22.03.1973
Neðri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2747 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Alltaf verð ég jafnundrandi, þegar hv. þm. Pétur Sigurðsson, sem er maður mjög léttur í máli og hefur ákaflega góða kímnigáfu, þegar maður talar við hann hér út við glugga eða úti í hornum Alþingishússins, kemur hér upp í ræðustól. Þá er eins og hann gjörbreytist. Hann fer í einhvern alveg tiltekinn ham, einhvern ergilsisham, og talar í tóntegund eins og hann sé fjarska reiður og móðgaður út af öllum hlutum. Og jafnvel sú ágæta kímnigáfa, sem hann hefur í ríkum mæli, umbreytist og súrnar, um leið og hann kemur upp í þennan stól. Til að mynda átti það víst að vera gamansemi, hvort stjórnir dvalarheimilis aldraðra ættu að leggjast í rúmið við hliðina á einhverjum sjúkum, sem þar væru, til þess að halda stjórnarfundi, ef vistmenn ættu aðgang að því að eiga sæti á stjórnarfundum. Þetta er ekki gamansemi. Ég skil ekki í manni, sem hefur haft forustu fyrir myndarlegum rekstri í þágu aldraðra, að hann skuli leyfa sér ummæli af þessu tagi. Ég held, að það væri skynsamlegast fyrir hv. þm. Pétur Sigurðsson að breyta þessum háttum sínum dálítið og reyna að ástunda það hér í ræðustólnum, sem hann ástundar með mestu prýði, þegar talað er við hann utan þessa ræðustóls.

En ég kom hingað fyrst og fremst til að leiðrétta mjög undarlega athugasemd, sem hann kom með. Hann sagði, að það ræki sig eitt á annars horn í máli mínu, og tók þá til 2. gr. og þá 3. Ég gat ekki annað heyrt en orð hans bæru það með sér, að hann skyldi ekki sýna eigin brtt. Brtt. hans við 2. gr. er svohljóðandi: „Enginn má setja á stofn eða reka dvalarheimili fyrir aldraða nema með leyfi ráðherra, enda sé dvalarheimilið byggt með styrk úr ríkissjóði“. Í þessu felst það, að ef dvalarheimilið er ekki byggt með styrk úr ríkissjóði, þá þarf ekki að leita til heilbrrh. um neitt leyfi til að stofna eða reka slíkt heimili. Þetta er það, sem felst í þessari brtt. Það þýðir að sjálfsögðu, að 3. gr. ætti alls ekki við um heimili af slíku tagi. Hafi þetta ekki vakað fyrir hv. flm., ber honum að sjálfsögðu að gera leiðréttingu á þessari till. sinni eða draga hana til baka. Eins og hún er orðuð, felur hún þetta í sér, að ef um er að ræða dvalarheimili fyrir aldraða, sem nýtur ekki styrks úr ríkissjóði, þá leggur hann til, að það sé heimilt að reisa það og reka, án þess að til komi nokkurt leyfi ráðherra. og þá eiga önnur frv. um reglugerðir og eftirlit ráðherra alls ekki við slíkt heimili. Ef eitthvað rekur sig á, þá er það skilningur þessa hv. þm.

Umtal hans um heimilislækni, — að sjálfsögðu verður hvert dvalarheimili að hafa sinn heimilislækni. Það er enginn, sem segir, að hann eigi að vera þar fastráðinn starfsmaður. Hann getur haft það sem hluta af starfi, eins og tíðkast mjög víða. En auðvitað er alveg óhjákvæmilegt, að það sé samningur við lækni um, að hann gegni störfum fyrir dvalarheimili af þessu tagi. Það liggur í hlutarins eðli.

Að öðru leyti skal ég ekki deila frekar við hv. þm. Ágreiningur okkar er um það, sem hann sagði, að hann teldi, að í till. mínum væri um að ræða of mikla afskiptasemi heilbrigðisyfirvalda. Það er þarna, sem ágreiningurinn er, það er alveg rétt. Ég tel, að heilbrigðisyfirvöld þurfi að hafa aðstöðu til að fylgjast með því, að öll dvalarheimili í þágu aldraðra séu þannig starfrækt og stofnuð, að þau fullnægi nútímakröfum, sem gera ber til slíkra stofnana. En hv. þm. telur, að það sé ekkert við það að athuga, að stofnuð séu einhver slík heimili, þar sem slíkt opinbert eftirfit komi ekki til. Þetta greinir okkur á um.