27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2794 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

299. mál, verðlagsgrundvöllur landbúnaðarvara

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir svörin, svo langt sem þau ná. Þau varpa ekki ýkja miklu ljósi á þau atriði, sem ég hef hér spurt um.

Það kom m. a. fram í hans máli, að mikil óvissa hafi ríkt í efnahagsmálum um síðustu áramót, þá hafi verið nýbúið að fella gengi krónunnar og fleiri atriði hafi gert þessa óvissu. Þess vegna hafi verið frestað að semja hinn nýja verðgrundvöll. Nú kynnu ýmsir að láta sér detta í hug, að 1. sept. á hausti komanda kunni enn að ríkja einhver óvissa í efnahagsmálum. Því þætti mér nú gott að fá um það yfirlýsingar frá hæstv. ráðh., hvort þá eigi enn að fresta gerð nýs grundvallar landbúnaðarvara, ef þannig kynni að fara.

Um fjármagnsliðina er rétt að undirstrika það, sem ég sagði hér áðan, að mjög miklar hækkanir hafa orðið, bæði á jörð, byggingum og vélum, á þessu tímabili, og er enn hægt að vitna til orða formanns Stéttarsambands bænda um þetta atriði, en hann segir m. a. í Tímanum 9. marz s. l., með leyfi forseta: „Verðlag á vélum og húsnæði, bæði fyrir fólk og fénað, hefur hækkað mjög mikið undanfarin ár, og það hafa engar breytingar verið gerðar á þessu síðan árið 1968, þótt fjármagnið, sem þarf til þessara hluta, hafi tvöfaldazt og í sumum tilfellum enn þá meira. Á þessu ári átti að gera breytingu, til þess að bændur fengju sitt rétta kaup út úr verðlagningunni, en þessu hefur öllu verið frestað:

Ég skal ekki vitna til orða formanns Stéttarsambandsins meira en um eitt atriði enn, en það er út af því, að ýmsir hafa látið þá skoðun í ljós, að með hinu batnandi árferði hafi hagur bænda batnað mjög, og ég vonast til, að hann hafi batnað verulega. En formaður Stéttarsambands bænda lýsir því yfir í þessu viðtali við Tímann hinn 9. marz s. l., að bændur hafi, þrátt fyrir að hagur þeirra hafi nokkuð batnað á þessu góðæristímabili, á tveim síðustu árum, ekki náð því að nálgast kjör viðmiðunarstéttanna þrátt fyrir þessa árgæzku. Þetta er eftirtektarvert og sannar það, að ef ekki hefði árgæzkan komið til, þá hefði hlutur bænda versnað stórlega á þessu tímabili.

Ég vil vekja athygli á því, að gífurlegar rekstrarvöruhækkanir eru nú í landbúnaði, og vil ég í framhaldi af því spyrja hæstv. ráðh., hvort hann geti um það sagt, hvað áburðarverð hækkar mikið á vori komanda.

En að lokum, ef svo er, að það hafi ekki verið talin ástæða til þess að breyta grundvelli landbúnaðarvara og taka inn þá liði, sem bændur að dómi forustumanna sinna áttu inni og áttu rétt á að fá leiðréttingar á, þá sýnist mér það sanna, að sá grundvöllur, sem samþykktur var 1970, hafi verið góður grundvöllur og þá hafi bændur kannske fengið bezta verðgrundvöll, sem nokkurn tíma hefur gilt um þeirra kjör, og þar sé að leita orsakanna til þess, að horfið hefur verið frá því að taka inn sjálfsagðar leiðréttingar bændum til hagsbóta á þessu ári og frestað æ ofan í æ allt frá 1. sept. 1972 og nú í þriðju lotu til 1. sept. næsta hausts, og enginn veit, hvert framhaldið verður, ef svo heldur fram.