20.03.1973
Sameinað þing: 61. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2611 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

8. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Björn Fr. Björnsson) :

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Allshn. Sþ. hefur ekki tekið til athugunar á fundi þá brtt., sem liggur hér fyrir á þskj. 336. Þegar við vorum að vinna í n., komu engar till. þar fram til breytinga á þáltill. En eins og ég sagði áður, höfðu menn fyrirvara um að flytja brtt. Og það hefur ekki verið óskað eftir því, að þessi brtt. væri borin undir allshn. Ég persónulega lít svo á, að það mætti þakka fyrir það og telja mjög sæmileg vinnubrögð, ef till. frá ríkisstj. í samræmi við þáltill. kæmi fram á næsta þingi. Auk þess segir mér hugur, að það lifi fremur skammt þessa þings, þó að treinzt geti nokkuð, en fráleitt sé, að hægt sé að koma skipulegum till. í frv.- formi fyrir á þeim tíma, sem eftir er af þinghaldinu að þessu sinni. Þess vegna álít ég, að ekki sé ástæða til að samþ. þessa brtt., og enn fremur vegna þess, að ég tel, að það þurfi vandlega að athuga, hverjar og í hverju horfi till. eiga að vera til breytinga í þessu efni. Og það er sannarlega ekki auðvelt að koma með till. þannig útbúnar að meiri hl. þings falli þær í geð. Svo mikið er víst, að margnefnd kosningalaganefnd kom ekki frá sér nema tveim hugmyndum um utankjörfundakjör kjósenda erlendis, og þeim var algerlega hafnað af hálfu ráðuneytisstjóra í utanrrn. taldar óframkvæmanlegar. En þriðja hugmyndin, sem kom fram í þessu efni, var frá utanrrn., og las ég hana upp í fyrri ræðu minni. Þetta er afstaða mín til þessarar brtt. Það má kannske segja, að hefði þessi þáltill. verið afgreidd frá þingi, — við skulum segja fyrir jól, — þá hefði að sjálfsögðu öðruvísi staðið á, en nú hefur nokkur dráttur orðið á afgreiðslu þessa máls. Ég leiði alveg hest minn frá því, að allshn. Sþ. hafi ekki unnið sæmilega vel að málum og komið þeim fram. Má þakka fyrir, ef það er ekki talið heldur of mikið fljótræði af okkar hálfu, hvernig við höfum að unnið og afgr. ýmis mál, fremur en hitt.

Hv. 6. þm. Reykv. drap á það, að rétt hefði verið af hálfu allshn. að taka inn í þáltill. eitthvað af þeim verkefnum, sem kosningalaganefndin hafði með að gera á sínum tíma. Hefði allshn. gert það, hefði náttúrlega undirbúningur að till. til að leggjast fyrir næsta þing dregizt mjög og vafasamt, hvort þá hefði verið yfirleitt hægt að koma málinu fram á næsta þingi. Þar er um að ræða mjög vandasöm og erfið efni, eins og t. d. kjörskrárgerð, lögheimilismál og enda fleiri efni af slíku tagi og þá ekki sízt kosningaskilyrði, sem bundin eru stjórnarskrá. Þess vegna þykir mér það einmitt vel farið og okkur fleirum í n., að þáltill, gekk þó ekki lengra en þetta, þannig að þessu afmarkaða málsatriði yrði sæmilega komið fyrir á þokkalegum tíma.

Ég man nú ekki, hvenær brtt. kom fram. Það má vera, að hún hafi komið fram fyrir jól. (AuA: Hún kom fram, eftir að n. hafði skilað áliti). Strax á eftir, einmitt það. Þá stóð ekki á brtt., og það út af fyrir sig er eðlilegt.

En að lokum þetta: Ég tel, að ekki sé ástæða til að hraða undirbúningi að lokatill. í þessu máli svo, að þær skuli leggja fyrir það þing, sem nú situr, og hef ég rakið nokkur rök til þess. Hins vegar er það sjálfsagt og ekki nema eðlilegt, að ríkisstj. sjái svo til, að till. í þá átt, sem þáltill. gengur, verði lagðar fyrir næsta þing. Um spár og vonir hv. 6. þm. Reykv. um það, að ríkisstj. fari frá á þessu ári, sennilega í haust, og á eftir fylgi alþingiskosningar og þá sé gott að hafa komið fram þessum nauðsynlegu breytingum í sambandi við utankjörfundarkjör, skal ég ekkert segja. Ríkisstj, eru náttúrlega fallvaltar og hafa enzt misjafnlega. Eðlilegt er, að stjórnarandstaðan óski eftir því, að komast sem fyrst til áhrifa og forustumenn hennar setjist í ráðherrastólana. Það er auðsætt á mörgu, að marga þeirra munar í þá. Það er eðlilegt og ekki nema sjálfsagt, að menn hafi töluverðan metnað í því efni.