22.03.1973
Efri deild: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2693 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal strax upplýsa það, sem reyndar liggur fyrir af hálfu okkar Alþfl.- manna, að við munum ekki tefja afgreiðslu þessa máls eða með einum eða öðrum hætti reyna að bregða fæti fyrir framgang frv. Við getum í þessari hv. d., eins og fram kom hjá hæstv. ráðh., tekið undir það, að nauðsynlegt hafi verið, eins og á stóð, að ríkisstj. skipti sér af þessari kjaradeilu. En það verður ekki hjá því komizt að minnast með örfáum orðum afstöðu aðstandenda þessa frv. til hliðstæðra frv. á undanförnum árum.

Mér kom í hug orð gömlu konunnar, þegar ég sá þetta frv. á borðunum hér í gær, að öðruvísi mér áður brá. Það hefur nefnilega komið fyrir áður, að ríkisstj. hafi þurft að skipta sér af vinnudeilum, og m. a. hefur það fallið í minn verkahring að flytja frv. hliðstæðs efnis og þetta frv., sem hér er um að ræða. Það er þess vegna ekki fundið núv. ríkisstj. til ávirðingar, að hún flytji hliðstætt frv. En öll þau orð og allar þær háværu yfirlýsingar aðstandenda þessa frv. um afskipti ríkisstj. yfirleitt af vinnudeilum eru geymd í þskj. og hægt er til þeirra að vitna, ef menn vildu hafa svo mikið við að lesa það upp. Það var nefnilega sagt af aðstandendum þessa frv. við slík tækifæri í tíð fyrrv. ríkisstj., að það skipti engu máli, hvað í sjálfum frv. fælist, það eitt að skipta sér af kjara- og vinnudeilum væri „prinsip“, sem verkalýðshreyfingin mundi aldrei láta ómótmælt. Það er nú hlutverk hæstv. núv. félmrh., fyrrv. forseta Alþýðusambandsins, að brjóta þetta einlæga „prinsip“ sitt frá undanförnum árum. Það er stór munur á því að heita bara Jón eða séra Jón. M. ö. o.: öll stóru orðin frá fyrri árum falla hér um sjálf sig, og kennir það mönnum enn einu sinni, að í stjórnmálum skyldu menn aldrei segja aldrei.

Þetta grundvallar-„prinsip“ íslenzkrar verkalýðshreyfingar, sem ég hef oft efast um, er brotið af þessari ágætu stjórn, sem þó hefur haft það á oddinum, að hún sé fyrst og fremst stjórn íslenzks verkafólks og sjálfsagt þ. á m. sjómanna. Það er staðreynd, að sjómannasamtökin, þ. e. a. s. undirmenn, sömdu, án þess að nokkru væri fylgt þeirra fyllstu kröfum, með frjálsum samningum, þegar frá er tekið fastakaup, þar náðu þeir sínum fyllstu kröfum. Og það er staðreynd, að ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún vildi jafna á milli há- og láglaunafólks. Hún leggur hins vegar til með þessu frv. að lögfesta laun hærra launuðu mannanna um borð, rétt eftir að þeir, sem lægri launin hafa, hafa samið í frjálsum samningum.

Annað nýmæli í þessum lögum er það, að fækkun háseta kemur yfirmönnum til góða. Nú sagði hæstv. félmrh. í sinni framsöguræðu áðan, að hafi verið staðfest á sameiginlegum fundum félmn. í gærkvöld, að þetta sé ekki rétt. Allir þeir forustumenn íslenzkra sjómannasamtaka, sem ég hef talað við, frá því að frv. kom á borð þm. í gær, fullyrða hið gagnstæða. Þeir fullyrða enn fremur, að þess muni einkum gæta nú, eftir að þessi lög hafa verið samþykkt, að skipin verði ekki fullmönnuð, og þá komi það kannske fyrst og fremst niður á undirmönnum skipanna, ef þar verða færri en tilskilið er, og þá kemur launahækkun til yfirmanna, en fækkun í liði yfirmanna á hins vegar ekki að koma undirmönnum til góða. Þetta er annað af höfuðrangindum þessa frv.

