22.03.1973
Efri deild: 73. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2710 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Það hafa verið rækilega dregin fram þau atriði, sem máli skipta. Það er enginn ágreiningur um það hér í hv. d. og hefur ekki verið hér í þinginu, að nauðsyn beri til að stöðva þessa kjaradeilu, sem hefur þegar valdið stórkostlegu tjóni fyrir þjóðina, og koma í veg fyrir það ömurlega ástand, að samtímis því, að hinir nýju togarar koma til landsins, þá verði það hlutskipti þeirra að vera bundnir við hafnargarða. Það er auðvitað ljóst, að ástand sem þetta er gersamlega óþolandi, og um það er akki deilt, heldur hitt, hvernig að hafi verið farið við lausn vandans. Það hefur einnig verið rakið af ýmsum þeim ræðumönnum, sem hér hafa talað, ekki hvað sízt af hv. 2. þm. Reykv., og skal ég ekki endurtaka neitt að því, sem hann sagði.

En mér fannst ýmislegt einkennilegt í ræðu hæstv. félmrh., sem og í ræðum þeim, sem fluttar hafa verið um þetta mál hér í þinginu, ekki hvað sízt ræðum hæstv. sjútvrh., þegar þetta mál var rætt hér fyrr í tilefni af fsp. frá hv. 2. þm. Reykv. fyrir alllöngu, en þá hafði verkfallið staðið ískyggilega lengi, enda þótt nú keyri um þverbak, hvernig þetta hefur allt saman gengið til, að það er ekki tekið til við að reyna að gera samninga við yfirmenn, fyrr en í rauninni, er búið að semja við undirmenn, og þá skella þessi ósköp yfir, enda þótt vakin væri þá athygli á því af hálfu útvegsmanna, að það hefði sáralitla þýðingu að semja við undirmenn, ef yfirmannadeilan yrði eftir sem áður óleyst. Það er fullyrt, að þá hafi hæstv. ráðh. lýst því yfir, að það væri engin hætta á slíku, vegna þess að það yrði ekki látið dragast að stöðva þá deilu þegar í fæðingunni, — ef ekki tækist að gera það með samningum, þá með öðrum hætti. Nú hefur þetta dregizt úr hófi fram, en látum það vera.

Það rifjast aðeins upp fyrir manni ýmis ummæli, sem verka kynduglega, þegar á málið er litið í heild. Hæstv. sjútvrh., lýsti því yfir, þegar fsp. var rædd hér á dögunum, að hann hefði verið búinn í rauninni að leysa þetta mál, þegar kjaradeila togarasjómanna skall á, og það hefðu aðeins verið smáatriði óleyst. Vöktum við, bæði ég og aðrir, þegar athygli á, að það hlyti að vekja hina mestu undrun, að síðan væri látinn líða mánuður, án þess að sættir tækjust, úr því að lítið bæri á milli, þegar kjaradeilan hefði hafizt. Nú segir hæstv. félmrh., að það hafi verið þrautreyndar allar leiðir, áður en þessi löggjöf er hér borin fram. Þetta finnst mér einnig stangast á við staðreyndir málsins og það, sem áður er búið að segja, vegna þess að það er þegar frá upphafi vitað, hver var aðalástæðan til þess, að ekki tókst að semja. Það var út af fyrir sig ekki viljaskortur togaraútgerðarinnar, hvorki gagnvart yfirmönnum né undirmönnum, heldur hitt atriðið, að það var enginn grundvöllur undir rekstri fyrirtækjanna. Og ég get ekki ímyndað mér, að nokkur telji það ábyrgðarleysi hjá einum né neinum atvinnurekanda að þrjóskast við að semja um kjör, sem hann sér, að er ekki nokkur möguleiki til þess að rísa undir, nema þá að til komi aðstoð ríkisvaldsins. Og því var lýst yfir í umr. um áður greinda fsp. af hálfu sjútvrh. og að því er ég hygg aldrei dregið í efa af neinum í viðræðum hæstv. ráðh. við samtök útvegsmanna, að útgerðin þyrfti á aukinni aðstoð að halda. En hví í ósköpunum mátti ekki tengja þessi mál saman og gera sér grein fyrir því, hvað væri talið fært að bjóða útgerðinni af hálfu ríkisins, úr því að í meginefnum var viðurkennt, að útgerðin þyrfti að fá aðstoð? Ég hygg, að ef þetta hefði verið tengt saman, þá hefði þessi deila verið leyst fyrir löngu og við stæðum ekki andspænis þeim vanda, sem við stöndum andspænis í dag. En af einhverjum undarlegum ástæðum hefur verið þrjóskazt við að horfast í augu við þessa hlið málsins og sagt: Hvaða vit er í því að gera tilboð af hálfu ríkisins, áður en samið er. Það verður að athuga málið á eftir.

