22.03.1973
Neðri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2733 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

190. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er einnig komið frá Ed. Það fjallar um útflutningsgjald af sjávarafurðum. Gert er ráð fyrir allverulegum breytingum á þessum gjöldum frá því, sem verið hefur, en þær breytingar eru allar gerðar í fullu samráði við þá aðila, sem þessi gjöld eiga að greiða, og reyndar þeirra aftur að njóta úr þeim sjóði, sem aðallega á að taka við tekjunum, svo að hér er væntanlega ekki heldur um neitt ágreiningsmál að ræða.

Meginbreytingarnar, sem er gert ráð fyrir í þessu frv., eru þær, að svonefnt magngjald, útflutningsgjald, sem er í formi magngjalds, af ýmsum sjávarafurðum er hækkað talsvert, þó er það í einu tilfelli lækkað. Ástæðan til þess, að magngjaldið er hækkað, er sú, að útflutningsverðið hefur hækkað mjög verulega, síðan magngjaldið var ákveðið á sínum tíma, og er því í rauninni með því að hækka gjaldið nú, en halda áfram magngjaldsforminu, verið að gera ráð fyrir hliðstæðu útflutningsgjaldi miðað við verðlag og áður var. Það er í þessu sambandi einnig gert ráð fyrir nokkurri lækkun á magngjaldi á einni tegund, en ástæðan er sú, að þar er um að ræða framleiðsluvöru, sem hefur verið í tiltölulega lágu verði og erfitt að halda því hráefnisverði á vörunni, sem þar hefur verið ákveðið. Því er gjaldið af þessari framleiðsluvöru lækkað.

Þá er í frv. gert ráð fyrir, — og það er það, sem munar mest um, — að hækka talsvert útflutningsgjaldið af fiskmjöli, einkum loðnumjöli. Útflutningsgjaldið á þeirri vörutegund var mjög lágt, vegna þess að verðið á þessari framleiðsluvöru var óhagstætt á s. l. ári, og þá var útflutningsgjaldið haft lágt. Nú er hins vegar útflutningsverðið á þessari vöru mjög hagstætt, og þá er gert ráð fyrir að hækka útflutningsgjaldið.

Nokkrar aðrar minni tilfærslur eru gerðar á þessum gjöldum, og sé ég ekki ástæðu til að fara frekar út í það. En meginástæðan fyrir flutningi frv. er að afla Tryggingarsjóði fiskiskipa aukinna tekna, en hann hefur verið rekinn með allverulegum halla að undanförnu. Með frv. er gert ráð fyrir að leiðrétta þennan mismun að verulegu leyti.

Þetta frv. er, eins og ég sagði, flutt í fullu samráði við bæði samtök sjómanna og útvegsmanna, og var í rauninni gengið út frá þessum breytingum við þá verðákvörðun á fiski, sem samkomulag tókst um s. l. áramót, svo að fiskverðið þá var miðað við það, að útflutningsgjöldin yrðu þau, sem segir í þessu frv. Þar sem málið hefur fengið fullnaðarafgreiðslu í Ed. og verið rækilega athugað þar, vænti ég þess einnig, að sú n., sem fær þetta mál til afgreiðslu hér, geti afgreitt það tiltölulega fljótlega enda er mjög brýn þörf á því vegna innheimtu á þessu gjaldi. Vil ég mælast til þess, að málið verði afgreitt mjög fljótlega.

Herra forseti. Ég óska þess, að frv. gangi til hv. sjútvn. til fyrirgreiðslu, og ég vona, að hún afgreiði það eins fljótt og tök eru á.