31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

266. mál, dómsmál

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég vil aftur nota tækifærið, en mun þó sennilega ekki nota fullar 2 mínútur núna.

Ég læt í ljós ánægju mína með það, að hæstv. núv. dómsmrh. ætlar að láta hendur standa fram úr ermum og heitir okkur frv. varðandi þessi mál, — frv. til endurbóta, — og ég er feginn því að heyra hann brýna okkur alþm. til dáða í því sambandi.

Ég benti á atriði, sem kippa mætti í lag með lítilli fyrirhöfn. Það þyrfti ekki neitt frv. til þess að laga þetta t.d. með matreiðsluna í Hegningarhúsinu og útvarpið. Og ég læt í ljós þá von mína, að jafnágætur maður og hæstv. dómsmrh. sjái til þess, að á morgun verði búið að ráða annahvort matsvein eða matreiðslukonu í Hegningarhúsið eftir þessi næstum 100 ár, sem það hefur nú verið notað, og einnig að fangar þar fái að hlusta á útvarp.

Ég vildi svo aðeins leyfa mér að beina fsp. til fyrirspyrjanda. Eins og ég minntist á áðan, er ekki langt síðan lauk 15 ára setu hans í ráðherrastóli. Hann hefur hér heldur en ekki látið vandlætingu sína út af þessum málum bitna á núv. hæstv. dómsmrh. Ég vil spyrja þennan hv. þm: Hversu oft á þessu 15 ára tímabili lét hann vandlætingu sína bitna á þáv. hæstv. dómsmrh.? Það hlýtur að hafa verið oft, eftir þeirri vandlætingu að dæma, sem hann lætur nú í ljós. Og ég verð að láta í ljós undrun mína, að þáv. hæstv. dómsmrh. skuli hafa setið undir slíku án þess að gera nokkuð til þess að reka af sér slyðruorðið.