20.03.1973
Sameinað þing: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2602 í B-deild Alþingistíðinda. (1997)

194. mál, vetrarsamgöngur um Múlaveg

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. á þskj. 367 um vetrarsamgöngur um Múlaveg. Samgöngur um Múlaveg til Ólafsfjarðar hafa verið mjög stirðar s. l. vetur. Kaupstaðurinn hefur m. a. verið úr öllum samgöngutengslum á landi yfir hálfan mánuð í tvö skipti. Óhætt er að segja, að sjúkraflugvöllur sé ónothæfur á vetrum í Ólafsfirði, nema verulegar lagfæringar komi til, og oft er svo brimasamt á firðinum, að sjósamgöngum verður ekki heldur við komið dögum eða vikum saman. Það gefur auga leið, að slíkar samgöngur eru óviðunandi, þegar í hlut á 1100 manna byggð, ekki sízt í læknisleysi því, sem þar hefur verið við að etja nú upp á síðkastið, enda hefur verið mikið baráttumál Ólafsfirðinga að fá úr þessu bætt, einkum þó að vetrarsamgöngur um Múlaveg séu betur tryggðar en nú er.

Eins og kunnugt er, liggur Múlavegur á kafla í snarbrattri hlíð. Í fjallinu eru nokkur kröpp gil og er í þeim veruleg snjóflóðahætta við ákveðin veðurskilyrði. Þar sem vegurinn er skorinn inn í fjallshlíðina, hrúgast snjóflóðin á veginn og mynda margra mannhæða háa farartálma á honum, en yfirleitt kemur þetta fyrir á sömu stöðunum, og þar sem þetta er verst, eru þessir farartálmar einungis um 50–100 metra breiðir. Þótt svo sé, er snjórinn í þessum hraukum svo mikill og illharður, að jarðýtur hafa átt fullt í fangi með að komast í gegnum einn slíkan farartálma á hálfum sólarhring. Það er áreiðanlegt, að vetrarsamgöngur um Múlaveg mundu batna til mikilla muna, ef unnt væri með mannvirkjagerð að bægja þessum snjóflóðum yfir veginn á svipaðan hátt og mun gert víða í Noregi, þar sem við svipaðan vanda er að glíma. Mér skilst, að Vegagerð ríkisins hafi haft í athugun, hvort þetta mundi koma að haldi á Múlavegi, og að því er vikið í fyrri lið fsp.

En betur má, ef tryggja á vetrarsamgöngur um Múlaveg. Lengst af hefur jarðýta, sem er í eigu Ólafsfjarðarkaupstaðar og er nú orðin 10 ára gömul, þurft að anna öllum snjóruðningi á Múlavegi og vegum innan Ólafsfjarðarkaupstaðar, sem ná yfir sveitina og svonefndar Kleifar auk sjálfs þorpsins. Hún þarf því að halda opnum samgöngum fyrir mjólkurflutninga og flutninga á skólabörnum í snjóþungu byggðarlagi á vegum, sem eru á að gizka 20–30 km, — auk þess að ryðja snjó af Múlavegi.

Vegagerð ríkisins á að eigin sögn ekkert hentugt snjóruðningstæki fyrir Múlaveg, þar sem hún telur, að snjóblásari, sem keyptur var á sínum tíma, henti ekki á þessum vegi sökum þess, að grjót, sem vill berast á veginn, eyðileggi tækin. Vegheflar, sem Vegagerðin notar á öðrum vegum í kring, eru lítils megnugir til snjóruðnings í Múlavegi, nema önnur tæki séu með þeim. Engum, sem til þekkir, getur blandazt hugur um, að hér þarf að ráða bót á.

Sú jarðýta, sem er í eigu Ólafsfjarðarkaupstaðar, er lítil og úr sér gengin og annar ekki því, sem henni er ætlað, enda hefur komið fyrir, að snjóruðningur á Múlavegi hafi staðið yfir í 7–10 daga og oft komið að litlu gagni vegna þess, hve verkið sækist seint með þeim verkfærum, sem fyrir hendi eru. Að þessu lýtur seinni hluti fsp., sem er svo hljóðandi:

„Áformar Vegagerð ríkisins að auka tækjakost við snjóruðning á Múlavegi?“