26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2756 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Sá hversdagsbragur, sem löngum hvílir yfir störfum okkar hér í þessu húsi, er víðs fjarri núna. Á þeim fundi, sem nú er hér hafinn, munu hv. þm. í lengstu lög halda kyrru fyrir í sætum sínum. Og menn munu ekki sökkva sér niður í þreytandi þskj. eða eigin hugsanir, sem hvort tveggja veldur því löngum, að svipurinn verður tómlátur, jafnvel sljór, heldur munum við verða eftirvæntingafullir og áhugasamir í framan. Og menn munu beina sjónum sínum upp á við, svo er kvenfólkinu fyrir að þakka.

Það eru konur hér fyrir utan og það eru konur hér frammi á göngum og e. t. v. í stigum líka, og allir pallar eru fullir af konum.

Í dag hefur það gerzt, sem að líkindum hefur aldrei gerzt fyrr í sögu Alþingis. Á ég þá ekki við það, að álitlegur hópur reykvískra kvenna hefur skroppið hingað niður eftir fótgangandi eða í strætisvögnum eða kannske í einkabílum sínum til þess að heiðra okkur með nærveru sinni. Þess eru þegar allmörg dæmi í sögu Alþingis, að reykvískar húsmæður hafi lagt slíkt á sig. Hingað eru líka komnar aðrar konur, og þær eru komnar lengri veg en hinar. Þetta eru sveitakonur. Þetta eru fulltrúar þeirra íslenzku húsmæðra, sem yfirleitt eiga ekki heimangengt. Þetta eru fulltrúar þeirra kvenna, sem hvern dag ársins eru bundnar ekki aðeins við barnauppeldi og venjuleg heimilisstörf, heldur og þau önnur verk margvísleg, sem þær verða að vinna við hlið eiginmanna sinna, í fjósum og í fjárhúsum eða þá kannske einhvers staðar úti við, einfaldlega vegna þess, að þannig er nú einu sinni lífsbaráttan í sveitum þessa lands.

Það er ástæða til að bjóða velkomnar allar þær konur, sem í dag heiðra okkur með nærveru sinni, en persónulega leyfi ég mér að bjóða sérstaklega velkomnar þær konur, sem ég nú nefndi. Þær sitja þarna uppi á pöllunum fremst, 25 saman, og eru, að ég hygg, flestar úr Villingaholtshreppi, en einnig úr Hraungerðishreppi og ofan af Skeiðum. Það er nærvera þessara kvenna, sem gerir þennan dag einstæðan í sögu Alþingis. Bændur hafa oft komið hingað margir saman til þess að leggja áherzlu á hagsmunamál sín. Einkum gerðist þetta í fyrri tíð, svo sem frægt er, og beittu þeir þá gjarnan hestum sínum á völlinn hér fyrir utan, meðan þeir sátu hér inni í húsinu og hlýddu á mál manna. Bændakonur hafa hins vegar aldrei fyrr, svo að mér sé kunnugt, tekið sig saman um það, eins og nú í dag, að heilsa upp á hv. Alþingi.

Þær munu hafa orðið að fara óvenjusnemma á fætur í morgun, flestar þessar konur, til þess að ljúka morgunverkunum í tæka tíð, svo að þær gætu safnazt saman í þeim almenningsvagni eða rútubíl, sem þær leigðu sér til ferðarinnar. Meðan reykvískar húsmæður voru núna áðan, elskulegar reykvískar húsmæður, að útbúa hádegismatinn handa fjölskyldum sínum, voru þessar konur, hinar konurnar, á leið yfir þá stóru heiði, sem liggur milli höfuðborgarinnar og þeirrar sveitar þar sem þær eiga heima og vilja eiga heima. Ég skal ekkert um það segja, hvernig hádegismaturinn kann að hafa lukkazt á heimilum þeirra reykvísku húsmæðra, sem vegna sinnar erfiðu lífsbaráttu hafa nú ákveðið að kaupa hvorki kartöflur né mjólk né kjöt né neinar aðrar afurðir, sem íslenzkir bændur framleiða og byggja á lífsafkomu sína og sinna eiginkvenna og sinna barna. En hitt þykist ég vita, að í dag muni reynast heldur þunnur þrettándinn á vissum heimilum fyrir austan fjall, þar sem húsbóndinn verður auk allra annarra starfa sinna að bögglast við eldamennsku og barnagæzlu, vegna þess að eiginkona er allt í einu farin suður til þess að sitja á þingpöllum.

En hvað um það, ekki hefur þetta að ástæðulausu gerzt. Þær hafa boðskap að flytja, þessar konur, sem hingað eru komnar austan yfir fjall. Og mér veitist sá heiður að lesa þennan boðskap, með leyfi hæstv. forseta. Hann hljóðar svo:

„Við undirritaðar konur úr Árnessýslu viljum með nærveru okkar hér kynna sjónarmið okkar. Það er staðreynd, að landbúnaðarvörur hafa ekki hækkað í verði meira en aðrar vörur. Fiskur hefur hækkað örar en kjöt, og heildarhækkun hans er meiri en á kjöti. Mjólk er enn þá ódýr neyzluvara, ef miðað er við næringargildi og verð hennar og annarra drykkja. Vegna mikilla niðurgreiðslna á mjólk hafa mjólkurframleiðendur fengið hærra verð fyrir mjólk sína en söluverð hennar út úr búð. Neyzlumjólk bænda er því dýrari en annarra landsmanna. Þetta eru staðreyndir, sem öllum ættu að vera ljósar. Samt sem áður gerist það undarlega, að nokkrar húsmæður í Reykjavík skora á fólk að hætta að borða landbúnaðarvörur, en neyta í staðinn „dýrari og óhollari fæðu“ (orðalag þeirra sjálfra). Við sveitakonur, sem vinnum að framleiðslustörfum jafnframt húsmóðurstörfum, lítum svo á, að þarna sé verið að ráðast á okkar stétt og það af þeim, sem sízt skyldi. Þessar konur eru að vísu sjálfráðar um það,“ — það er verið að tala um reykvískar húsmæður, — „hversu dýran og óhollan mat þær gefa börnum sinum. En við mótmælum herferð þeirra gegn íslenzku bændafólki. Við álítum, að það væri nær að hætta að kaupa brezkar og vestur-þýzkar vörur, á meðan þær þjóðir stunda ólöglega veiðar í íslenzkri fiskveiðilandhelgi. Við skorum á konur að sniðganga brezkar og vestur-þýzkar vörur, þar til samningar hafa tekizt í fiskveiðideilunni. Við skorum á konur að kaupa ávallt íslenzkar vörur, ef verð þeirra og gæði standast samanburð við erlendar vörur.“

Og undir þetta skrifa þær konur, sem ég áðan nefndi úr tilnefndum 3 hreppum Árnessýslu. Og ég ítreka það, að ég tel það sérstakt fagnaðarefni, að við skulum hafa fengið þær hingað í húsið til okkar. Ég segi a. m. k. fyrir mína parta: Veri þær allar hjartanlega velkomnar.