27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2793 í B-deild Alþingistíðinda. (2156)

299. mál, verðlagsgrundvöllur landbúnaðarvara

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég bjó mig undir það að svara fsp. hv. þm. Pálma Jónssonar á þskj. 335, en gerði ekki ráð fyrir því, að yrði farið út í almennar umr., enda hef ég skilið þingsköp svo, að fyrirspyrjendur ættu að halda sig við fsp., en ekki bæta þar um.

Svar mitt við fsp. er á þessa leið, og er það gefið af formanni Stéttarsambands bænda, sem skýrir þetta mál bezt:

Með brbl. frá 11. júlí 1972 var ákveðið, að gerð nýs verðlagsgrundvallar, sem fram átti að fara fyrir 1. sept. 1972, skyldi frestað til 1. jan. 1973 og sá grundvöllur, sem þá yrði gerður, skyldi gilda til 1. sept. 1973, en ekki til 1. sept. 1974, eins og framleiðsluráðslögin gera ráð fyrir um tveggja ára gildistíma. Hins vegar var leyfð hækkun á búvöruverði 1. sept. 1972 til samræmis við áorðnar breytingar á launum hjá öðrum stéttum og vegna hækkunar á rekstrarvörum, og nam sú hækkun 4.81% á verðinu til bænda. Auk þess hækkaði slátur- og heildsölukostnaður kjöts af sömu ástæðum verulega frá því, sem var haustið 1971.

6 manna n. fór að vinna að gerð nýs verðlagsgrundvallar í des. s. l. Þá var mikil óvissa í efnahagsmálum þjóðarinnar almennt, og rétt fyrir jólin var ákveðin gengisbreyting, sem raskaði ýmsu í þjóðfélaginu, er að verðlagsmálum laut. Það varð því að ráði í 6 manna n. að fresta ráðagerðum um breytingar á matsgerðum í verðlagsgrundvelli til 1. marz 1973, en taka sérstaklega til athugunar áhrif gengisbreytinganna á verð rekstrarvara landbúnaðarins, eftir því sem hægt var að meta þær um áramótin. Hinn 15. jan. 1973 var grunvallarverð til bænda hækkað af þessum ástæðum um 2.36% og var sú hækkun greidd úr ríkissjóði til 1. marz.

Í jan. og febr. hefur 6 manna n. unnið að endurskoðun verðlagsgrundvallarins. Á þeim tíma hafa ýmsir þeir hlutir gerzt, sem hafa haft áhrif á störf n. og ákvarðanir hennar, m. a. náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum og gengisbreyting sú, sem leiddi af falli dollarans. Mikil breyting var einnig væntanleg á kaupi á almennum vinnumarkaði 1. marz n. k., launasamningum og breyttri kaupgjaldsvísitölu. Mikill tími af starfi n. fór í að meta áhrif þessa og fleira þeim tengt. Niðurstaðan af mati n. kom fram í ákvörðun hennar um 11.4% hækkun búvöruverðs til bænda 1. marz, og hefur þá grundvallarverð búvörunnar hækkað frá 1. sept. s. l. um 14%.

N. hefur talið rétt með tilliti til þessara miklu verðhækkana að breyta ekki magntölum í verðlagsgrundvelli fyrr en 1. sept. n. k. Ekki er hægt á þessu stigi að segja, hverjar þær magnbreytingar kunna að verða, en sér í lagi hefur verið rætt um leiðréttingar á því fjármagni, sem í vísitölubúinu er bundið, t. d. í jörð og útihúsum, m. a. vegna breytts fasteignamats, vélum og búfé, svo og rekstrarfé. Er þar átt við afskriftir húsa og véla og vexti af öllu fjármagni, sem búið þarf að nota. Fjármagnsþátturinn hefur vaxið á undanförnum árum, en litlar leiðréttingar gerðar á honum. Einnig hefur verið rætt um breytingar á magni kjarnfóðurs og áburðar í gjaldahlið grundvallarins, en aukið mjólkurmagn í tekjuhlið hans.

Þetta er svar mitt við fsp. hv. þm. og skýrir það, sem um er spurt, að það er ákvörðun n. sjálfrar, sem réð því, að verðlagsgrundvöllur er sá, sem nú gildir.