30.10.1972
Neðri deild: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

27. mál, Tæknistofnun sjávarútvegsins

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð um þetta mál. Við fengum tækifæri til þess að fjalla um þetta í sjútvn. í fyrra og fáum annað tækifæri núna. Með þeim athugunum tvö þing í röð ætti kannske að vera möguleiki að koma málinu áfram. En það er tvennt aðallega, sem hefur vakið furðu mína í sambandi við alla meðferð þessa máls. Það er í fyrsta lagi, að þegar koma á slíkri stofnun á fót til stuðnings undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveginum, þá virðast allir fyllast efa og rísa jafnvel upp á afturfæturna, þegar rætt er um svo mikilsvert mál sem þetta. Þetta á sér ekki stað, þegar talað er um viðamikla aðstoð, sem aðrir atvinnuvegir fá, og þar á ég einkum við landbúnaðinn, alla ráðunautana og rannsóknarstofnanir á vegum hans. Það er skilyrðislaust nauðsynlegt að koma á fót stofnun til stuðnings sjávarútveginum.

Annað atriði, sem ég var dálítið undrandi á, var, að hér komu ýmsir menn fram með hugmyndir um það, hvar skyldi staðsetja þessa stofnun utan Reykjavíkur. En enginn kom með hugmynd um að flytja hana til Akureyrar, og það er í fyrsta skipti, sem maður hefur orðið var við, að ekki skyldi flytja strax einhverja nýja stofnun beint þangað.

Þegar hv. 2. þm. Reykn., Jón Skaftason, rölti hér í áttina að stólnum, átti ég auðvitað strax von á því, að hann ætlaði að fara að tala um að flytja stofnunina út á land og þá sennilega í Kópavog eða Hafnarfjörð, eins og hann talaði um Landhelgisgæzluna um daginn. Það fer víst ekkert á milli mála, að þeir, sem hlusta á þetta, eru nú strax búnir að hugsa sér, hvaða stað ég mundi fyrst og fremst velja, og ég ætla nú að Fara að dæmi hv. þm. Karvels Pálmasonar að nefna ekki staðinn með nafni. (KP: Ég gerði það). Var það, já? En það er stærsta verstöð landsins, sem mér finnst nú aðeins af þeirri ástæðu vera líklegust til þess að taka við slíkri stofnun. En ég vil taka það strax fram, að mér kemur ekki til hugar að tefja framgang þessa máls með einhverju pexi um það, hvar stofnunin skuli vera nákvæmlega sett niður.

Hv. 2. þm. Reykn. talaði áðan um veiðarfæratilraunir, sem væru dýrar og viðamiklar .og framkvæmdar af Hafrannsóknastofnuninni. Það er fleira, sem þarf að gera í sambandi við veiðarfærin en bara að prófa að kasta þeim og athuga, hvernig þau „fungera“. Það er allur undirbúningurinn. Það þarf að teikna veiðarfærið, setja það saman og fylgjast með breytingum á veiðarfærum hjá öðrum fiskveiðiþjóðum. Við höfum vissulega lært ýmislegt af öðrum í því sambandi, bæði Norðmönnum, Þjóðverjum og fleirum. Ég get skotið því hér að, áður en ég lýk máli mínu að slíkar athuganir með veiðarfæri hafa farið fram heima í mínu byggðarlagi á vegum veiðarfæragerða þar. Síðan hafa þessir netameistarar beðið skipstjórana að prófa þetta og þeir hafa yfirleitt tekið ákaflega vel í það. En það sér hver maður, að það er ákaflega hæpið að treysta á, að ein útgerð geti tekið áhættu af mjög tímafrekum tilraunum með slíkt. Ég get líka skotið hér inn í sambandi við það, þegar verið var að lýsa ágæti Akraness til þess að taka við þessari stofnun, að heima hjá okkur í Eyjum er sá staður, sem ég held að flestar vélar, nýjar vélar og nýjar uppfinningar, hafi komið fram í sambandi við fiskvinnslu, eins og t.d. humarflokkunarvélar og alls kyns þess konar „apparöt“, meira að segja flóknar flökunarvélar, eins og til þess að flaka steinbít og annað þess konar, sem ekki eru til annars staðar. Að öllu samanlögðu hygg ég, að það komi mjög til álita að setja þessa stofnun niður í Vestmannaeyjum. En fyrir alla muni, ætla ég að biðja menn að hætta þessum efasemdum og úrtölum, þegar kemur að því að styðja íslenzkan sjávarútveg.