27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2796 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

189. mál, endurbætur á talsímasambandi milli Reykjavíkur og Vesturlands

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Varðandi fyrri lið spurningarinnar: „Hvenær má vænta endurbóta á talsímasambandi milli Reykjavíkur og Vesturlands, t. d. með fjölgun talrása,“ hefur hv. póst- og símamálastjóri, Jón Skúlason, gefið svofelldar upplýsingar:

Langlínukerfið milli Reykjavíkur og Vesturlands er því miður enn þá of veikburða og takmarkað eins og víða annars staðar á landinu. Vegna takmarkaðrar fjárfestingar er fjölgun talrása á landssímaleiðum skotið á frest, og er þá lögð mest áherzla á símasambandið frá heimastöð, sem er vitaskuld frumstæðasta lausn á símaþörfinni. Nú standa vonir til, að með haustinu verði hægt að fjölga símalínum á umræddri leið. Hér ber þess einnig að geta, að afköst símakerfisins þóttu ekki með öllu skila því, sem til var ætlazt. Var því gerð könnun að þessu leyti, og kom þá í ljós, að tvær samverkandi bilanir, sem tók langan tíma að sannprófa, trufluðu símasambandið milli Stykkishólms og Ólafsvíkur og Hellissands. Hafa þessar bilanir verið lagfærðar, og er það til verulegra bóta, miðað við það, sem áður var, því að nú nýtast allar línur, sem fyrir hendi eru á hverjum stað.

Þetta var svar póst- og símamálastjóra við fyrri lið fsp.

Þá er það annar liðurinn: „Hvað eru margir símnotendur í Vesturlandskjördæmi utan sjálfvirka kerfisins, og eru til áætlanir um, hvenær allir símnotendur á Vesturlandi komist í sjálfvirka símakerfið?“ Þessu svarar póst- og símamálastjóri þannig:

Símnotendur í Vesturlandskjördæmi eru nú um 2819, og eru þar af 805 símnotendur eða 28.6% með handvirkum síma utan við sjálfvirka kerfið, eftir að reist var sjálfvirk símstöð í Búðardal. Áætlanir hafa verið gerðar um það, á hvern hátt ódýrast sé að ljúka byggingu sjálfvirka símakerfisins. Þar eð allt símaefnið er innflutt, verður sífellt að endurskoða þessar áætlanir miðað við gengi íslenzku krónunnar á hverjum tíma svo og almennt verðlag, þ. e. breytilega vísitölu. Miðað við verðlag á s. l. ári má gera ráð fyrir, að kostnaður við sjálfvirkan síma til framangreindra 805 sveitabýla í Vesturlandskjördæmi muni nema um 100 millj. kr. Fjármagnið, sem veitt er í þessu skyni hverju sinni, ræður svo hraða framkvæmdanna.

Að endingu skal upplýst, að á undanförnum 2–3 árum hefur bátafloti útgerðarmanna í Ólafsvík og á Hellissandi rúmlega tvöfaldazt. Þessu aukna og mikla athafnalífi hafa fylgt mjög aukin símaviðskipti, m. a. langlínuviðskipti.

Þetta eru svör póst- og símamálastjóra við þessari tvíþættu spurningu, og vil ég vona, að hv. fyrirspyrjanda nægi þau svör.