26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2783 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

200. mál, róðrartími fiskibáta

Flm. (Karl G. Sigurbergsson) :

Herra forseti. Áður en ég vík beint að frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 384, frv. til l. um róðrartíma fiskibáta, sem ég hef leyft mér að flytja í hv. d., og skýri nánar en gert er í grg., í hverju það er frábrugðið gildandi lögum um sama efni, þykir mé.r rétt að fara nokkrum orðum um ástæður þess, að ég flyt frv. hér og nú.

Eins og vikið er að í grg. með frv., er það flutt að beiðni skipstjórnarmanna á Suðurnesjum. Seint af vetrarvertíð á s. l. ári fékk ég sem formaður skipstjóra- og stýrimannafélagsins Vísis á Suðurnesjum bréf undirritað af öllum línubátaskipstjórum í Sandgerði og Keflavík, þar sem þeir fóru fram á, að ég beitti mér fyrir því við sjútvrh., að hann breytti gildandi reglugerð um róðrartíma fiskibáta við Faxaflóa til samræmis við reglugerð um róðrartíma fiskibáta í Grindavík. Í nefndu bréfi skýrðu skipstjórarnir frá því, að óviðunandi væri fyrir þá að hlíta settum reglum um róðrartíma, vegna þess að útilokað væri á þeirra hálfu að róa á ákveðið línusvæði, sem af markað hefur verið undanfarin ár með reglugerð um skiptingu veiðisvæða milli einstakra veiðarfæra. Ég kom þessari beiðni til hæstv. sjútvrh., og tjáði hann sig fúsan að verða við þessari ósk, en því aðeins að allir, sem hlut ættu að máli, kæmu sér saman um þá breytingu, sem beðið væri um, að hann fyrirskipaði í nýrri reglugerð. Í framhaldi af þessari undirtekt fól hann starfsmanni Fiskifélags Íslands, Guðmundi Ingimarssyni, að kanna vilja manna í þessu efni. En þar sem þeir menn, sem hér áttu hlut að máli, stóðu allir í róðrum á háannatíma vetrarvertíðar, var ekki hægt með góðu móti að koma þessari könnun í kring. Því talaðist svo til milli okkar Guðmundar Ingimarssonar, að bezt væri að fresta málinu til næstu vertíðar, og tilkynnti ég skipstjórnarmönnum suður frá þessa skipan mála, sem þeir féllust á, að raunhæfust væri, úr því sem komið var og langt liðið á vertíð.

