20.03.1973
Sameinað þing: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2601 í B-deild Alþingistíðinda. (1995)

297. mál, friðuð svæði á Breiðafirði

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans. Það gleður mig að heyra það álit hans, að það þurfi að fara fram ítarlegri athugun á þessu en raun er á orðin. Varðandi álit forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar verð ég að láta í ljós undrun mína á þeim tóni, sem er í þessari álitsgerð. Hann talar eins og af vandlætingu um það, að áður en þessi friðun var ákveðin, hafi fiskifræðingar ekki verið spurðir álits. Það kann að vera, — ég veit ekkert um það fyrir víst, — en menn byggðu þarna á eigin reynslu, þóttust sannfærðir um, að þetta mundi verða til góðs, og menn eru enn sannfærðir um, að þetta hafi sannarlega orðið til góðs þar vestra. Það er talað um sjávarhita í þessu sambandi. Forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar segir, að sjórinn sé ekki nógu heitur í Breiðafirði, til þess að þorskurinn hrygni þar. Þetta stangast á við reynslu sjómanna þarna. Þeir segja, að iðulega, þegar þeir hafi fyrrum verið að draga netin á þessu svæði, sem nú er friðað, hafi þau verið löðrandi í hrognum og svilum. Ég hef þetta fyrir satt, og þetta bendir til þess og einskis annars en þess, að til hrygningar sé þorskurinn á Breiðafirði nægjusamari, að því er hitastig varðar, en þorskurinn annars staðar.