21.03.1973
Efri deild: 72. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2642 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

202. mál, almenn hegningarlög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um breyt. á hinum almennu hegningarl., er samið og borið fram í þeim tilgangi, að hér á landi verði sett fullnægjandi refsiákvæði við hinum svonefndu flugvélaránum.

Eins og alkunna er, hefur oft á undanförnum árum skapazt mikið hættuástand vegna ofbeldisaðgerða um borð í flugvélum, þegar menn hafa beitt þar ofbeldi eða hótunum um ofbeldi eða öðrum ólögmætum aðferðum til þess að komast yfir stjórn flugvélar, og hefur tilgangurinn verið ýmiss konar, svo sem fjárkúgun og landflótti afbrotamanna. Á undanförnum árum hefur löggjöf margra ríkja verið breytt til að tryggja það, að lögum verði örugglega komið yfir þá, sem slíka verknaði fremja, og sett hafa verið ákvæði um þung viðurlög. Þá hafa einnig alþjóðastofnanir látið málið til sín taka, og efnt hefur verið til sérstakra ráðstefna um öryggi flugsamgangna, þar sem þetta vandamál hefur verið aðalviðfangsefnið.

Gerðir hafa verið 3 alþjóðasamningar, sem stuðla eiga að því að koma í veg fyrir flugvélarán og tryggja, að þeim, sem slíkt fremja, verði refsað. Samningarnir eru kenndir við Tokyo, gerður 1963 í Haag, gerður 1970, og Montreal, gerður 1971. Tveir síðastnefndu samningarnir geyma ákvæði þess efnis, að ríki þau, sem staðfesta þá samninga, skuli tryggja þung viðurlög við flugránum. Tokyo-samningurinn hefur þegar verið fullgiltur af Íslands hálfu, en til þess að unnt verði að fullgilda Haag- og Montreal-samningana, er nauðsynlegt að gera þær breytingar á hegningarlögunum, sem lagðar eru til í frv. því, sem hér liggur fyrir.

Með tilliti til þess, hve Ísland tekur mikinn þátt í flugsamgöngum og hve margar flugvélar fara hér um, er nauðsyn, að hér verði gerðar allar þær ráðstafanir, sem unnt er að gera, til þess að koma í veg fyrir flugvélarán og til þess að geta refsað þeim, sem hingað kynnu að leita, eftir að hafa framið slíkan verknað. Hafa og fjölmörg alþjóðasamtök beint tilmælum til allra ríkja um, að þau staðfesti þessa samninga og lögfesti þung viðurlög við brotum, sem snert geta öryggi flugsamgangna. Svokallaðri hegningarlaganefnd var því falið að semja frv. um nauðsynlegar breytingar á hinum almennu hegningarlögum, til þess að fullnægt væri þeim kröfum, sem nú eru almennt gerðar til ríkja um ráðstafanir í þessum efnum.

Það má segja, að meginefni frv. felist í 2.–4. gr.

Í 3. gr. er lagt til, að nýrri mgr. verði bætt við 165. gr. hegningarlaganna, og er þar mælt svo fyrir, að það varði fangelsi ekki skemur en 2 ár að beita ofbeldi eða hótunum um ofbeldi um borð í loftfari eða annarri ólögmætri aðgerð til að ná valdi á stjórn þess eða grípa á annan ólöglegan hátt inn í stjórnina eða flugið.

2. gr. fjallar um það athæfi, þegar rangar tilkynningar eru gefnar til forráðamanna flugfélaga, t. d. eins og átt hefur sér stað, að tilkynnt sé um það, að sprengjur séu í flugvél, án þess að slíkt sé þó fyrir hendi. Er slíkt athæfi lýst refsivert og getur varðar sektum, varðhaldi og fangelsi allt að þremur árum. Er lagt til, að bætt verði í hegningarlögin nýrri gr., sem verði 120. gr. a.

4. gr. fjallar um það ákvæði Montreal-samningsins, sem varðar sérstaklega spjöll á loftförum á jörðu niðri. Er lagt til, að sett verði viðbótarákvæði í 257. gr., 2. mgr. til þess að taka af öll tvímæli um, að slíkt spellvirki á loftförum falli undir þá gr. hegningarlaganna, en fyrir brot á henni má beita fangelsi allt að 6 árum.

Í 5. gr. frv. eru ákvæði þess efnis, að refsivald íslenzka ríkisins nái til þeirra brota, sem fjallað er um í frv. þessu. Og lagt er til, að í 6. gr. bætist nýr liður skv. því.

Alþjóðasamningar þeir, sem flugvélarán varða, hafa ekki enn verið fullgiltir af Íslands hálfu og kenndir eru við, eins og sagt var, Haag og Montreal, eru prentaðir sem fskj. með frv. þessu. Með frv, eru allítarlegar athugasemdir, sem hegningarlaganefnd hefur tekið saman, og leyfi ég mér að öðru en því, sem ég hef hér sagt, að vísa til þeirra.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.