26.03.1973
Efri deild: 76. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2755 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

209. mál, sala Dysja í Garðahreppi og Háagerði í Dalvíkurhreppi

Flm. (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Á þinginu 1971 var samþ. heimild fyrir ríkisstj. til að selja Hafnarfjarðarkaupstað hluta af landi jarðarinnar Dysja í Garðahreppi. Síðar kom í ljós, að landspilda sú, sem hér um ræddi og var að stærð 16.5 hektarar, var ekki öll í landi Dysja, heldur var hluti af henni í landi Pálshúsa í sama hreppi. Vegna þess að Hafnarfjörður er ört vaxandi bæjarfélag og nú þegar er búið að skipuleggja byggð á því landssvæði, sem hér um ræðir, telur bæjarstjórn Hafnarfjarðar nauðsynlegt að fá heimild til þess, að ríkið selji Hafnarfjarðarkaupstað einnig hluta úr Pálshúsum í Garðahreppi. Um þetta er fullt samkomulag milli hreppsnefndarinnar í Garðahreppi og bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði, og þeir hafa ritað okkur erindi, sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Nú hefur hins vegar komið í ljós hjá jarðeignadeild ríkisins, að hluti þess lands, sem í lögsagnarumdæmið færist með nefndum lögum og ætlunin var, að Hafnarfjarðarbær keypti tilheyrði jörðinni Pálshúsum í Garðahreppi. Þar sem sá hluti lands Pálshúsa hefur verið skipulagður undir svokallaðan Norðurbæ og byggingar þar eiga að hefjast nú bráðlega, er nauðsynlegt, að tryggð sé heimild ríkisstj. til sölu landspildu þessarar til Hafnarfjarðarbæjar með sama hætti og landspildu úr jörðinni Dysjum.“

Þess vegna höfum við nú 3 þm. Reykn. leyft okkur að flytja frv. til l. um breyt. á l. nr. 44 1971, um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Hafnarfjarðarkaupstað hluta af landi jarðarinnar Dysja í Garðahreppi. 1. gr. hljóðar svo:

Ríkisstj. er heimilt að selja Hafnarfjarðarkaupstað ca. 16.6 ha. af landi jarðarinnar Dysja og Pálshúsa í Garðahreppi, þ. e. þann hluta jarðanna, sem fellur undir skipulag nýs byggðahverfis í Hafnarfirði.“

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. sent til landbn.