Hvernig stóð á því, að það var samið við bátasjómenn á milli jóla og nýárs með aðild ríkisins og undir forustu hæstv. sjútvrh. og þá þegar í þeim samningum boðin ríkisaðstoð til þess að ná endum saman? Af hverju mátti ekki eins gera það nú? Það er sagt, að menn hafi ekki vitað um afkomu togaraflotans og séu sérfróðir menn núna að rannsaka þetta. Mér ofbýður að heyra slíkt borið á borð, hvort sem það er hæstv. félmrh. eða sjútvrh. eða hver sem það gerir. Það vita allir um afkomu togaraútgerðarinnar. Togaraútgerðin er búin að njóta styrks árum saman, og hann hefur verið byggður á rannsóknum, sem gerðar hafa verið á hverju einasta ári. Allar grunntölur eru til. (Gripið fram í.) Báðu þeir um hana? Datt ekki hæstv. ríkisstj. í hug, að þetta væri þáttur í málinu? Hafði hún ekki hugmynd um, hvað það var, sem strandaði á í þessari vinnudeilu? (Gripið fram í.) En hvað þá? Ég skil ekki þessi rök. Hún hefur verið búin að láta kanna það, og þó fer hún nú að láta byrja að kanna það. Þegar útgerðarmenn óska eftir því, þá fer hún að kanna það. Þetta er atriði, sem lá fyrir alveg frá byrjun. Og það gegnir furðu, ef það brýtur ekki í bága við það, sem hæstv. sjútvrh. sagði í Sþ. Hann sagði, að þá væri nýlega byrjuð athugun málsins, hvað kunni að þurfa til þess að aðstoða útgerðina, en hann sagðist alls ekki vilja gefa útgerðarmönnum það upp. Þetta veit ég, að hæstv. félmrh. hefur þá hlustað á, að hann telji það alveg fráleitt að gefa það upp fyrir fram, hverrar aðstoðar sé þörf. Hæstv. sjútvrh. lýsti því yfir nú fyrir hálfum mánuði, að þetta væri í fullum gangi, og hann lýsti því þá yfir, að það mætti ætla, að skriður kæmi á málið. Ég held ég kunni hér um bil orð hans, — þó að ég leggi það ekki í vana minn að læra orð hæstv. sjútvrh., enda breytir hann þeim töluvert frá degi til dags, — þá sagði hann þó í þetta skipti, að athugun væri langt komin, og þarf mætti búast við, að það kæmi skriður á málið. Ég held ég kunni hér um bil orð hans, — þó að ég leggi það ekki í vana minn að læra orð hæstv. sjútvrh., enda breytir hann þeim töluvert frá degi til dags, — þá sagði hann þó í þetta skipti, að athugun væri langt komin. og það mætti búast við, að það kæmi þá skriður á málið. (Gripið fram í: Það var fyrir heilum mánuði.) Fyrir heilum mánuði, já. Það er kannske til of mikils mælzt, að hæstv. sjútvrh. viti, hvað hann sagði fyrir heilum mánuði. En þá var þetta sagt af hæstv. ráðh., að það væri langt komið þeirri athugun og það mætti ætla, að þá kæmi skriður á málið, sem auðvitað var hárrétt. Þetta var alltaf það, sem beðið var eftir. Frá fyrstu tíð hafa útgerðarmenn sagt hæstv. ríkisstj., — og ég skil ekki annað en hæstv. félmrh. hafi verið með í þeim viðræðum, — að þetta byggðist allt á afkomu útgerðarinnar og hún gæti ekki staðið undir raunverulega neinum kauphækkunum nema því aðeins að fá aukna aðstoð. Þetta viðurkennir í rauninni hæstv. ríkisstj. með því að gera nú samning, sem er undirritaður af ráðh., — og það er eins gott að hafa plögg undirrituð formlega, sem rædd eru við hæstv. ríkisstj., virðist vera, — þá er það viðurkennt, að það skuli taka á ríkið hluta af þessu, sem nú á að gera fyrir yfirmennina. Af hverju mátti ekki gera það í sambandi við samningana í heild strax í byrjun?