En svo varð framhaldið á þessu þannig, að s. l. haust skipaði stjórn Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Vísis 3 menn í n., einn úr hverri veiðistöð á Suðurnesjum, þ. e. Grindavík, Sandgerði og Keflavík, til þess að koma með till. í málinu, og var þeim falið að reyna að ná samkomulagi um viðhlítandi lausn, sem allir aðilar gætu sætt sig við. En nm. komu sér ekki saman um einhlítt samkomulag í alla staði um breytingarnar. Allir voru þeir þó á einu máli um það, að breyta þyrfti reglugerðunum um róðrartímana og helzt á þann veg, að þær yrðu báðar felldar saman í eina reglugerð. Enn fremur voru þeir sammála um, að hækka þyrfti sektarákvæði frá því, sem verið hefði í gildandi reglugerðum, og sérstaklega samræma þau sektarákvæði í reglugerðunum. En eins og nú er háttað um reglugerðir þær, sem í gildi eru, þá segja þær til um, að samkv. reglugerð um róðrartíma fiskibáta við Faxaflóa geti sektarákvæði verið allt frá 500 til 5000 kr. og þriðja brot varði réttindamissi skipstjórnarmanns. En í reglugerðinni um róðrartíma Grindavíkurbáta hins vegar er einungis ákvæði um 100 kr. til 2000 kr. og engin önnur frekari sektarákvæði. Þetta finnst þeim óviðunandi að því leyti, að þeir, sem á annað borð ætla sér að brjóta settan róðrartíma, sæta lagi og róa þeim mun frekar úr Grindavíkurhöfn, því að þá er alltaf viðkvæðið, að það kosti ekkert að brjóta reglur um róðrartímann þar. Nm. voru einnig sammála um, að hafa skyldi óbreyttan róðrartíma fiskibátanna við Faxaflóa, en breyta einungis róðrartímanum frá Grindavík til samræmis við hina reglugerðina. En um það, hve mikil breyting þessi skyldi verða, náðist ekki samkomulag í n. Þess vegna lögðu nm. til, að skorið yrði úr þessu atriði á almennum fundi í félaginu. En þannig háttar, eins og mörgum er kunnugt, að erfitt getur reynzt að finna hentugan fundartíma, þegar flestir starfandi skipstjórnarmenn telja sig geta mætt vegna annríkis við sjósókn og önnur skyldustörf. Þess vegna ákvað félagsstjórnin að láta málið bíða til aðalfundar og afgreiða það þá að undangenginni rækilegri auglýsingu og að málið yrði tekið á dagskrá fundarins, og svo var gert. Á þeim fundi, sem haldinn var snemma í jan., kom fram, að allir samþykktu þá þætti málsins, sem nm, höfðu komið sér saman um, en hins vegar komu fram tvær till. um róðrartíma fiskibáta frá Grindavík, Þeir, sem róa úr verstöðvunum fyrir norðan Reykjanes, lögðu fram sérstaka till., sem náði ekki samþykki meiri hl. fundarmanna, en Grindvíkingar komu með aðra till., sem samþ. var með öllum þorra atkv. Veit ég ekki betur en að aðilar hafi sætt sig við þessa málsmeðferð og séu samþykkir því, að henni verði hlýtt, ef framkvæmd verður.

Á grundvelli þessarar till., sem samþ. var á nefndum aðalfundi, og á því samkomulagi, sem um önnur efnisatriði varð, var mér falið sem félagsformanni, að semja drög að reglugerð um róðrartíma fiskibáta við Faxaflóa og í Grindavík, sem ég gerði, og bar ég þau drög undir álit áðurnefndra nm. félagsins, áður en ég afhenti þau í sjútvrn. til fyrirgreiðslu. Reglugerðin liggur nú í hv. rn. tilbúin til birtingar hlutaðeigandi aðilum, ef frv. það til l. um róðrartíma fiskibáta, sem ég flyt hér á þskj. 384, verður samþ.

Ég skal nú aðeins víkja nokkrum orðum að frv. sjálfu og skýra nánar en gert er í grg., hvaða atriðum er breytt frá gildandi lögum. Í 1. nr. 1 frá 12. jan. 1945, um róðrartíma fiskibáta, er 1. gr. þannig, með leyfi forseta:

Ríkisstj. er heimilt að ákveða með reglugerð brottfarartíma allra þeirra báta til fiskiróðra, sem sækja til fiskjar frá veiðistöðvum við Faxaflóa, svo og setja ákvæði um eftirlitsskip í flóanum og samband bátanna við þau, eftir því sem þurfa þykir.“

En ég hef lagt til í frv., að gr. verði eins orðuð að öðru leyti en því, að niður falli orðin „frá veiðistöðvum við Faxaflóa“ og eins orðin „í flóanum“. Hins vegar er efnisbreyting, eins og segir í grg., þar sem lagt er til, að ríkisstj. fái heimild til að ákveða með reglugerð róðrartíma fiskibáta hvar sem er, eftir því sem ástæður þykja til á hverjum tíma. En samkv. núgildandi l. er heimildin bundin við Faxaflóa einan.

Í 2. gr. frv. er breyting, sem varðar fjölda þeirra eftirlitsmanna, sem til eru kvaddir af viðkomandi hrepps- eða bæjarstjórnum, og er sú breyting í samræmi við óskir starfandi manna þar að lútandi, að eftirlitsmenn geti verið allt að 5, þar sem svo þykir betur henta. en í núgildandi l. er aðeins tekið til, að þeir skuli vera 3.

