30.10.1972
Neðri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

27. mál, Tæknistofnun sjávarútvegsins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum koma að mínum aths. í sambandi við þetta frv. við 1. umr. þessa máls hér í hv. d.

Eins og hér hefur verið tekið fram af hæstv. sjútvrh. var þetta mál til meðferðar á síðasta þingi og til meðferðar í sjútvn., sem ég átti sæti í. Það er vafalaust rétt, sem hér hefur verið sagt af fleiri en einum ræðumanni, að sjávarútvegur væri alls góðs verðugur og þess væri kannske fyllilega þörf að koma á fót slíkri stofnun sem hér um ræðir. Ég var þeirrar skoðunar, þegar þetta mál var til meðferðar í sjútvn. á síðasta þingi, að það væri vafi á því, hvort slík stofnun sem þessi, ef reist yrði, þjónaði þeim tilgangi, sem raunverulega væri til ætlazt, meðan starfandi eru í landinu a.m.k. fjórar, ef ekki fimm stofnanir, sem fjalla um einhverja þætti þess máls, sem þessi stofnun ætti að fjalla um. Ef það er meiningin, að allir þessir aðilar haldi áfram eftir sem áður að fjalla um einhverja þætti þessara mála, þrátt fyrir tilkomu þessarar stofnunar, þá tel ég, að það sé vafasamt um ágæti hennar. Ég er hræddur um, að ef af slíku yrði, þá væri aðeins verið að auka á yfirbyggingu í þessu atriði, sem kæmi kannske að vafasömu gagni. Ég vil taka það alveg sérstaklega fram, að með þessum orðum mínum er ég ekki að mæla á móti því, að slík stofnun yrði sett á fót. En ég held, að með tilkomu slíkrar stofnunar sé það augljóst mál. að hægt væri að fækka a.m.k. einhverjum af þeim stofnunum, sem um þessi mál hafa fjallað á undanförnum árum.

Ég ætla ekki að orðlengja miklu meira um þetta á þessu stigi málsins. Ég fæ tækifæri til þess að koma með mínar aths. í þeirri n., sem um þetta frv. kemur til með að fjalla. Menn hafa sumir hverjir, a.m.k. bent á ýmsa staði, sem til greina kæmu, þegar velja ætti þessari stofnun stað. Ég vil þá mínna hv. þm. á þann stað, sem ég teldi vel fallinn undir slíka stofnun, sem er elzta verstöð á Íslandi, og ég hygg, að allir hv. þm. viti, hver hún er, en það er Bolungarvík.