26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2758 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

Umræður utan dagskrár

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það er nú svo, að þegar farið er að tala um mjólk hér á hinu háa Alþingi, þá er ég vanur að segja örfá orð. Ég vil taka undir það, sem hv. 5. þm. Vesturl., Jónas Árnason, sagði, að ég vil bjóða þá göfugu gesti, sem hér eru á þingpöllum, velkomna. Ég veit, að erindi þeirra eru ekki hin sömu. Það eru konur úr Árnessýslu hér mættar á þingpöllum og konur úr Reykjavík, og erindi þeirra eru ekki hin sömu. Konurnar úr Reykjavik eru að mótmæla hækkun á landbúnaðarvörum og hafa heitið því að kaupa ekki mjólk og aðrar landbúnaðarvörur á næstunni vegna þessara hækkana. Ég held, að þetta fyrirheit sé mjög háskalegt fyrir þær og þá, sem þær bera mest fyrir brjósti. Frá því að fyrsta húsmóðirin settist að á Íslandi, hefur það verið í verkahring húsmæðra að matbúa og deila fæðunni milli heimilisfólksins. Mörg húsmóðir hefur verið gædd hreinni snilli á þessu sviði, eins og við þekkjum allir, bæði að því er varðar hæfni og um það að varðveita hollustuhætti og hagsýni í sambandi við fæðugerðina.

Mjólk og mjólkurmatur hefur frá upphafi verið meginuppistaða í fæðu íslenzku þjóðarinnar. Íslenzka skyrið er frægt fyrir hollustu, einnig smjörið og ostarnir og sýran til drykkjar, sem bjargaði áreiðanlega mörgum sjómanninum og hélt þreki hans undir árinni, meðan eitthvað var til á sýrukútnum, að ógleymdri nýmjólkinni, sem við öll notum og alltaf er og verður heilsudrykkur og undirstaða heilbrigði þessarar þjóðar. Þessu mega húsmæðurnar sízt af öllu gleyma.

Ég verð að segja, að mér kemur það þess vegna undarlega fyrir sjónir, að húsmæður skuli breyta þannig og beita sér fyrir takmörkun á notkun þessarar fæðu, þó að hún hafi nokkuð hækkað í verði, en þó minna en flestar aðrar fæðutegundir, eins og ég skal koma að síðar. Slíkar aðfarir eru ekki aðeins aðför að heilsu neytenda, heldur einnig fjarstæða frá hagrænu sjónarmiði að minni hyggju. Það er ekki nema eðlilegt, að vaxandi verðbólga á hverjum tíma sé fólki þyrnir í augum. Ég furða mig ekkert á því, þó að andúð á henni komi fram í ýmsum myndum. En það er einkennilegt, þegar sú andúð snýst eingöngu gegn vissum hluta af þeim vörum, sem fólkið þarf að kaupa, og sérstaklega þegar það er hin innlenda vara. Þegar slíkt beinist að neyzlustöðvun á þeim vörum, sem minnst hafa hækkað í verði, þá held ég endilega, að eitthvað annað hljóti að liggja á bak við en það, sem fyrst og fremst er haft á orði.

Mig langar til þess, áður en ég fer úr þessum ræðustól, að minna á, hvernig hækkanir á íslenzkum vörutegundum hafa orðið nú að undanförnu, og vil gjarnan, að það liggi fyrir í Alþingistíðindum.

