31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

266. mál, dómsmál

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Lögmenn í Reykjavík, sem kunnugir eru meðferð sakamála fyrir Sakadómi Reykjavíkur, telja margir hverjir a.m.k., að óeðlilega mörg þeirra mála, sem borizt hafa Sakadómi Reykjavíkur, hafi ekki hlotið þar endanlega afgreiðslu af einhverjum ástæðum. Mér hefur jafnvel verið sagt, að það hafi gerzt, að kæra hafi fyrnzt, beinlínis fyrnzt, vegna þess að hún hafi ekki verið tekin til endanlegrar meðferðar fyrir sakadómi. Ef þetta er rétt, þá er það mjög alvarlegur hlutur. Ef það er rétt, að kærur séu ekki teknar fyrir hjá sakadómara eða við sakadómaraembættið árum saman og það hafi meira að segja dregizt svo lengi, að kæruefni hafi fyrnzt, þá er þar um mjög slælega embættisfærslu að ræða. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrjast fyrir um það, hversu margar kærur hafa borizt Sakadómi Reykjavíkur s.l. 5 ár, hversu margar þeirra hafi hlotið endanlega afgreiðslu og hvort það hafi gerzt, að kæra hafi fyrnzt, vegna þess að hún hafi ekki verið tekin til meðferðar.

Varðandi þessa fsp, og hina fyrri, sem hæstv. dómsmrh. svaraði, vil ég taka fram, að það getur ekki verið vettvangur þessa umræðusviðs að deila um fortíðina í þessum málum, og læt ég í ljós mikla undrun mína yfir því, að hæstv. ráðh., flokksbróðir hæstv. forseta, sem leggur sérstaka áherzlu á, að umr. séu hér stuttar og málefnalegar og fjalli um fsp. eingöngu og svar við henni, að hann skuli blanda atriðum sem þessum inn í umr. Ég er ekkert feiminn að ræða við hæstv. dómsmrh. síðar á öðrum vettvangi og réttum vettvangi um það, hver ber ábyrgð í þessum efnum og hver ekki, — ekki hið allra minnsta. En frýjunarorðum um það, að gera það ekki hér, tek ég ekki alveg þegjandi. (Forseti: Það er bara spurning um tíma.) Ég ber þessa fsp., hina fyrri og aftur þessa fram vegna áhuga á því að fá upplýsingar um málið, sem geti orðið til stuðnings við frambúðarlausn þess. Ég skal heita hæstv. forsrh. því, að beri hann fram skynsamlegt frv. um fangelsismál, þá á það vísan stuðning minn og míns flokks. Það á vísan stuðning míns flokks, ef það er skynsamlegt og horfir til umbóta í þessum málum, eins og ég raunar efast ekki um, að komi til með að eiga sér stað. Komi hann málinu ekki fram, sem ég þó vona að hann geri, þá mun það áreiðanlega ekki stranda á þm. Alþfl.