstörfum, en þó hefur þessi starfsemi aldrei náð nema mjög skammt. Tvær aðrar stofnanir, sem kostaðar eru af ríkinu, hafa líka sinnt þessum málum hvor á sínu sviði, en að mjög litlu leyti, og þar á ég við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnunina. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur nokkuð kynnt sér ýmis tæknimál, sem snerta sérstaklega fiskvinnsluna og fiskiðnaðinn, þótt sú stofnun helgi sig fyrst og fremst þeim störfum, sem snúa að fiskiðnaðarmálum, en ekki sérstaklega að vinnubrögðum í sambandi við þá starfsemi. Þá hefur Hafrannsóknastofnunin, sem hefur auðvitað fyrst og fremst með höndum fiskifræðilegar rannsóknir og athuganir ýmsar, einnig nokkuð fengizt við athuganir á veiðarfærum og gert nokkrar veiðitilraunir. Og síðast en ekki sízt hefur svo verið um það að ræða, að Fiskimálasjóður, sem hefur nokkrar tekjur, hefur veitt styrki eða lán til ýmissa aðila, sem hafa verið að fást við tæknilegar nýjungar eða tækniframfarir í þágu sjávarútvegsins.

Reynslan er sú, að þessi dreifing á þessum verkefnum er mjög óhagkvæm og skilar tiltölulega litlum árangri, og það er mjög hætt við því að jafnvel sé ár eftir ár verið að fást við sömu verkefnin af fleiri en einum aðila, og veldur það vitanlega alveg óþörfum kostnaði.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir því, að komið verði á fót sérstakri stofnun, sem hafi með þessi málefni að gera og yfirtaki þau, eftir því sem tök eru á. Þó hefur ekki þótt ástæða til að banna það, að þær stofnanir, sem unnið hafa á vegum sjávarútvegsins og nokkuð fengizt við þessi mál fram til þessa, létu sig þessi mál að einhverju leyti skipta áfram og þar yrði þá einkum um þá þætti málanna að ræða, sem sérstaklega tengjast eðlilegum störfum þessara stofnana. En það er lagt til í frv., að hin nýja stofnun hafi náið samstarf um þessi vinnubrögð við þessar tilteknu stofnanir. Það gefur auðvitað auga leið, að það er þýðingarmikið, að vel sé staðið að málum á þessu sviði fyrir sjávarútveginn í landinu, svo þýðingarmikill sem hann er fyrir okkar þjóðarbúskap. Við vitum, að það eru sífellt að koma upp ýmsar tækninýjungar, sem miða að framförum í vinnubrögðum og geta oft stórsparað rekstrarkostnað á ýmsum sviðum, ég það eru jafnan uppi ýmsar hugmyndir um nýjungar, og það þarf að reyna að fullreyna þær hugmyndir. Ég skal nefna hér eitt dæmi, sem mér finnst vera býsna lýsandi um það, hvernig — ástatt er um þessi mál hjá okkur nú, en það varðar framleiðslu á sérstakri beitingarvél í sambandi við línuútgerð. Það hafa margsinnis á undanförnum árum komið fram býsna athyglisverðar hugmyndir hjá ýmsum Íslendingum um það, hvernig mætti leysa þetta verkefni, hvernig mætti framleiða hagkvæma vél, sem gæti sparað útgerðinni talsverðan vinnukraft. Og það er hvað eftir annað búið, einkum á vegum Fiskimálasjóðs, að veita í þessu skyni styrki til ýmissa aðila. Það hefur jafnan farið þannig, að þær athyglisverðu hugmyndir, sem hafa komið fram nm gerð á svona vél, hafa ekki reynzt fyllilega svo góðar, að hægt væri að byggja á þeim framleiðslu á góðum vélum af þessu tagi. Við vitum, að það hefur einnig verið unnið að framleiðslu á svona vélum í nálægum löndum, bæði í Noregi, Færeyjum og víðar.

