31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

266. mál, dómsmál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég er heldur ekkert feiminn að ræða þessi mál eið hv. fyrirspyrjanda, hvenær sem er. Ég svaraði fsp. algerlega vafninga- og málalengingalaust. en það var hv. fyrirspyrjandi, sem gaf mér tilefni til þess í sinni seinni ræðu að bæta nokkrum orðum við.

Þessi fsp. hljóðar svo: „1. Hversu margar kærur hafa borizt Sakadómi Reykjavíkur s.l. 5 ár? 2. Hversu margar þeirra hafa hlotið endanlega afgreiðslu? Hefur það gerzt, að kæra hafi fyrnzt, vegna þess að hún hafi ekki verið tekin til meðferðar?“

Yfirsakadómari hefur svarað ofangreindum fsp. þannig:

„A. Árin 1967–1971, að báðum meðtöldum, fékk Sakadómur Reykjavíkur til meðferðar eftirtaldar kærur, þ.e. málshöfðanir saksóknara ríkisins, og eru málalok þeirra, sem hér segir: Ár 1967: 564 ákærur, lokið 564, ekkert ódæmt. 1968: 584 ákærur, lokið 583, eitt mál ódæmt. 1969: 489, dæmd eða lokið 485, 4 ódæmd. 1970: 446 ákærur, 430 lokið, 16 mál ódæmd. 1971: ákærur 503, lokið 465, 38 mál ódæmd. Um flest elztu málin, sem ólokið er, er það að segja, að dómur hefur ekki verið kveðinn upp sakir þess, að ákærður hefur flutzt til útlanda og lagaskilyrði eru eigi til þess að dæma málið að honum fjarstöddum. Fáein mál hafa fyrnzt af þessum sökum.

B. Á hverju ári berst sakadóminum og rannsóknarlögreglunni urmull af skýrslum og tilkynningum um hin margvíslegustu atvik í þjóðfélaginu, þ. á m. um alls konar slys og ófarir. Er oft óljóst, hvort kalla má erindi þessi kæru eða ekki. Skýrslur þessar leiða oft til þess, að sakadómurinn lýkur máli með sekt samkv. dómssátt, ýmist að eigin frumkvæði eða að kröfu saksóknara ríkisins. Árið 1971 voru í sakadóminum sektir og áminnigar samkv. dómssátt, sem hér segir: Sektir fyrir brot gegn almennum hegningarlögum 223. Sektir og áminningar fyrir brot gegn öðrum lögum 1060. Oft voru mörg brot eins og sama manns afgreidd með einni sektarfjárhæð.“

Við þetta svar frá yfirsakadómara hef ég persónulega engu að bæta.