22.03.1973
Efri deild: 74. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2715 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

206. mál, kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum

Frsm. meiri hl. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Þetta mál var svo vandlega reifað hér bæði í framsöguræðu hæstv. félmrh. og í síðari ræðu hans við 1. umr. málsins, að ég tel ekki ástæðu til þess að vera langorður um málið á þessu stigi a. m. k. Það, sem hér er um að ræða, eru afskipti löggjafarvaldsins, ríkisvaldsins, og rök löggjafarvaldsins til þess að setja niður deilu, sem hefur staðið í tvo mánuði og hefur haft í för með sér margs konar háskalegar afleiðingar í þjóðfélaginu, þá deilu, sem valdið hefur því, að allur togarafloti landsmanna, þ. e. a. s. þeir togarar, sem eru yfir 500 brúttólestir að stærð, hefur stöðvazt í svo langan tíma. Það hefur í fyrsta lagi valdið óhemjulegu gjaldeyristjóni, sem nemur mörgum hundr. millj. kr. Það hefur truflað eðlilega atvinnustarfsemi í landinu hjá því fólki, sem í landi vinnur við fiskiðnað og fiskverkun. Og síðast, en ekki sízt, hefur þetta orðið okkur til vansæmdar út á við, kannske fyrst og fremst af tvennum ástæðum umfram þær venjulegu, þ. e. a. s. við stöndum í harðri deilu við tvö stórveldi um okkar landhelgi, og meðan togaraflotinn er stöðvaður, þá má segja, að þeim sé raunverulega gefinn einkaréttur á togveiðum við Ísland að verulegu leyti, þessum deiluaðilum okkar. Og í annan stað stendur svo á, að vegna þeirra náttúruhamfara, sem orðið hafa í landinu, þá má segja með nokkrum sanni, að við stöndum með útrétta höndina eftir fjárhagsaðstoð frá erlendum aðilum og jafnvel erlendum ríkjum, og það virðist því skjóta svolítið skökku við, að á sama tíma höfum við bundin við bryggju okkar aflasælustu skip, þau atvinnutæki okkar, sem oft hafa gefið einna mest í þjóðarbúið.

Það er sjálfsagt af þessum ástæðum öllum, og það er ekki umdeilt hér á hv. Alþ., að þessar deilur verði að setja niður, og það er ekki heldur umdeilt, að það verði að gerast með því, að löggjafarvaldið komi til skjalanna með einhverjum hætti. Hitt er aftur umdeilt nokkuð, hvort sá háttur, sem hér er á hafður, sé sá rétti eða hvort aðrir hefðu frekar komið til greina. En þetta mikilsverða atriði málsins vil ég leggja sérstaka áherzlu á, að allir eru sammála um það, að við svo búið má ekki standa. Hér er komið neyðarástand, óvenjulegt neyðarástand undir óvenjulegum kringumstæðum, sem ekki verður komizt hjá að binda endi á. Það breytir engu um þá fyrri og núv. afstöðu manna, ég vil vona flestra, ef ekki allra, sem í hv. d. sitja, að afskipti löggjafarvaldsins af slíkum málum séu algert neyðarúrræði, sem ekki eigi að grípa til, nema einskis annars sé kostur. Og ég held einmitt, að hér standi svo á, enda er nú hæstv. ríkisstj. frekar gagnrýnd fyrir það, hve seint hún hafi komið til skjalanna og hún hafi ekki tekið málin nógu sterkum tökum í upphafi, heldur en að hún sé nú of snemma á ferðinni með þær aðgerðir, sem eru fyrirhugaðar með setningu þeirra laga, sem hér er flutt frv. að. Það hefur oft fallið í minn hlut hér í hv. þd. á undanförnum árum og jafnvel rúmum áratug að andmæla slíkum afskiptum löggjafarvaldsins, og það má vel vera, að einhverjum þyki þess vegna, að ég og aðrir mínir félagar liggi vel við höggi, að öðruvísi hafi viðbrögð okkar verið hér áður fyrr. En ég vil benda á, að ég held, að alveg samsvarandi dæmi og þetta verði naumast fundið á síðustu árum og jafnvel síðustu áratugum, sem geri það jafnsjálfsagt og óumdeilanlegt, að löggjafarvaldið verði að grípa inn í.