Nú er svo ástatt hjá okkur, að Fiskimálasjóður hefur veitt einstaklingi um 3 millj. kr. í styrk til þess að framleiða vél, sem á að leysa þetta verkefni. Það er enginn vafi á því, að sá aðili, sem á hér hlut að máli, hefur verið með margar mjög athyglisverðar hugmyndir í sambandi við þetta verkefni. En hann hefur hins vegar ekki mikla aðstöðu til þess að leysa verkefnið af hendi til fullnustu. Til þess að leysa slíkt verkefni af hendi þarf að hafa við höndina verkfróða menn, verkstæði og góða aðstöðu til þess að vinna að gerð véla, sem eru nokkuð samanslungnar eða gerðar úr mörgum þáttum. Ég skal ekki segja um það, hvort þessi tiltölulega ríflegi styrkur, sem nú hefur verið ákveðinn í þessu skyni, skilar fullum árangri og þessi vél kemur einhvern tíma á markað og leysir þennan vanda, sem hér er keppt að lausn á, eða hvort það fer enn eins og áður hefur farið, að við veitum þarna styrk, sem ekki nægir til þess að leysa verkefnið. Við höfum þegar byrjað á að flytja inn vélar, eða höfum flutt inn eina vél til reynslu frá Noregi, sem á að leysa þetta verkefni, og uppi eru óskir um það, að kaupa jafnvel einnig færeyska vél, sem framleidd hefur verið og á að vinna þetta verk.

Ég nefni þetta aðeins sem dæmi um, að það er óheppilegt að vinna að þýðingarmiklum úrlausnarefnum á þennan hátt, sem við höfum unnið. Það er sjálfsagt að taka til gaumgæfilegrar athugunar hugmyndir, sem fram koma og stefna að því að leysa viss vandamál. Þau eru fjölmörg, sem við er að fást og eytt er talsverðum fjármunum í að reyna að leysa, en þetta verður aldrei gert, svo að vel fari, án þess að við eigum sérstaka stofnun, sem vinnur að þessum verkefnum. Það þurfa að sjálfsögðu að veljast að þessari stofnun góðir menn, sem verða að geta haft verkstæði eða nokkra aðstöðu til þess að gera þær tilraunir, sem nauðsynlegt er að gera.

Þær aths. komu fram í sambandi við þetta mál á siðasta þingi, að hér væri ekki gengið nægilega langt í því að ákveða jafnframt að taka þessi verkefni af ýmsum öðrum stofnunum, sem hafa skv. lögum heimíld til að fjalla um þessi mál. Slíkar aðfinnslur finnast mér ekki á neinn hátt fullnægjandi til þess, að það eigi að hverfa frá þessu frv. Ef rétt þykir að taka verkefnið fullkomlega af þessum stofnunum og færa það yfir á þessa stofnun, þá er aðeins að breyta frv. í þá átt. Ég fyrir mitt leyti efast um, að rétt sé að gera það til að byrja með, vegna þess að vissir þættir, sem þessar stofnanir hafa fengizt við, mega gjarnan vera í þeirra höndum áfram í beinu samráði við þessa nýju stofnun. En rétt er að gera sér grein fyrir því, að það kemur upp þetta gamla vandamál, sem við ættum allir að þekkja. Þegar lagt er til, að ein sérstök stofnun fái verkefni eins og þau, sem hér er um að ræða, rísa gjarnan upp framámenn í öllum hinum stofnununum, sem hafa eitthvað haft með þessi mál að gera, og segja: Það er ég, sem á að hafa með þetta að gera, það ætti að taka það af öllum hinum, og það á alls ekki að setja upp nýja stofnun. — Þessar raddir heyrast frá forstöðumönnum þeirra stofnana, sem samkvæmt eðli málsins eiga að sinna allt öðrum verkefnum, sem þeir komast jafnvel engan veginn yfir að leysa.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta frv. við 1. umr., nema sérstakt tilefni gefist til. Ég hef rætt frv. hér áður. Ég vil vænta þess, að hv. sjútvn., sem fær málið til meðferðar kynni sér það og hún greiði fyrir afgreiðslu þess, því að enginn vafi leikur á því, að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða, mál, sem hefði átt að vera búið að leysa fyrir löngu. Ég hef veitt því athygli, að fram hefur komið brtt. við frv., um staðsetningu á þessari stofnun, þar sem lagt er til, að hún verði t.d. staðsett á Akranesi. Ég hef áður sagt, eða þegar umr. fóru fram um málið á siðasta þingi, að ég hef ekkert við það að athuga, að þessi stofnun verði byggð upp á Akranesi eða í einhverju öðru sjávarbyggðarlagi á hentugum stað. Aðalatriðið er að koma þessari stofnun á fót. Hvort hún verður staðsett hér í Reykjavík, á Akranesi, í Hvalfirði, Keflavík, Vestmannaeyjum eða enn öðrum stað, það er ekki höfuðatriði frá mínu sjónarmiði séð, og ég er því alveg reiðubúinn til umr. um það atriði.

Herra forseti. Ég vil svo leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn. til fyrirgreiðslu.