26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2772 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

Umræður utan dagskrár

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að hafa mál mitt mjög stutt, en mér fannst umburðarlyndi hæstv. forseta vera orðið mjög mikið, meðan hæstv. viðskrh. var hér að flytja eldhúsdagsræðu í langlokustíl. Og það er þessi ræða, sem ég ætla að gera stutta aths. við.

Hæstv. viðskrh. var að tala um verðbólguna og sagði, að hún væri minni tvö síðustu árin en hún hefði áður verið. Hvað er við þetta að athuga? Þetta m. a., að árið 1971 hafði hæstv. viðskrh og núv. ríkisstj, engin áhrif á hækkun verðbólgunnar nema lítið eitt til hækkunar. En hvað hækkaði framfærsluvísitalan þetta ár, fyrir tilverknað viðreisnarstjórnarinnar? Hún hækkaði um 2%, framfærsluvísitalan þetta ár. Hún hefði ekki hækkað nema um 1%, hefði hæstv. ríkisstj. ekki kippt bæði áfengi og tóbaki inn í útreikning kaupgreiðsluvísitölunnar, sem reiknuð var svo á grundvelli þessarar litlu vísitöluhækkunar. Hún hækkaði um 2%. En hvað hækkaði framfærsluvísitalan fyrstu 6 mánuðina, sem núv. hæstv. ríkisstj. hafði áhrif á hækkun hennar, þ, e. a. s. fyrri helming ársins 1972? 9.4% á 6 mánuðum, hálfu ári.

Það hefur fyrr og síðar verið farið með fullkomnar blekkingar í þessu sambandi. En fyrst og fremst hefur núv. hæstv. ríkisstj. og hæstv. viðskrh. verið að eigna sér þann ávöxt, sem verðstöðvun fyrrv. ríkisstj. bar í þá átt, að framfærsluvísitalan hækkaði ekki á árinu á 1971 nema um 2% frá fyrra ári.

Þá sagði hæstv. viðskrh., að innfluttar vörur hefðu hækkað í verði, og það er rétt, því miður. En auðvitað hækka þær m. a. vegna gengisfellingarinnar. Sjálfur sagði þessi hæstv. ráðh. athyglisverð orð í febr., að ef menn hefðu vitað um hækkun á verði útflutningsvörunnar, þegar menn felldu gengið í des., þá hefði gengið ekki verið fellt þá. Þetta sagði hann á kaupmannafundinum. Hann ætlaði sér ekki að standa við þetta, en gætti þess ekki, að ræða hans hafði verið tekin upp á segulband. Og þegar við erum að tala um hækkun á aðfluttri vöru, þá er rétt, að hæstv. viðskrh. upplýsi líka, hver hækkunin hafi verið á útfluttri vöru. (Sjútvrh.: Það skal ég gera með mikilli ánægju.) Hann sagði mér hér um daginn, að verð á afurðum loðnunnar hefði hækkað um 200–300%, ef ég man rétt. Og það kemur auðvitað á móti þessu, og er rétt, að menn geri sér grein fyrir því.

Varðandi það, sem hann vildi láta, að það stæði ekki á borgarstjórninni í Reykjavík að biðja um hækkun á töxtum fyrir greiðslu fyrir heimilishjálp og dagheimilagjöldum, þá eru bæði heimilishjálpin og dagheimilagjöldin greidd stórkostlega niður af borgarsjóði. Það er ekki nema lítill hluti, sem neytandinn þarf að greiða af því, sem þetta kostar, og í mörgum tilfellum er það algerlega fellt niður. En að svo miklu leyti, sem hefur verið beðið um einhverja hækkun, þá er það vegna tilkostnaðarhækkunar, sem stafar af völdum hæstv. ríkisstj. Það er vegna Hrunadans kostnaðarverðbólgunnar, sem fyrirsvarsmenn KEA lýstu yfir, að núv. ríkisstj. bæri ábyrgð á.

Það er ákaflega mikill misskilningur að reyna að drepa þessu máli, sem hér hefur verið um rætt, á dreif með því að segja, að bændur þurfi að fá sína hækkun eins og aðrir. Það hefur enginn talið eftir þá hækkun, sem bændur hafa fengið á kaupi sínu til viðmiðunar við kauphækkanir hjá öðrum stéttum. Það hafa allir talið sjálfsagt að standa við samninga að þessu leyti og algerlega út í hött að gefa í skyn, að hér sé um eitthvað slíkt að ræða og menn eigi ekki að sakast um það. Það getur vel verið, að þeir álíti, hæstv. fyrirsvarsmenn ríkisstj., sem hér hafa talað, að það sé tilgangslaust að kenna ríkisstj. um það, hvernig nú horfir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þeir mega vera sælir í sinni trú. En ég er hræddur um, að það séu margir og miklu fleiri en við, sem tölum hér fyrir hönd stjórnarandstöðunnar, sem kenna ríkisstj. um óstjórnina í þessum efnum og hvernig hallar undan fæti dag frá degi.

Ég vil svo segja út af ræðu hv. síðasta ræðumanns, Svövu Jakobsdóttur, að ég kannast ekki við, að ég hafi á nokkurn hátt atyrt, eins og hún sagði, hv. þm. Ágúst Þorvaldsson í ræðu minni. (Gripið fram í.) Ég var ekki að yrða á Ágúst Þorvaldsson þá, þá átti ég við Jónas Árnason, og það ætti hv. þm. af sinni greind að geta skilið.