26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2760 í B-deild Alþingistíðinda. (2120)

Umræður utan dagskrár

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég bjóst ekki við slíkum umr. eins og hér hafa farið fram, fram að þessu. En ég kann ekki við það sem 1. þm. Reykv. að sitja þegjandi undir því, að mjög ósmekklega sé vegið að húsmæðrum hér í Reykjavík. Ég harma það mjög, að hinn ágæti bóndi Ágúst Þorvaldsson skyldi láta hafa sig í að taka hér til máls með þann lestur, sem hann var með. Ég veit, að þessi hv. þm. gerir það í góðri meiningu. Hann les upp ýmsar hækkanir, sem orðið hafa fyrr og síðar, og vill nota það sem rök fyrir því, að aðrar vörur en landbúnaðarvörur hafi hækkað. En hér fer þm. inn á þá leið að flytja hér efnisræðu í þinginu gegn húsmæðrum, þegar hann veit, að þær geta ekki svarað fyrir sig. Sveitakonurnar eru líka húsmæður, og mig langar til þess að ávarpa þær. Þær hefðu gjarnan mátt láta fyrr fleiri þm. en kommúnistann Jónas Árnason vita það, að þær væru hér á þingpöllum. En hitt vil ég segja sveitahúsmæðrunum, að hvorki við sjálfstæðismenn né húsmæður í Reykjavík erum að beina geiri okkar gegn þeim. Það er ekki verið að deila á húsmæðurnar í sveitunum eða bændur, heldur núv. ríkisstj. Það er hún, sem ber ábyrgðina á þeirri verðbólguskriðu, sem nú hefur dunið yfir þjóðina. Hvers vegna lækkaði ríkisstj. niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum rétt áður en reiknuð var út vísitala framfærslukostnaðar 1. febr.? Hvers vegna? Þá stuðlaði ríkisstj. að því, að landbúnaðarvörurnar væru lægri vegna aukinna niðurgreiðslna 1. febr. Það er þessi framfærsluvísitala, sem er grundvöllur undir kaupgreiðsluvísitölunni 1. marz. En hvað gerðist þá? Þá hætti ríkisstj. niðurgreiðslunum. Og það er hennar sök, sú mikla hækkun, sem orðið hefur á íslenzkum landbúnaðarvörum. Það getur vel verið að íslenzka ríkisstj. sé búinn að spila þannig rassinn úr buxunum, að hún hafi ekki haft peninga til að greiða niður landbúnaðarvörurnar áfram. En þá var það hennar sök líka, en ekki bændanna og ekki búkvennanna austan úr sýslu. Ég held, að þær séu algerlega í sama bát, bændakonur að austan og reykvískar húsmæður og raunar þjóðin öll, að við viljum, að landbúnaðarvörur séu með sem hagstæðustu og lægstu verði. Og það er mesta hagsmunamál, bændanna einnig. En bændur eiga að fá í sinn hlut engu að síður það sama og aðrar stéttir í þessu þjóðfélagi.

Sjálfstfl. hefur alla sína tíð lagt á það megináherzlu að reyna að auka skilning fólksins til sjávar og sveita, milli hinna mismunandi stétta þjóðfélagsins. Kjörorð hans hefur verið stétt með stétt — og hann mun fylgja því fram. Því kjörorði mun hann berjast fyrir, og íslenzkar húsmæður eiga allra sízt skilið, að það sé verið að atyrða þær hér í sölum Alþingis, eins og gert hefur verið mjög ósmekklega.