Ég vil líka segja það út af því, sem um þetta atriði kom fram t. d. hjá hv. 1. landsk. þm., fyrrv. sjútvrh., að ég held, að það þyrfti ekki lengi að leita í ræðum, sem ég hef haldið um slík mál eða einhverju leyti sambærileg mál í tíð fyrrv. ríkisstj. að þá hafi ég alltaf haft þann fyrirvara á, að vitanlega gætu skapazt slíkar aðstæður, að það væri nauðsynlegt, að löggjafarvaldið gripi inn í, t. d. í þeim tilfellum, að mjög fámennir hópar misnotuðu þá aðstöðu, sem þeir hafa, þau réttindi, sem þeir hafa til þess að gera verkfall eða verkbann eða annað því um líkt, þannig að allt þjóðfélagið liði fyrir það óbætanlegt tjón. Undir slíkum kringumstæðum verður ekki komizt hjá slíkum afskiptum. Og ég held, að það sé alger óþarfi við afgreiðslu á þessu máli að vera að núa mönnum því um nasir, að þeir hafi haft aðra afstöðu í svipuðu máli. Það er eingöngu um það að ræða, að mat manna á málefnum hverju sinni hefur verið misjafnt, og við því er auðvitað ekkert að segja.

Ég tel það út af fyrir sig ánægjulegt, að ekki þurfi að deila um þetta mikilvæga atriði, að það sé nauðsynlegt, að aðgerðir löggjafarvaldsins komi hér til. Hitt er svo á að líta, hvort sú gagnrýni á þessari lausn málsins, sem fram hefur komið, hafi við rök að styðjast og hvort aðrar aðferðir hefðu verið hentugri til lausnar á deilunni eða sanngjarnari. Það er auðvitað ekki nægjanlegt, að lausn sé sanngjörn, — ég vil taka það skýrt fram, — og allra sízt vil ég halda því fram, að á þessu frv. finnist engir agnúar, sem mætti bendla við það, að réttlátari niðurstöður hefðu komið til greina, því að mér þykir auðséð að slíkir agnúar séu á þessu frv., og kem ég kannske að því ofurlítið síðar. En það er ekki nægilegt í slíku máli að fullnægja réttlætinu, þótt það beri vitanlega að gera, að svo miklu leyti sem nokkur kostur er. Málið er náttúrlega um það, fyrst og fremst, hvort á að ljúka deilunni, hvort á að gera þær aðgerðir, sem duga til þess, að deilunni sé raunverulega lakið og því vandræðaástandi, sem af henni leiðir.