Ég held nefnilega, að það sé staðreynd málsins, og ég veit, að hæstv. félmrh. veit það ósköp vel, — hann hefur ekki verið á oddinum í þessu máli, þó að það hafi lent á hans herðar að flytja þetta frv. hér, þá hafa aðrir staðið þar að með eðlilegum hætti, hæstv. sjútvrh. fyrst og fremst, — að hefði verið tekið á þessu með sama hætti og hæstv. sjútvrh. gerði við bátaflotann milli jóla og nýárs, þá hefði togaraflotinn aldrei stöðvazt. Af hverju mátti ekki gera það eins? Fráleitt er að halda fram, að það sé vegna þess, að ekki hafi legið fyrir tölur, þær tölur eru til og hafa verið lengi til hér uppi í hinni frægu stofnun. (Félmrh.: Hver er talan?) Ég held, að það séu margar tölur. Það er ekki algild tala í þessu. Hún er til, en það merkir ekki, að ég hafi hana í vasanum hér. Ég veit það ósköp vel, að þessar rannsóknir á afkomu togaraútgerðarinnar hafa verið gerðar á hverju einasta ári, og það er ekki flókið mál að gera sér grein fyrir því. Það er reikningadæmi, sem ég veit, að hæstv. ráðh. gæti t. d. nokkurn veginn leyst án sérfræðinga, bara með því að kalla fyrir sig nokkra menn. Ég treysti honum alveg til þess. En kjarni málsins er þetta: Af hverju mátti ekki tengja þetta saman með sama hætti og þegar bátadeilan var leyst? Af hverju er það talin óhæfa í sambandi við togaradeiluna, þá alvarlegu deilu, sem staðið hefur? Þá eiga menn að þegja eins og Svinxinn, en í bátadeilunni milli jóla og nýárs telur sjútvrh. sjálfsagt að ganga í málið og bjóða fram aðstoð ríkisstj. til þess að ná endum saman. Og þegar hæstv. félmrh. segir, að það ætti að beina fsp. til hæstv. fjmrh., þeim sem hv. 2. þm. Reykv. var hér með áðan, þá langar mig til þess að skjóta inn í til hæstv. félmrh.: Var það borið undir hæstv. fjmrh., þegar bátadeilan var leyst og 160 millj. kr. teknar úr ríkissjóði? Ég er í miklum vafa um, að það hafi einu sinni verið borið undir þann ráðh., það hafi verið sýnd sú háttvísi þar, þannig að það er kannske erfitt fyrir hann að svara því.

Sannleikurinn er sá, að þetta er atriðið, sem mér finnst vera meginefni þessa máls og vera ásökunarverðast gagnvart hæstv. ríkisstj., ekki það, að hún beiti sér nú fyrir lögfestingu, þótt hún geri það með óskynsamlegum hætti, það er allt önnur saga, heldur hitt, að staðreynd málsins er, að ríkisstj. hefur unnið á alrangan hátt í þessu máli. Það er viðurkennt frá upphafi af henni sjálfri, að togaraflotinn verði að fá styrk, og hann hefur þegar fengið styrk miðað við þann kostnað, sem hann hefur búið við til þessa. Nú á að stórauka kostnað hans, og dettur engum í hug, að hann þurfi þá ekki styrk til þess að mæta þeim vanda. Þegar hæstv. ráðh. halda því svo fram, að menn þurfi enn í dag eftir margar, margar vikur að bíða eftir niðurstöðum könnunarnefndar um hag togaraútgerðarinnar, þá leyfi ég mér að mótmæla, að það hafi verið nokkur þörf á því. Þetta er vitað fyrir löngu, ef menn hafa kært sig um. Hitt er annað mál, að það einkennilega var, eftir því sem orð sjútvrh. urðu skilin í Sþ. fyrir 2–3 vikum, að þá hafði nýlega verið skipuð n. til þess að kanna þetta. (Gripið fram í.) Togaraútgerðina almennt? Er það ekki það, sem verið er að ræða um? Þetta er aðeins þáttur af vanda togaraútgerðarinnar, og hefði verið hægt að leysa hann með því að taka á málunum eins og gert var á milli jóla og nýárs og ekki var þá neitt talið forkastanlegt af hæstv. ríkisstj. Enda þótt þá lægi ekkert sérstakt fyrir um það, að bátaútgerðin þyrfti ríkisstyrk til þess að komast í gang, þá lá það ótvírætt fyrir frá byrjun um togaraútgerðina, og ég álít, að það séu alvarlegustu mistökin hjá hæstv. ríkisstj., sem hún verði sökuð um í þessu máli, að hún hefur haldið á málinu með þeim hætti frá upphafi, sem hlaut að leiða til stórkostlegra vandræða. Það hefði verið ámælisvert í rauninni fyrir togaraeigendur að ganga að kröfum langt um efni fram, án þess að hafa einhverja vitneskju um, að það væri möguleiki til að gera togaraflotann út. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því, sem hefur verið komið inn á af öðrum aðilum, hvernig á að koma togaraflotanum út, jafnvel þótt togaraeigendur vildu það. Liggur hann ekki enn bundinn við bryggju? Hvernig er hægt að ætlast til, að viðskiptabankar togaranna fjármagni þá, vitandi að það er bullandi halli, án þess að ríkisstj. taki þá hreinlega ábyrgð á því, að hún ætli að sjá um að styrkja togarana sem þessu nemur? Það hefur verið upplýst, að það er stórhalli hjá togurunum á þessu ári, og ég er ekki búinn að sjá það, að viðskiptabankar togaranna láni þeim eina krónu til þess að fara á flot, nema það sé vitað, að þeim verði gert mögulegt að endurgreiða þau lán aftur, þannig að ég er ekki búinn að sjá, að þessi hnútur sé leystur, þó að þetta frv. verði samþ. Það getur vel verið góðra gjalda vert, eins og ég sagði, til þess að leysa þennan þátt deilunnar. En kjarni málsins er þessi: Með skynsamlegum vinnubrögðum hefði ekki þurft til þessa stórtjóns að koma, sem þjóðfélagið hefur orðið fyrir, og það er því miður hæstv. ríkisstj. að kenna, að til þessa kom.