Við getum spurt okkur þeirrar spurningar: Hefðu sjómannasamtökin samið nú eins og þau hafa gert eftir gildistöku þessara laga, ef þau hefði haft lausa samninga? Ég hef spurt forustumenn sjómannasamtakanna innan Sjómannasambands Íslands og annarra þeirra félaga, sem fara með samninga fyrir sjómenn, undirmenn á botnvörpuskipum, hvort þeir mundu eftir gildistöku þessara laga gera sömu samninga og þeir sömdu um í frjálsum samningum fyrir einni eða tveimur vikum, og þeir svöruðu hiklaust nei. Það er beitt slíkum rangindum með þessu frv., það er farið aftan að þeim samningum, sem þeir gerðu. Og þá er fyrst og fremst það, að þeir telja, að hér sé aukið á það launamisrétti, sem hefur verið milli yfir- og undirmanna. Þetta eru þeirra orð, sem gerzt til þekkja. Sjálfur skal ég ekki fara út í einstök atriði um þetta, en láta þeirra orð nægja.

Ég teldi eðlilega afleiðingu af samþykkt þessa frv. vera þá, að kjarasamningar undirmanna á botnvörpuskipum yrðu losaðir. Allt annað væri óeðlilegt, ef þetta frv. kemst óbreytt fram. Undirmenn. ættu að eiga þess kost, ef þeir vilja, að gera tilraun til samninga um sín kjör, eftir að þetta frv. hefur verið samþykkt. Annað væri að níðast á þeim, sem minna mega sín.

Ég skal svo ítreka það, að ég tel, að það sé þjóðarnauðsyn, að lausn fáist á þeirri löngu og langdregnu vinnudeilu, sem hér er um að ræða. En það, sem mér þykir eitt af þremur alvarlegustu atriðum þessa frv., er þó að staðfesta með lögum tilboð annars aðilans, síðasta tilboð annars aðilans. Ekki það að yfirmenn séu of sælir af sínum kjörum, sem frv. býður þeim, síður en svo. Mér verður litið til komandi ára, ef sú ríkisstj. sæti að völdum, sem sérstaklega bæri hagsmuni atvinnurekenda fyrir augum. Er hér ekki greidd leiðin til að samþykkja till. atvinnurekenda nákvæmlega með sama hætti og hér er gert? Til þess eru nefnilega engin dæmi áður í þingsögunni, að slíkt hafi verið gert. Frv. er að því leyti algjört einsdæmi í sinni röð. Hingað til hafa slík lög eða afskipti hins opinbera einkum verið með tvennum hætti, þ, e. a. s. að lögfesta málamiðlunartill. sáttanefndar eða sáttasemjara eða lögbinda gerðardóm, sem skera skyldi úr um deilumálið. Þetta eru þær tvær höfuðleiðir, sem farnar hafa verið á undanförnum árum og áratugum. En ég sé ekki annað, ef ríkisstj. sérstaklega vinveitt atvinnurekendum kæmist til valda hér á landi, en að þá væri búið að skapa henni fordæmi um að staðfesta síðasta tilboð atvinnurekenda með sama hætti. Ég óttast þess vegna þetta ákvæði laganna, ef samþykkt verður, sem allar líkur virðast á eftir afgreiðslu málsins í Nd.

Ég vil svo, herra forseti, lýsa því yfir, að ég mun endurflytja till. hv. 7. þm. Reykv., sem hann flutti við 2. gr. frv. í hv. Nd., og ef til vill á lokastigi málsins, að þeirri till. fallinni, flytja viðbótartill. um það við 3. umr. málsins, að kjarasamningar undirmanna séu lausir, ef frv. á fram að ganga, eins og það horfir við nú og allar líkur virðast benda til. Ég tel allt annað ósanngjarnt, en að undirmönnum gefist a. m. k. kostur á því að leiðrétta sinn hlut.