Það hefur verið sagt, að það hefði verið hentugra, að sáttasemjari hefði fyrst komið með till. og hún hefði gengið sinn gang til atkvgr. í samtökum deiluaðila og síðan hefði hún verið borin fram sem frv. Þetta hefur verið gert áður og mælzt misjafnlega fyrir. En það, sem upp úr stendur um þetta atriði, er í fyrsta lagi það, að sáttasemjari hefur ekki talið sér fært að bera fram neina sáttatill., eins og málið hefur verið vaxið, þannig að hvorki ríkisstj. né löggjafarvaldið hefur við neitt það að styðjast og hefur ekki heldur á valdi sínu að fyrirskipa sáttasemjara að flytja till. eftir sinni forskrift eða annarra. Hann fer eftir sínum starfsreglum og embættisskyldum, og er það sízt að lasta. En að hans dómi hafa þær boðið honum að haga sér þannig í málinu að bera ekki fram sáttatill., vegna þess að það væri vonlaust, að hún leiddi til lausnar á deilunni. Þetta kom fram hjá sáttasemjara á fundi með félmn. beggja deilda í gær, að hann hefði talið það algerlega tilgangslaust að bera fram slíka sáttatill. Það hefur líka komið fram hjá hæstv. félmrh., að það hefur verið mikið reynt að fá deiluaðila til þess að koma sér saman um frjálsan gerðardóm, sem getur oft og tíðum verið æskileg aðferð í kjaradeilum, en það hefur ekki verið tekið í mál af deiluaðilum. Þá er ekki eftir annar möguleiki en að lögfesta gerðadóminn. Ég segi fyrir mitt leyti, — það er kannske smekksatriði, — að ef ég þarf að hafa afskipti af því á löggjafarþinginu, að það skipti sér af svona deilum, þá vil ég heldur sjá, hvað er verið að gera, sjá það svart á hvítu og geta dæmt um það eftir því, sem efni standa til, heldur en að senda málið út í óvissu gerðardómsins. Ég held, að það sé eðlilegra sjónarmið af hálfu þeirra, sem sá vandi er á herðar lagður á löggjafarþinginu að semja frv. um lausn á slíkum deilum. Að öðru leyti er kannske, eins og ég sagði, smekksatriði, hvort menn vilja gerðardóm frekar en ákveðna lagalausn. En að mínum dómi þá er gerðardómur miklu óviðfelldnari, og ég segi fyrir mitt leyti, að ég hefði verið miklu tregari til að ljá þeirri aðferð lið heldur en þeirri, sem er viðhöfð, þó sérstaklega ef þess er gætt, hvernig í pottinn er búið varðandi þá lausn, sem hér er um að ræða.

Ég verð að segja með hæstv. félmrh., að þegar lausn er byggð annars vegar á atriðum, sem annar aðilinn vill eftir atvikum sætta sig við, og hins vegar aðstoð þriðja aðilans, til þess að mótaðilinn skaðist ekki á að ganga að þeirri lausn, þá spyr ég: Hver þarf að kvarta? Yfir hverju þurfa útvegsmenn að kvarta, þegar þeim er boðin ríkisaðstoð til þess að brúa bilið, sem liggur á milli tilboðs yfirmanna og þess tilboðs, sem þeir sjálfir lögðu fram? Þeir greiða nákvæmlega það, sem þeir höfðu áður tjáð sig fúsa til að borga yfirmönnum, hvorki meira né minna. Ég get ekki séð, að á öðrum aðilanum sé níðzt í þessu tilfelli og raunar engum, sem þessi deila snertir. Það er að vísu um það að ræða hér, að búið er að semja við undirmenn á togurunum með frjálsum samningum, og þeim samningum verður vitanlega ekki breytt, nema með samþykki beggja samningsaðila, fyrr en í lok samningstímans. Þá er auðvitað rétt að geta þess, að stundum hefur það komið fyrir í samskiptum atvinnurekenda og launþega, að samningum hafi verið breytt, án þess að til uppsagnar kæmi á samningstíma, og það má vel vera, að þann aðalágalla, sem mér sýnist á þessu frv., takist að leiðrétta á samningstímanum og jafnvel áður en langir tímar líða.

