30.10.1972
Neðri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

27. mál, Tæknistofnun sjávarútvegsins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að lýsa stuðningi mínum við þetta frv. og láta í ljós eindregna von um, að það verði afgr. sem lög frá þessu þingi.

Augljóst er, að íslendingar verða ávallt að ráða yfir fullkomnustu tækni við fiskveiðar og fiskvinnslu. Þjóðin hefur sýnt það og sannað á undanförnum áratugum, að hún getur gert mikilvægar uppgötvanir á þessu sviði og hún getur fullkomnað góð tæki, sem hún hefur fengið frá öðrum. Ýmsir styrkir hafa verið veittir til þessara hluta, og ber að minnast bæði þess, sem hið opinbera og einstaklingar hafa lagt þarna af mörkum. En eins og hæstv. sjútvrh. hefur lýst, er rík áherzla til þess að gera meira á þessu sviði, og gera það skipulegar en við höfum gert til þessa. Ég tel því vera rétta stefnu, að stofnuð verði sérstök tæknistofnun sjávarútvegsins, en það getur beðið betri tíma, þegar reynsla hefur fengizt á, hvers konar verkaskipting er eðlileg milli þeirrar stofnunar og annarra, sem hafa komið við þetta svið áður, og er þá lítill vandi að gera breytingar á þeirri skipan, ef ástæða þykir til síðar meir.

Eins og hæstv. ráðh. minntist á í framsöguræðu sinni, hef ég nú eins og á síðasta þingi leyft mér að flytja brtt. á þskj. 33, sem er þess efnis, að þessi nýja ríkisstofnun verði staðsett á Akranesi. Til að rökstyðja það, að sá staður sé hentugur fyrir slíka stofnun, vil ég í fyrsta lagi benda á, að þar er mjög fjölbreytt útgerð, þar eru gerð út fiskiskip, allt frá trillum upp í togara. Í öðru lagi er þar mjög fjölbreyttur fiskiðnaður. Í þriðja lagi eru þar stórar skipasmíðastöðvar, vélsmiðjur, margvísleg slík tæknileg aðstaða og verulegur hópur af vel þjálfuðum iðnaðarmönnum á þessum sviðum. Og í fjórða lagi nefni ég, að frá Akranesi er mjög auðvelt að ná á skömmum tíma til margvíslegra sérfræðinga og stofnana annars staðar, sem kynni að þurfa að hafa samband við, og á ég þar sérstaklega við Reykjavíkursvæðið. Ég tel því, að færa megi allsterk rök fyrir því, að staðsetning Tæknistofnunar sjávarútvegsins á Akranesi væri mjög skynsamleg, enda þótt ég vilji með því á engan hátt draga úr ágætum annarra hugsanlegra staða. Það er yfirlýst stefna núverandi ríkisstj., sem hún leggur á mikla áherzlu, að styrkja jafnvægi í byggð landsins með því að dreifa opinberum fyrirtækjum. Ég vil raunar taka fram, að ég hef ekki heyrt nein andmæli gegn þessari stefnu frá stjórnarandstöðuflokkunum, og hygg, að þeir fylgi henni jafnt og stjórnarflokkarnir.

Þetta mál er nú mjög á dagskrá, og vil ég minna á, að í stefnuræðu sinni í upphafi þessa þings ræddi hæstv. forsrh.. einmitt um það. Hann sagði þar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ennfremur þarf að athuga, hvort þörf sé á að binda opinberar stofnanir svo mjög við höfuðborgina, sem raun ber vitni um, enda segir í stjórnarsáttmálanum, að stefnt skuli að því, að ríkisstofnunum skuli valinn staður úti um land meira en nú er gert. Vinnur nú stjórnskipuð n. að könnun á því verkefni. Geri ég mér góða von um árangur af starfi hennar.“

Þetta voru orð og vonir hæstv. forsrh. En við vitum af eigin reynslu og margir okkar hafa frétt það af störfum þessarar n., að það virðist ótrúlega miklum erfiðleikum bundið, ef flytja á stofnun, sem þegar er til, af einum stað á annan. Ég hygg því, að við ættum ekki að sleppa tækifærinu til að framkvæma þessa stefnu um að dreifa opinberum fyrirtækjum um landið utan höfuðborgarsvæðisins, þegar sett er á fót ný stofnun, þar að auki stofnun, sem eðlis síns vegna getur mjög hæglega verið á öðrum stöðum en hér. Ég vil því vænta þess, að hæstv. n., sem fær þetta frv. til athugunar, taki einnig til vinsamlegrar íhugunar þá brtt., sem ég hef flutt við frv.