26.03.1973
Efri deild: 76. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2753 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

3. mál, bygging og rekstur dagvistunarheimila

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram, áður en atkvgr. fer fram um þetta dagskrármál, að ég er ekki þeirrar skoðunar, að þó að þær brtt., sem meiri hl. menntmn. hefur flutt við frv., nái fram að ganga, sé frv. þar með, fullfrágengið í þeim búningi, sem telja má æskilegast, að það sé í. Ég er efnislega samþykkur nokkrum hugmyndum, sem fram koma í brtt. minni hl., sérstaklega varðandi það atriði, að til greina geti komið að veita ríkissjóði heimild til að ábyrgjast greiðslu skuldabréfa þeim aðilum, sem taka að sér byggingu dagvistunarheimila, en hafa ekki fengið fjármagn til þess. En ég tel eðlilegast, að þær till., sem fyrir liggja, séu nú afgreiddar, og áskil mér þá rétt til að flytja brtt. við 3. umr. í þeim búningi, sem eðlilegast er, eftir að afgreiðsla hefur farið fram á fyrirliggjandi brtt. Ég vil leggja áherzlu á, að ég tel mjög illa farið, ef fellt verður það ákvæði, að ríkið skuli greiða hluta af rekstrarkostnaði þessara heimila, og vil vænta þess, að hv. d. sjái til þess, að það ákvæði standi áfram í frv. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að það atriði þurfi nánari athugunar við milli umr., og eins er um fleiri atriði.