Breytingin á 3. gr. varðar sektarákvæðin. En lagt er til í frv., sem hér liggur fyrir til umr., að sektarákvæðin verði hækkuð frá því, sem áður var, og er það eftir ákveðinni ósk skipstjórnarmanna í Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Vísi. Ætlast er til, að gefin verði út ein reglugerð og þar verði sett ákvæði um 5 þús. til 50 þús. kr. sekt.

Þetta eru þær helztu og einu breytingar, sem í frv. felast.

Ég vil geta þess hér, að aðalhvatinn til þess, að farið er út í að fá lögunum breytt og reglugerðum um róðrartímann, sem menn voru aðallega óánægðir með, er einkanlega sá, eins og ég sagði áðan, að Grindavíkurbátar hafa séraðstöðu til þess að sækja á þau mið, sem eingöngu eru ætluð fyrir línubátasvæði með reglugerð þar að lútandi.

Herra forseti. Ég hef verið nokkuð margorður um ástæðuna fyrir því, að ég flyt hér í hv. d. frv. til l. um róðratíma fiskibáta, eins og sjá má á þskj. 384. En ég hef reynt að skýra frá þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð voru af skipstjórnarmanna hálfu við það að ná samkomulagi um drög að nýrri reglugerð um róðratímann. Ég tel þau vinnubrögð í fyllsta máta eðlileg. Þetta hef ég gert til upplýsinga fyrir þá n., sem fær frv. til umsagnar. Segja má, að við hefðum getað valið aðra leið, þ. e. að leita til sýslunefndar Gullbringusýslu, eins og segir í lögum þeim, sem Grindavíkurreglugerðin er gefin út eftir. En okkur finnst þetta heldur þungt í vöfum og viljum létta á kerfinu og kippa þarna út einum aðilanum, því að undirbúningsvinnan hefði verið alveg sú sama af okkar hálfu, þó að við hefðum þurft að biðja sýslunefnd Gullbringusýslu að fara þess á leit við rn., að reglugerðunum yrði breytt.

Að lokum vil ég geta þess, að umsagna hefur verið leitað af hálfu rn. um reglugerðina, sem þar er tilbúin. Rn. fól Fiskifélagi Íslands að kanna vilja þeirra félagasamtaka við innanverðan Faxaflóa, sem hlut eiga að máli. Hefur rn. borizt bréf um það efni, sem ég hef hér ljósrit af, og með leyfi forseta langar mig að lesa það hér upp. Það er til sjútvrn., Lindargötu 9, frá Fiskifélagi Íslands og hljóðar svo:

„Með tilvísun til símtals við herra skrifstofustjóra Þórð Ásgeirsson hefur Fiskifélagið athugað uppkast að reglugerð um róðratíma fiskibáta við Faxaflóa og í Grindavík. Rætt hefur verið við forsvarsmenn eftirtalinna félagssamtaka: Útvegsmannafélags Reykjavíkur, Útvegsmannafélags Hafnarfjarðar, Útvegsmannafélags Akraness, Skipstjóra og stýrimannafélagsins Öldunnar, Reykjavík, Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Hafþórs, Akranesi, Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Kára, Hafnarfirði. Og eftir ítarlegar umr. um uppkastið hafa allir aðilar, er hlut eiga að máli, mælt með birtingu reglugerðarinnar. Fiskifélagið mælir því eindregið með, að áðurnefnd reglugerð verði staðfest og auglýst eins fljótt og tök eru á.“

Undir þetta ritar fyrir hönd Fiskifélagsins Guðmundur Ingimarsson.

Ég tel óþarft að hafa hér fleiri orð um að sinni, en vænti þess aðeins, að frv. fái eðlilega og þinglega meðferð og n., sem um það fjallar, skili áliti eins fljótt og hún hefur tök á, því að eins og menn vita, líður óðum á vetrarvertíðina og starfandi menn þar suður frá bíða eftir þessari skipan mála.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, fara fram á, að frv. verði vísað til sjútvn.