22.03.1973
Neðri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2746 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef lítið gert að því á þessu þingi að blanda mér inn í umr. um mál þau, sem ég fer ekki sérstaklega með. Ég verð að segja það, að ég er mjög undrandi út af því, sem fram kemur í sambandi við þetta mál hér á hv. Alþ. Ég tók þátt í því ásamt mörgum hv. þm. á sínum tíma að reyna að þoka þessu máli fram á hv. Alþ., áður en síðustu stjórnarskipti urðu, og þá var ekki haft svo mikið við alþýðu manna, að það væri einu sinni til hennar talað, heldur var málið aðeins álitið eitt af yfirborðsmálum, sem stjórnarandstaðan þá væri með til þess að sýnast, en ekki til annars.

Nú er hins vegar hér á ferðinni frv. til 1., þar sem er um beina aðstoð við þetta málefni að ræða. Ég verð að segja það eftir lestur á brtt. á þskj. 347, sbr. frv., að ekki séu í þeim þau nýmæli, að ástæða hafi verið til að fara að setja á blað breyt. á flestum gr. frv. En gleðilegt hefði verið, ef sá áhugi hefði verið hjá hv. fyrra flm. áður fyrr til stuðnings þessu máli, sem nú virðist vera. Ég held því, að það, sem sé nauðsyn í sambandi við þetta mál, sé að koma því heilu í höfn, því að eftir því hefur verið beðið og eftir því er beðið. Og ekkert efast ég um það, að á næstu fjárl. verður þetta eitt af því, sem verður talið sem óráðsía fjmrh. að taka með þegar heildardæmið verður lagt saman, þó að það verði ekki talið það í einstökum liðum. En auðvitað þýðir þetta aukið fjárframlag úr ríkissjóði, og mér sýnist, að það sé svo myndarlega af stað farið, að það þurfi ekki að tína upp alla hugsanlega kostnaðarliði, sem hægt væri að koma á ríkissjóð í sambandi við þetta atriði, og setja inn í lögin sjálf. Annað eins hefur nú verið sett í reglugerð eins og framkvæmdin á því, hvað styrkja ætti í sambandi við stofnkostnaðinn.

Ég verð líka að segja svipað um það að fara að setja í lög sem þessi, að ársreikningur skuli vera endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum á hverju einasta dvalarheimili í landinu, smádvalarheimili. Þá væri nær fyrir Alþ. að fara að líta betur eftir á fleiri stöðum, heldur en fara að eyða í það tugum þús. að fara að láta endurskoða slíka reikninga af löggiltum endurskoðanda. Ég er í stjórn eins dvalarheimilis, og verklag á því er ekki slíkt, að þeir ágætu menn, sem þar eru kjörnir endurskoðendur, klári sig ekki af því verki með sóma og þurfi enga löggilta endurskoðendur til þess að fara þar um. Enda sýnist mér, að ef ráðh. vildi, gæti hann tekið það fram í reglugerðinni, — það yrði ákvörðun ráðh., hvort ástæða væri til að hafa löggilta endurskoðun á slíkum heimilum sem þessum. Það gæti aldrei komið til greina nema með þau stærstu og á ekki að koma til greina nema með þau stærstu. Ég held, að það sé alveg nóg að hafa þetta eins og er í frv. um, að reikningurinn sé sendur rn. árlega, og það getur þá gert sínar ráðstafanir, ef ástæða væri til að fara að hafa sérstakt eftirlit með þessum stofnunum. Ég kann satt að segja ekki við, að það eigi að fara að setja þær undir sérstakan hatt í þessu tilfelli.

Ég verð að segja það, að ég hafði litið svo á, að hv. Alþ. mundi sameinast um að afgreiða þetta frv., eins og það er á þskj. 301 eftir 2. umr. í Nd., og það þyrfti ekki að fara að gera á því allar þær breytingar, sem þskj. 347 gerir ráð fyrir. Mér kemur það mjög á óvart, að hv. þm., sem að því þskj. standa, skuli telja sér það til einhvers frama að fara að setja út þær till.

Ég skal ekki þreyta hér langar umr, um þetta. Það, sem hér er verið að gera, er, að það er verið að setja löggjöf um að styðja dvalarheimili aldraðra í landinu með fjárframlögum úr ríkissjóði. Það er mergur málsins. Allt annað er ósköp þýðingarlitlir hlutir. Það eru auðvitað sett ákvæði um, að það geti ekki hver og einn þotið í það að hyggja þau, heldur verður að vera eðlilegur starfsgrundvöllur undir því. Og það verður að vera í lögum, til þess að það sé samræmi milli framkvæmda og fjárveitinga og sé ekki ætt í þetta alveg án eftirlits og skipulags, og það tryggir þetta frv. Þess vegna tel ég, að hinir ágætu hv. þm., sem standa að þessum brtt., hefðu átt að kippa þeim til baka og styðja málið. Það er mergur málsins.