Í því sambandi vil ég leggja sérstaka áherzlu á það, sem hæstv. félmrh. sagði hér áðan varðandi kjör matsveins og aðstoðarmanns eða manna í vél. Ég tel, að nái frv. samþykki og með tilliti til gerðra samninga, þá sé það hrópandi misræmi, sem skapast í þeirra kjörum, — ekki þannig, að það sé níðzt á þeim á þann hátt, að þeirra samningar, sem umboðsmenn þeirra hafa gert fyrir þá, séu í nokkru hreyfðir, það stendur allt eins og það á að standa, en þarna kemur fram greinilegt misræmi, sem þarf að leiðrétta og ég held að verði leiðrétt, áður en margir dagar eða margar vikur líða. Ég held, að það mál sé þannig vaxið, að það komi ekki til mála, að þessi hluti skipshafnarinnar láti bjóða sér það að vera allt í einu kominn niður fyrir háseta í launakjörum. Hins vegar tel ég ekki, að ríkisstj. eða þeir, sem hafa staðið að þessu frv., verði hér ásakaðir. Hér er um það að ræða, að umboðsmenn þessara manna hafa gert ákveðinn samning um það, að þeir skuli ekki vera með í þeim uppbótum, sem koma á laun þegar mönnum fækkar á dekki, og það hefur verið þeirra mat, að sanngirni mælti ekki með því. Hins vegar snýr það mál dálítið öðruvísi við, eftir að yfirmenn hafa fengið kröfum, sem hafa verið gerðar af þeirra hálfu í mörg ár, framfylgt, að fækki mönnum á dekki, þá skuli þeir einnig fá fyrir það nokkra launauppbót. Hvort það telst eðlilegt eða ekki, um það má sjálfsagt lengi deila. Ég held þó, að yfirmennirnir hafi þar nokkuð til síns máls, að fækkun á dekki sé möguleg að nokkru leyti fyrir aukinn tækjabúnað og að nokkru leyti fyrir vinnuframlag yfirmanna, þannig, að það sé ekki óeðlilegt, að hér sé hafður sami háttur á og yfirleitt er á bátaflotanum, að þegar hásetum fækkar, þá njóta allir skipsmenn þar góðs af. Þá er ekki heldur eðlilegt, eins og ég sagði, að þessir undirmenn, sem ég tilgreindi, matsveinn og aðstoðarmaður í vél, séu þar afskiptir. Ég vil satt að segja ekki trúa því, ef ríkisstj. er fús til, og ég gat ekki skilið orð félmrh. öðruvísi, að greiða fyrir því fjárhagslega, að þessi mismunur verði bættur útvegsmönnum, en að þeir séu manna fúsastir til að leiðrétta þetta atriði, því að mér finnst það mikið sanngirnismál. Auk þess yrði vafalaust með því leyst sambúðarvandamál, sem hljóta alltaf að skapast meðal skipshafnarinnar, þegar svona misræmi kemur fram, og hljóta að vera útvegsmönnum heldur óhentug.

Það hefur verið sagt, að þetta frv. væri ósanngjarnt að því leyti, að yfirmönnunum væri gert miklu hærra undir höfði en undirmönnunum og þeir fengju miklu meiri hlutfallslegar kjarabætur en hásetarnir fengu. Ég held, að um þetta megi lengi deila og án þess að komast að niðurstöðu, svo að menn geta sitt á hvað, þegar þeir hlusta á þessa málsaðila, eins og við gerðum í félmn., verið dálítið mikið sammála síðasta ræðumanni. Það er nefnilega þannig, að það er ekki auðvelt að skera hér úr og segja, að annað sjónarmið sé algjörlega rangt og hitt sjónarmiðið sé rétt. Það er, held ég, sannast mála, eins og kom greinilega fram hjá sáttasemjara og sáttanm., að málið sé þannig, að miðað við þann afla, sem almennt hefur verið á togaraflotanum að undanförnu og hann hefur því miður farið minnkandi, má minnki bilið milli tekna hásetans annars vegar og yfirmannsins hins vegar. Held ég, að á þessu geti ekki leikið neinn vafi, enda geta menn að sumu leyti lesið sér til um það í frv. A. m. k. þarf ekki að beita blýantinum ýkjamikið til að sjá það, að annars vegar fastakaupið, sem er annar aðalliður teknanna, hækkar svo að segja um sömu prósentutölu hjá báðum, þannig að það hlutfall virðist haldast nokkurn veginn eða jafnvel alveg nákvæmlega. En á hinum póstinum er um það að ræða, að aflapremía almenns háseta, sem er annar aðalhluturinn af tekjum hans hækkar úr 0.576% í 0.780%. eða nálægt 35%. En hjá yfirmönnunum er þetta svolítið misjafnt. Ef við tökum t. d. 1. vélstjóra þá hækkar hann úr 1.63% í 1.83%, en það er 12.2%. Þetta gefur greinilega vísbendingu um, hvað hér er um að ræða.

