21.03.1973
Neðri deild: 68. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2685 í B-deild Alþingistíðinda. (2056)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér nú við lokaumr. þessa máls í hv. d. að þakka hæstv. forsrh. fyrir þær yfirlýsingar, sem hann áréttaði hér og hann hafði áður gefið samninganefnd útgerðarmanna togara við undirskrift samninga um kaup og kjör undirmanna á togurum. Ég verð að segja það, að eftir því sem hans yfirlýsingar hljóðuðu, á þann veg nokkurn veginn, að þegar hann talaði um fyrir þeim að fallast á samningsgerðina, þá hafi hann látið þess getið, að því betur sem þeir tækju í þetta mál, — nokkurn veginn var það þannig, — þeim mun betur yrði gert við þá, því betur yrði tekið í þeirra mál, og í öðru lagi, að allar ríkisstj. hefðu bjargað togaraútgerðinni og mundi þessi ríkisstj. gera það sama. Ég verð að segja það að þótt þessar yfirlýsingar séu nokkuð breiðar, þá vil ég leyfa mér að líta svo á, að þær gefi alldrjúgar vonir um það, að verulega rætist úr. Hitt undrar mig ekki, þótt þeir fulltrúar útgerðarmanna, sem þessar yfirlýsingar fengu á sínum tíma, hafi þótzt verða fyrir allmiklum vonbrigðum og þær vonir, sem þeir munu hafa gert sér, hafi tæplega rætzt að þeirra mati, því að mjög svo magurt er það, sem enn hefur komið frá þeirri undirnefnd, sem hæstv. ríkisstj. hefur skipað til að fjalla um þessi mál. Hins vegar óskaði ég ítrekað eftir svörum við því, hvers vegna ekki var brugðið á það ráð, að borin yrði fram sáttatill. í þessu máli, af því að mér er afar ógeðfelld sú aðferð, sem við er höfð og mér skilst — og ekki hefur verið mótmælt að muni vera einsdæmi, að samningstilboð af hálfu annars aðila í deilu sé tekið og lögfest. Við þessu hafa engin svör komið af hálfu hæstv. ríkisstj.

Ég hef þegar farið nokkrum orðum um það, með hvaða hætti slíkt lokatilboð hefur sjálfsagt orðið til. Mér þykir líklegt, að um það hafi ríkisstj. fjallað með fulltrúum yfirmanna, áður en það var endanlega lagt fram fyrir útgerðarmenn, og hafi það orðið til með þeim hætti, að fulltrúar yfirmanna hafi verið fullvissaðir um, að ríkisstj. skyldi sjá svo um, að þetta næði fram að ganga. Þá geta menn rétt ímyndað sér, hversu mikill samningsvilji hafi þaðan í frá verið af hálfu fulltrúa yfirmanna. Þannig sýnist mér einfalt að ráða þá gátu, hvernig þetta hefur orðið til. Alla vega finnst mér þetta fordæmi afar ískyggilegt, að ekki sé meira sagt. Við kannske stöndum einhvern tíma frammi fyrir því, sem er nákvæmlega sama eðlis, að til þess yrði gripið hér á hinu háa Alþ. að lögfesta sáttatilboð af hálfu vinnuveitenda.

Ég vil enn fremur taka fram, að ýmislegt af því, sem kom fram hjá hæstv. sjútvrh., gefur fyllstu vonir um það, að nú verði tekið til höndum við að finna þann grundvöll, sem togaraútgerðin getur starfað á. Hann tók fram, að það mundu verða gerðar ráðstafanir til þess, að reka mætti þennan atvinnurekstur í landinu. Hann tók það einnig fram, að á vegum ríkisstj. starfaði n. að þessum málum og ríkisstj. biði eftir till. hennar um, hvað gera þyrfti. Ég legg áherzlu á það enn á ný, að til þess að sú aðstoð komi að nægjanlegu gagni, þarf að bregða mjög skjótt við.

Það hefur komið í ljós, sem menn ekki varði, að útgerðin við hina nýju tækni, sem heldur nú innreið sína, stóraukna tækni í togaraútgerð, þá hefur útgerðin, a. m. k. eins og nú standa sakir, ekki notið þar góðs af. Það kemur sem sé í ljós, að þegar hin nýja tækni tekur við, stórfækkun mannskaps og betri aðbúnaður, þá er meiru skipt til áhafnarinnar en áður var. Að vísu munar það samkv. þeim samningum og því lagafrv., sem hér liggur fyrir, afar litlu hvað varðar skuttogarana. Allt í einu hallar á þann veg, og er það mjög miður farið. Ég er ekki með þessu að fullyrða, — og tek það fram enn á ný, — að þau kjör, sem hér er gert ráð fyrir og þegar hefur verið samið um, séu of góð til handa skipverjum. En það verður þá að finna einhverja aðra lausn á þessu mikla vandamáli.

Nú hefur svo verið ráð fyrir gert samkv. því lagafrv., sem hér liggur fyrir, að yfirmenn njóti góðs af því í beinum kaupgreiðslum, ef fækkar í skipshöfn. Ég verð að segja það alveg eins og er, að ég fæ ekki séð, að þetta sé með neinu móti réttlætanlegt, af því líka að þarna felst í nokkurt misræmi, mismunun, með tilliti til þeirra samninga, sem þegar hafa verið gerðir. Þess vegna hef ég leyft mér á þskj. 406 að bera fram svohljóðandi brtt., að við 2 gr. bætist nýr málsl., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:.

„Þó skulu brott falla ákvæði í fskj. I-III, þar sem segir: Fækki áhöfn úr 24 á skuttogurum eða 26 á síðutogurum, hækka aflaverðlaun um 0.075% fyrir hvern, sem fækkar.“ Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um þessa till. Ég tel, að þarna verði misræmi á, miðað við það, sem gert hefur verið, og enn fremur sé ég ekki sanngirnisrök fyrir því, að aflahlutur eða laun yfirmanna hækki, enda þótt fækki um einn eða tvo háseta, sem er vissulega í boði, því að enn ný tækni varðandi þessa veiðiaðferð kann að ryðja sér til rúms og hefur gert þegar, sem geri kleift að fækka a. m. k. um tvo, ef ekki þrjá menn. Eins og ég sagði, sé ég engin rök fyrir því, að við það eigi kaup yfirmanna að hækka, og hef þess vegna lagt þessa till. fram.