22.03.1973
Neðri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2730 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

Umræður utan dagskrár

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég held að það séu ýmis fleiri mál, en þetta, sem hafa ekki verið afgreidd úr allshn. og öðrum n. hér í þinginu þannig að það sé ekkert einstakt um þetta mál. Ég veit ekki betur en að það séu ýmis stjfrv., sem n. hefur verið með og er með, og að það sé nú ekki neitt sérstakt með þetta frv. út af fyrir sig.

Það er alveg rétt, sem síðasti ræðumaður sagði, að gangur málsins var eins og hann gat um. Við fengum forstöðumann Landhelgisgæzlunnar á fund ásamt ráðuneytisstjóranum í dómsmrn. og spurðum þá út úr, og við óskuðum eftir ákveðnum upplýsingum frá Landhelgisgæzlunni. Við fengum aðeins hluta af þeim, þ. e. a. s. hvað þetta skip hefði kostað fyrir nokkrum árum og hvað væri líklegt, að það mundi kosta nú, en alls ekki um, hvað mundu kosta þær framkvæmdir, sem nauðsynlegar væru í landi. Við fengum vilyrði fyrir því að fá þessar upplýsingar, og ég hef litið þannig á, að ef maður biður um ákveðnar upplýsingar, þá sé það óeðlilegt að afgreiða mál, áður en þær liggja fyrir.

Ég vil benda á það líka, að eftir að það skeði, sem hv. 11. landsk. þm. sagði, hafa fulltrúar sjálfstæðismanna í n. aldrei minnzt á þetta mál fyrr en á síðasta fundi. Þeir gátu tekið þetta mál upp hvenær sem var í n., en það hafa þeir ekki gert, það er staðreynd, fyrr en þeir spurðu um þetta nú síðast.

Ég er hissa á því, að það skuli vera gert svona mikið veður út af þessu frv., þar sem það er staðreynd, að það hefur ekkert verið legið á því frekar en ýmsum öðrum málum. Það þarf að athuga þessi mál, og meira að segja eru mörg stjfrv., sem hefur verið legið á alveg eins og á þessari till., ef hægt er að kalla það að liggja á málum.