Hitt er svo annað mál, að kjörin eru þannig uppbyggð, að yfirmennirnir byggja tiltölulega að meira leyti á aflaprósentu heldur en fastakaupi, það er stærri hluti af þeirra launum, þannig er aflinn, sem um borð er dreginn í hvert skip, ræður að mestu um það, hvaða hlutfall hér er um að ræða. Það getur sem sagt verið, að bilið minnki. Það getur einnig verið, eins og Guðlaugur Þorvaldsson, einn sáttanm., orðaði það á fundi félmn., að ef afli vex mikið og mannskap er fækkað, þá getur bilið breikkað. Hins vegar sagði Torfi Hjartarson: Ef afli rýrnar, þá getur vel verið, að yfirmennirnir dragist óeðlilega niður, þannig að þeirra kjör verði lakari hlutfallslega heldur en þau hafa verið.“ Þannig sjá menn, að það er ekki eins auðvelt og hv. 5. þm. Reykn. vildi vera láta hér áðan, að komast að alveg óyggjandi rökstuddri niðurstöðu um það, hvort hér er um að ræða breytingu á innbyrðis hlutfalli milli háseta og yfirmanna eða ekki.

Til þess að ekki sé verið að gera tilraun til blekkinga, vil ég geta þess, að hér kemur það auðvitað inn í málið, hvort sá hluti af kjarabótum hásetanna, sem fenginn er með fækkun manna á dekki, á að reiknast hér inn í sem hrein kjarabót eða ekki. Það getur að sjálfsögðu verið deiluefni líka. En hitt er ekki deiluefni, að þeir munu bera þetta meira úr býtum í sambandi við aflaverðmæti heldur en þeir hafa gert áður.

Annað, sem hefur verið deilt um í þessu sambandi, er minni háttar, og ég sé ekki ástæðu til að fara ítarlega út í það. Því er t. d. haldið fram, að vélstjórar fái með þessu frv. alveg nýjan rétt til þess að skipta á milli sín hlut þess vélstjóra, sem vantar um borð. Hér er um algeran misskilning að ræða, því að í þessum samningum er ekkert slíkt ákvæði. Það er algerlega óbreytt frá því, sem verið hefur, og vélstjórarnir hafa þennan rétt samkv. gildandi lögum, en ekki samkv. samningum. Og það er næsta ólíklegt, að hér gæti verið um raunverulega stórkostlegt praktískt spursmál að ræða, þar sem það er lögbundið, hvað vélstjórar skuli vera margir, og ég hygg, að það þurfi að koma til annaðhvort, að sú skylda sé uppfyllt að hafa þann tilskilda fjölda vélstjóra, eða þá að gefa undanþágur, en í hvorugu tilfellinu mundi vera um neinar tekjur að ræða fyrir vélstjórana, — ekki ef þeir eru eins og lög segja til um, og ekki heldur, ef undanþága er veitt frá lögunum, þannig að hér er ekki um neitt nýtt mál að ræða eða neitt óréttlæti, sem skapað er með þessum lögum. Það er á allt annan hátt, sem þetta hefur gerzt.