Þá byrjar það þannig, að í nóv. 1970 voru sett lög um verðstöðvun, og liggur fyrir skýrsla, sem ég hef hér í höndum og hefur verið birt í hlöðum og er gerð í sambandi við upplýsingar frá Hagstofu Íslands og skrifstofu verðlagsstjóra, tekin saman af upplýsingaþjónustu landbúnaðarins samkv. upplýsingum frá þessum aðilum. Það er miðað við 1 kg, þar sem um kg er að ræða, nema annars sé getið, og verð á vörum í nóv. 1970, verð í febr. 1973 og verð nú 20. marz 1973. Þá er fyrst nýmjólk. Heil hyrna var í nóv. 1970 á 15.30 kr., er nú seld á 19.50 kr, þar er um 27% verðhækkun að ræða. Mjólkurostur 45% 5 237 kr. 1970, nú á 238 kr., hækkunin er þar af leiðandi aðeins 1 kr. Smjörið, 1. fl., var 199 kr. 1970, er nú 250 kr., þar er um 26% hækkun að ræða. Súpukjöt, 1. verðflokkur, var 1970 150.20 kr., er nú 190.40 kr., þar er um 27% hækkun að ræða. Kótelettur voru á 176.80 kr. í nóv. 1970, en eru nú 226 kr., þar er um 28% hækkun að ræða. Kindabjúgu 144 kr. 1970, nú 177 kr., þar er um 23% hækkun að ræða. Rúgbrauð, 1 1/2 kg, voru 26 kr., eru nú 32 kr., þar er um 23% hækkun. Franskbrauð, 500 g, 18.50 1970, nú 25 kr., það er 25% hækkun. Hveiti var 26 kr. pakkinn, er nú 36.50 kr., það er 40% hækkun. Ýsa, slægð og hausuð, 21 kr., er nú 52 kr., það er 68% hækkun. Þorskflök roðlaus, ný, 53.50 kr. 1970, nú 77 kr. eða 44% hækkun. Saltfiskur 55 kr. 1970, nú 80 kr., það er 45% hækkun. Fiskibollur, hálf dós, 35 kr., nú 53 kr. eða 51 % hækkun. Epli 67.05 kr., nú 85.75 eða 28% hækkun. Kartöflur í 5 kg pokum 23.10 kr. 1970, nú 17.50 kr., þær hafa lækkað um 24%. Strásykur 20.35 kr., er nú 43.75 eða 115% hækkun. Kakó 205.30 kr., nú 279.20 kr., 36% hækkun. Kaffi, brennt og malað, 190 kr. 1970, nú 296, það er 66% hækkun. Maltöl, 33 cl flaska, á 11.50 kr., nú á 16 kr., 39% hækkun.

Hér sjá allir, sem bera þessar tölur saman, hversu gífurlegur hækkanamunur er hér á ýmsum vörum. hvað þær hafa hækkað meira en mjólkin. Á sama tíma og þetta hefur gerzt hefur verðlagsgrundvöllur landbúnaðarafurða hækkað um 52% frá haustinu 1970, en tímakaup verkamanna um 60% og laun opinberra starfsmanna í kringum 80%. Ég held, að þessar tölur sýni það fullkomlega, að það er algerlega á misskilningi byggt að gera þá aðför nú að landbúnaðarvörum, sem hv. húsmæður hér á höfuðborgarsvæðinu virðast ætla sér að gera með því að hætta að kaupa þessar vörur. Þær gera sjálfum sér mestan skaðann með slíku, og ég vara þær við því, því að af því getur leitt heilsutjón. Ég vil benda þeim á nýlega birta tímaritsgrein, þýdda úr sænsku tímariti, þar sem frægur sænskur prófessor lýsir því yfir, að það sé miklu skynsamlegra að leggja tannburstann til hliðar en að hætta að drekka mjólkina, því að mjólkin er sá auðveldasti kalkgjafi fyrir bein og tennur, miklu auðveldari en allir aðrir kalkgjafar. Þessi ritgerð er birt í barnablaðinu Æskunni, og var það vel til fundið, og ég vil benda reykvískum húsmæðrum á það að lesa þessa grein.

Herra forseti. Ég hef kannske verið heldur langorður, en ég mátti til að koma þessum röksemdum að, sem ég hef hér flutt, úr því að tækifæri gafst til og þessar ágætu húsmæður eru hér viðstaddar til að heyra á mál mitt.