20.03.1973
Sameinað þing: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2599 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

297. mál, friðuð svæði á Breiðafirði

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Það var fyrir 4 árum, að svæðið fyrir innan línu, sem dregin er frá Skor og í Eyrarfjall, það svæði á Breiðafirði var friðað fyrir öðrum veiðarfærum en handfæri og linu. Þessi friðun komst á að frumkvæði sjómanna og útvegsmanna þar vestra. Þeir eru sjálfir ekki í neinum vafa um, að þetta hafi haft mikil og góð áhrif, og benda á hinn mikla afla þar vestra á síðustu vertíð. Aflinn er orðinn góður aftur núna, og þakka þeir það þessari friðun, sem er satt að segja einstök. Það má sannarlega segja, að þeir, sem stunda sjóinn þar vestra, hafi orðið öðrum mönnum til fyrirmyndar að því er þetta snertir. Vísindaleg athugun hefur hins vegar engin, svo að þeir viti til, verið gerð á því, hvaða gagn hafi verið að þessari friðun. Það er ósk þeirra, að slík athugun verði gerð sem fyrst, þannig að vísindaleg niðurstaða fáist varðandi þessa friðun og þá um leið staðfesting á því, að þetta góða fordæmi þeirra þar vestra hafi orðið til einhvers.