Nú er það svo í sambandi við þetta og matið á því, hvað er hlutfallslegt, þá vil ég aðeins nefna það, sem mér finnst ástæða til, að afli togaranna hefur því miður farið minnkandi, minnkaði held ég á s. l. ári um 11. þús. tonn, ef ég man rétt, frá árinu áður. Það má auðvitað vel vera, og það er vonandi, að sú þróun snúist við í sambandi við útfærslu okkar landhelgi. En ég tel, að á næstunni, þ. e. a. s. á þessu ári, þeim tíma, sem þessir samningar eiga að standa, séu því miður ekki neinar sterkar líkur á því, að hér verði einhver alger umskipti, sem geti haft það í för með sér, að kjarahlutföll milli yfirmanna og undirmanna geti af þeim ástæðum raskazt stórkostlega. Ég held, að því miður séu ekki líkur á því. Hitt er auðvitað ekki nema alveg eðlileg afstaða forustumanna sjómannafélaganna, að þeir bendi á, hvað hér er á ferðinni. Það eru engin undur, þótt þeir bendi á það, að þeir leggja til verulegan hluta af kjarabótinni sjálfir með því að fækka mannskap og vera færri í þeirri vinnu, sem framkvæma þarf um borð. Og það er engin furða, þó að þeir bendi á það, að kjarahlutföllin geti breytzt þeim í óhag. Þetta eru ekki nema eðlileg og mannleg viðbrögð, sem auðvitað munu síðar ráðast af því, hvernig þróun mála verður varðandi aflabrögðin, því að það er hinn algeri reikningslegi grundvöllur undir því, hvort hér er um að ræða misræmi af völdum þessarar lausnar eða ekki.

Það skal játað, að þó að þetta mál hafi verið hér til athugunar í hv. þd. og félmn. núna í tvær dagstundir, þá er auðvitað fjarri því, að hægt sé að búast við því, að hver einasti þdm. hafi sett sig nákvæmlega inn í öll þau flóknu kjaraatriði, sem hér geta komið inn í umr. um þetta mál, og ég játa fúslega, að því er ekki þannig varið með mig, að ég geti í öllum tilvikum gert mig að sérstökum dómara um þetta. En það, sem mér finnst algert aðalatriði málsins, er, mér er óhætt að segja sú staðreynd, að þessi háskalega deila leysist ekki nema með þessum hætti. Það er engin önnur till. í boði, hvorki utan þings né innan, sem getur leyst málið nema þessi lögfesting, sem hér er um að ræða. Sáttatillöguleiðina hef ég rætt um. Gerðardómur mundi ekki leysa hana, vegna þess að báðir aðilar eru því andstæðir. Hins vegar held ég, að þessi till., þ. e. a. s. að ganga til móts við þær lágmarkskröfur, sem yfirmennirnir hafa fengizt til að þrýsta sér niður í, og að ríkisvaldið komi þá til skjalanna og greiði þann mismun og kostnaðarauka, sem af þessu stafar, sé eina hugsanlega leiðin til þess að leysa deiluna nú. Það má vel vera, ef verkfallið hins vegar héldi áfram, að það kæmi upp á þessu annar flötur, sem hægt væri að skoða. En hver telur, að ekki sé mál til komið að stöðva deiluna, svo að togaraflotinn geti haldið áfram eðlilegur störfum.

Það hefur blandazt hér inn í umr. ýmislegt tal um rekstrargrundvöll útgerðarinnar, og ég skal ekki draga neitt úr því, að rekstrarörðugleikar útgerðarinnar hafa verið miklir, og yfirleitt trúi ég flestu slæmu, sem um það er sagt. En ég vil líka benda á það, að slík deila við ríkisvaldið getur hæglega komið upp, þó að engin kjaradeila sé, og hefði áreiðanlega komið upp núna, þó að bæði undirmenn og yfirmenn á togaraflotanum hefðu haft sína samninga bundna og ekki hefði komið til neins verkfalls, því að sannast mála mun það, að samanlagðar kröfur undirmanna og yfirmanna á togurunum munu aðeins nema hluta af þeim kröfum, sem útgerðin er að gera til ríkisvaldsins. Það kann að hljóma svolítið einkennilega, að við höldum því fram, að hér sé um tvö aðskilin mál að ræða. En ég held, að það, sem ég núna sagði, skýri það alveg fullkomlega, að deilan milli útvegsmannanna og ríkisvaldsins um það, sem útvegsmenn kalla bærilegan rekstrargrundvöll fyrir togarana, hún hefði verið til, þó að þessi deila hefði aldrei verið háð, og hana hefði þurft að leysa og hana þarf að leysa, hvað sem þessu líður.

