31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

266. mál, dómsmál

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður virðist ekki hafa áttað sig á því, til hvers fsp.- tímar eru ætlaðir. Þeir eru til þess að spyrja ráðh., en ekki fyrir þm. til að spyrja þm. Hann hefur nóg önnur tækifæri til þess að gera slíkt, og þá skal ég með ánægju svara honum. Ég segi það ekki síður við hann en hæstv. ráðh., ég er alveg óhræddur við að mæta honum í þessum ræðustól og hvar sem er annars staðar. Satt að segja hlakka ég til þess, þegar tækifæri gefst til þeirra hluta. Ég segi það alveg eins og er.

Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir glögg og góð svör hans við spurningunum og ræði þau auðvitað ekki frekar efnislega. Ég bendi bara á, að það er staðfest, að kærur hafi fyrnzt fyrir sakadómi, og það er auðvitað alvarlegt mál. Ég sakna þess, að í svörum hans var ekki tilgreint, hvað afgreiðsla á skýrslum og tilkynningum sé mikill hluti af þeim álitaefnum, sem upp komu. En ég býst við, að það sé á þessu sviði, sem lögmenn telja, að óeðlilega mikill fjöldi mála fyrir sakadómi hljóti ekki afgreiðslu. En um það mun ég væntanlega fá leyfi til að afla mér nánari upplýsinga, með leyfi hæstv. dómsmrh., sem ég efast ekki um, að fáist hjá sakadómaranum sjálfum.