27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2798 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

303. mál, orlof og þjónusta staðgöngumanna í landbúnaði

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 373 er fsp. frá hv. 5. þm. Norðurl. v. um orlof bænda. Í sambandi við það mál vil ég geta þess, að veturinn 1971–1972 eða á útmánuðum 1972, fól ég formanni Stéttarsambands bænda og aðstoðarmanni mínum í landbrn. að semja frv. um orlof bænda. Eftir kjarasamningana 1. des. 1971 hafa bændur fengið í sínum verðlagsgrundvelli fullt orlof eða 8.33%. Það var endurskoðað við kjarasamningana, sem tóku gildi 1. marz 1973 s. l. Það er mál bænda, hvort þeir vilja láta reikna orlof að fullu inn í verðlagið, eins og þeir fá nú, og það sé greitt með vöruverðinu, og ráði svo, hvort þeir taki sér frí frá störfum eða ekki, eða hvort þeir vilji taka þetta inn í sameiginlegan sjóð, sem styrki þá til raunverulegra orlofs. Slíkt væri ávinningur frá félagslegu sjónarmiði. Þetta mál er því í athugun hjá Stéttarsambandi bænda, og frá því hefur rn. fengið þær upplýsingar, að á fundi 2. marz s. l. var samþ. af stjórninni að vísa orlofsmálinu til umr. og umsagnar á kjörmannafundi á næsta sumri. Þetta er gert til þess að fá álit kjörmannafundar á því, hvort þeir telji bændum hagkvæmara að fá setta löggjöf um orlof bænda eða hafa orlofsréttindi sín reiknuð í verðlaginu, eins og nú er gert. Vona ég, að þetta nægi til að svara fsp. hv. þm.