27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2797 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

303. mál, orlof og þjónusta staðgöngumanna í landbúnaði

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 373 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. um framkvæmd þál. um orlof og þjónustu staðgöngumanna í landbúnaði. Ályktun Alþingis um þetta efni var samþ. hinn 18. maí 1972 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela landbrh. að skipa n. til þess að athuga möguleika á lagasetningu um orlof sveitafólks og þjónustu staðgöngumanna í landbúnaði. N. skal skipuð í samráði við Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands. Niðurstöður skulu lagðar fyrir Alþ. svo fljótt sem verða má:

Þessi ályktun Alþingis var samþ. í framhaldi af till. til þál., sem við nokkrir þm. Sjálfstfl. fluttum á síðasta Alþingi. Við vorum þeirrar skoðunar, að hér væri mjög þýðingarmikið mál að ræða.

Á undanförnum árum hafa hinar ýmsu stéttir þjóðfélagsins keppt um það að ná til sín sem mestum félagslegum réttindum, m. a. stytta vinnutíma, lengja orlof og koma því þannig fyrir, að hið svokallaða brauðstrit taki sem skemmstan tíma og að unnt sé að verja æ meiri tíma til annarra viðfangsefna, sem þessu fólki eru hugleikin. Það er ljóst mál, að bændastéttin og það fólk, sem býr í sveitunum, hefur orðið verulega á eftir í þessum efnum, og það er skoðun mín, að svo megi ekki lengi standa, vegna þess að ef einstök stétt í þjóðfélaginu hefur ekki sambærileg félagsleg réttindi á við aðra, þá er mikil hætta á því, að ungt fólk veigri sér við að velja sér starfsvettvang á því sviði. Þessi hætta er sem sé fyrir hendi, og þess vegna hrintum við þm. Sjálfstfl. þessu máli af stað á síðasta þingi.

Nú skal ég ekki orðlengja þetta í þessum stutta fyrirspurnatíma og beina til hæstv. ráðherra svo hljóðandi fsp.:

„Hvað líður framkvæmd á ályktun Alþingis frá 18. maí 1972 um athugun á möguleikum á lagasetningu um orlof sveitafólks og þjónustu staðgöngumanna í landbúnaði: