26.03.1973
Efri deild: 76. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2753 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

46. mál, námulög

Frsm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Iðnn. hefur fjallað um frv. þetta og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess með nokkrum breytingum, sem fram koma á þskj. 397. Einn nm., Geir Hallgrímsson, var fjarverandi, en nm. áskilja sér allir rétt til að flytja og fylgja öðrum brtt.

Frv. þetta hefur verið lagt fyrir hv. Alþ. þrisvar sinnum, en ekki náð afgreiðslu. Afgreiðsla málsins hjá iðnn. hefur dregizt nokkuð nú vegna þess, að talið var rétt að leita umsagnar allvíða, m. a. hjá Búnaðarþingi, en því er tiltölulega nýlokið, eins og kunnugt er.

Ég ætla aðeins að hlaupa yfir þessar umsagnir mjög lauslega. Þær eru yfirleitt með. mæltar frv.

Frá Dómarafélaginu er mælt með samþykkt frv., en bent á, að algengara muni í lagamáli að nota orðið eignarnám en lögnám. Á þetta féllst n., og brtt., sem n. flytur, eru raunar flestar til að leiðrétta þetta.

Umsögn Búnaðarfélags Íslands er ítarleg og fylgir henni löng grg., sem ég sé ekki ástæðu til að lesa hér upp. Búnaðarþing leggur sérstaka áherzlu á, að réttur bænda og sveitarfélaga sé tryggður, og vekur í því sambandi athygli á 2. gr. frv., sérstaklega þó á grg. með 2. gr. þess.

Þá barst umsögn frá stjórn Stéttarsambands bænda, sem mælir raunar með samþykkt frv., en vekur athygli á þessu sama og segir, með leyfi forseta:

„Stjórnin telur nauðsynlegt, að í sambandi við setningu nýrrar löggjafar um námuréttindi verði réttindi sveitarfélaga á landi sínu, hvort sem það er í byggð eða afréttum, tryggð á sama hátt og réttindi einstaklinga.“

Þá lá fyrir n. nokkuð gamalt erindi eða umsögn, sem hv. þm. Steinþór Gestsson kom á framfæri frá sýslunefnd Árnessýslu, og er þar vakin athygli á 2. gr., sem sýslunefndin taldi rýra rétt eigenda afréttarlanda.

Þá lá fyrir umsögn Orkustofnunar, sem mælir með samþykkt frv. óbreytts.

Umsögn Búnaðarfélags Íslands er nánast tilvísun í umsögn Búnaðarþings.

Að þessum umsögnum fengnum ræddi ég fyrir hönd n. við annan af þeim tveimur fyrrv. hæstaréttardómurum, sem sömdu frv., og var sérstaklega rætt um, hvort frv. þetta takmarkaði eitthvað umfram það, sem nú er, rétt einstaklinga, bænda, og sveitarfélaga, til afréttarlanda. Að þeim upplýsingum fengnum taldi n., leyfi ég mér að segja, að svo væri ekki. Það væri fremur í því sambandi um að ræða dómsniðurstöður, sem hafa orðið upp á síðkastið um svipuð mál, en þetta frv. sem slíkt skæri þar ekki úr. Varð það til þess, að nm. urðu sammála um að leggja til, að frv. yrði samþ. án nokkurra breytinga að þessu leyti.

Þá barst loks umsögn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, og er þar lagt til, að frv. verði samþ. og engin aths. gerð við þau ákvæði, sem einkum var rætt um í öðrum aths., en hins vegar var þar lagt til, að við 8. gr. frv. bættist mgr., svo hljóðandi:

„Sveitarstjórn er heimilt með samþykki ráðh. að taka eignarnámi til eignar eða afnota malar- og grjótnámur ásamt nauðsynlegu landi, ef brýna nauðsyn ber til vegna almannahagsmuna í sveitarfélaginu.“

N. varð við þessum tilmælum og telur rétt að bæta þessu við 8. gr.

Loks er vakin athygli á því, að til framkvæmda á 3. mgr. 3. gr., þar sem sveitarstjórnum er falið að hafa eftirlit með því, að fyrirmælum laganna sé hlýtt, sé eðlilegt, að heimild fáist til þess að beita dagsektum. Þetta var einnig samkv. ábendingu frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. N. taldi einnig rétt að fallast á þessa hugmynd.

Þannig liggja nú fyrir hv. d. nokkrar brtt., sem eru á þskj. 397 og ég ætla ekki að fara að lesa hér, en felast raunar eingöngu í þessu þrennu, að breyta lögnámi, lögnámsmati og þess háttar í eignarnám, eignarnámsmat, samkv. ábendingu Dómarafélagsins, og svo þær tvær till. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, sem ég hef sérstaklega minnzt á.