26.03.1973
Neðri deild: 70. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2789 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

79. mál, hafnalög

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður, enda hefur hv. frsm. fjh.- og viðskn. skýrt þær brtt., og þá vinnumeðferð, sem þetta frv. hefur fengið í n., og það jafnframt, að n. er sammála um þessar brtt. En því til viðbótar vil ég segja nokkur orð og bera fram fsp. til hæstv. samgrh. eða hæstv. fjmrh., ef þeir væru annar hvor eða báðir í húsinu. — Ég sé, að hæstv. fjmrh. er hér, og fyrst samgrh. er fjarverandi, hef ég síður en svo á móti því að spyrja hæstv. fjmrh. um þetta atriði.

Eins og fram kemur í ákvæði til bráðabirgða í frv., þá segir: „Gera skal sérstakar ráðstafanir til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða af löngum lánum, sem verst eru settir, og skal þá miða við lánin eins og þau eru, er lög þessi taka gildi. — Við fjárlagagerð fyrir árið 1973 skal samgrn. gera Alþ. sérstaka grein fyrir fjárþörf í þessu efni. Ráðh. skal gera till. til fjvn. og Alþ. um skiptingu fjárins, og skal við skiptinguna hafa hliðsjón af tekjum og gjöldum hafnarsjóðs, framlagi sveitarfélags til hafnarsjóðs, fólksfjölda og öðrum þeim atriðum, sem hafa áhrif á greiðslugetu hafnarsjóðsins.“

Nú var það ætlunin, þegar þetta frv. var lagt fram á þingi snemma á s. l. hausti, að það yrði orðið að lögum, áður en afgreiðsla fjárl. færi fram. Hæstv. samgrh. lýsti því yfir, að það væri ákveðinn vilji sinn, að frv. væri orðið að l., áður en fjárl. yrðu afgreidd. Nú varð sú breyting, að ríkisstj. ákvað, að þetta frv. yrði ekki lögfest fyrr en síðar á þessu þingi, en vegna þessarar breytingar var tekin upp í heimildagr. fjárl. heimild fyrir ríkisstj. til „að taka lán að upphæð allt að 40 millj. kr. til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða, sem verst eru settir vegna langra lána. Ráðh. skal gera till. til fjvn. um skiptingu fjárins og skal við skiptinguna hafa hliðsjón af tekjum og gjöldum hafnarsjóðs, framlagi sveitarfélags til hafnarsjóðs, fólksfjölda og öðrum þeim atriðum, sem hafa áhrif á greiðslugetu hafnarsjóðsins.“ Með því að taka þessa heimild inn á fjárl. hafði ríkisstj. og hæstv. fjmrh. í raun og veru lýst því yfir og komið til móts við þær óskir, sem felast í þessu frv., að þetta ákvæði til bráðabirgða kæmi til framkvæmda á þennan hátt þegar á þessu ári, þó að þetta frv., sem við erum hér að ræða um, komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1974.

Nú vitum við það allir, að fjárhagsstaða hinna ýmsu hafnarsjóða er með eindæmum bágborin og víða er svo háttað, að ekki er hægt að standa við skuldbindingar hafnarsjóðanna. Sum sveitarfélög hafa orðið að leggja á í útsvörum, jafnvel liðlega fjórða hluta af útsvörum, til þess að standa undir afborgunum og vöxtum af hafnarlánum. Þess vegna er mér mjög í mun að spyrja, hvort hæstv. ríkisstj. hafi ekki ákveðið að nota þessa heimild og taka lán að upphæð 40 millj. kr. í þessu skyni, eins og gefið var fyrirheit um og staðfest með þessari heimildagr. Ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. svari þessari fsp. og jafnframt, ef svo er, hvort og hvenær megi búast við því, að till. liggi fyrir um skiptingu á þessu fé, því að hafnarsjóðum og sveitarfélögum er brýn nauðsyn að vita, hvers má vænta í þessum efnum.

Enn fremur hef ég löngun til að spyrjast fyrir um, hvort það sé ætlun ríkisstj. að nota aðra heimild í fjárl. til þess að ábyrgjast lán vegna hafnabótasjóðs, að upphæð allt að 34 millj. kr., vegna endurgreiðslu af eldri lánum sjóðsins, og hvort þessi lán hafi verið tekin.

Ég ætla svo ekki að gera þessi mál frekar að umræðuefni, en vil lýsa yfir, að ég er eftir atvikum ánægður með þetta frv. til nýrra hafnalaga. Ég tel, að með því að lögfesta þetta frv. sé mjög komið til móts við sveitarfélögin og sérstaklega þau sveitarfélög, sem verst eru sett, bæði hvað fámenni snertir og hafa orðið að fara í dýrar hafnarframkvæmdir, því að það sást fljótlega eftir setningu þeirra hafnalaga, sem nú eru í gildi, að ekki var gengið nógu langt í þeim efnum. En þetta frv. bætir hér verulega úr. Það gerir hér miklu hreinni og gleggri skil á framlögum ríkissjóðs til hinna einstöku hafnargerða, og sömuleiðis er aukin þátttaka ríkissjóðs í hafnarframkvæmdum. Það, sem veltur þó mestu á, er það ákvæði til bráðabirgða, sem er í þessu frv., að rétta hag minnstu sveitarfélaganna, sem eiga við mesta erfiðleika að etja að standa undir afborgunum lána og vöxtum vegna hafnargerða.