Hér er um það að ræða, að togaramenn þurfa að fá leiðréttingu á sínum kjörum í sambandi við almenn launakjör í landinu. Það er staðreynd, sem ég held, að allir viðurkenni, sem hafa athugað málið eitthvað, að sjómennirnir og ekki sízt togarasjómennirnir hafa dregizt aftur úr í kaupgjaldsþróuninni, tekjuþróuninni í landinu. Þeir þurfa að fá á þessu leiðréttingu, ef nokkur von á að vera til þess, að hægt sé að manna flotann. Þess vegna ber svo undarlega við, að það vandamál hefði þurft að leysa alveg án tillits til þess, hvort deilan milli togaraeigenda og ríkisstj. var á döfinni eða ekki, og að því leyti eru þetta tvö óskyld mál. Ég ætla hins vegar ekki að fara neitt út í þær hnippingar, sem orðið hafa út af því, hvernig ríkisstj. hafi tekið á þeim málum. Ráðh. eru betur til þess fallnir og meira viðeigandi, að þeir svari fyrir það, heldur en ég.

Það, sem hér er um að ræða, er, að þessari deilu ljúki að því er varðar deilur um kjörin. Ég tel, að það sé fjarri því, að nokkur, hvorki undirmaður né yfirmaður, fái kjarabætur út úr þessum samningum, sem þeir verða taldir of sælir af miðað við almenn launakjör í landinu. Í launakerfi, sem gefur kost á því, að hálaunamaðurinn hafi 4–5 sinnum hærra en undirmaðurinn, tel ég ekki neitt sérstaklega óeðlilegt við það, þó að togaraskipstjóri fái milli tveggja og tveggja og hálfs hásetahlutar, miðað við þá ábyrgð og þá vinnu, sem hann leggur af mörkum. Og ef á að breyta okkar launakerfi þannig, — sem ég skal sízt mæla gegn, heldur tel á því almenna og brýna nauðsyn, — að kjör þeirra lægst launuðu séu bætt umfram aðra, þá held ég, að ef á að fara að breyta launamismun og launahlutföllum í landinu, þá ætti að byrja einhvers staðar annars staðar en á togaraflotanum. Það er sannfæring mín. En þar með er ég sízt að segja, að undirmennirnir hafi verið of sælir af sínum samningum. Ég tel, að þar hafi verið um algerar lágmarkskröfur að ræða, sem þeir fengu í gegn, og hefðu mátt gjarnan vera meiri, miðað við aðra og miðað við það vinnuframlag, sem þeir láta af hendi. En með þessu frv. er ekki á nokkurn hátt verið að níðast á þeim. Það er ekki snert við einum stafkrók í þeim samningum, sem þeir gerðu með frjálsum og eðlilegum hætti, þannig að, að því leyti þurfa þeir ekki neitt undan þessu frv. að kvarta. Hitt er svo annað mál, að ef reynslan á þessu ári sýnir, að aflabrögð og annað komi þannig út, að hér verði um vaxandi launamismun að ræða, þá hlýtur það að hafa sínar afleiðingar varðandi kröfur undirmannanna, þegar til samninga verður gengið á næsta vetri. Það gefur auga leið.

Herra forseti. Ég er reyndar orðinn langorðari um þetta en ég ætlaði í fyrstu. Ég vil aðeins skýra frá því, að félmn. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Eins og fram kemur á þskj. 416, erum við þar 4 í meiri hl., sem leggjum til, að frv. verði samþykkt án breytinga, en síðan koma þm. Alþfl. og Sjálfstfl., sem skila sérálitum í svipaða átt og flokksbræður þeirra gerðu í Nd., og þeir munu að sjálfsögðu gera nánari grein fyrir þeim. En það er sem sagt niðurstaða meiri hl. n. að mæla með því, að frv. verði samþ. án breytinga.