27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2805 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

203. mál, framlagning gagna við Alþjóðadómstóllinn

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara hér út í brigzlyrði þess hv. þm., sem síðast talaði, um ósannindi fyrrv. utanrrh. og ráðherra í viðreisnarstjórninni. Það kemur síðar í ljós, hversu mikinn sóma hann hefur af því. Tilefni þess, að ég segi hér örfá orð, er það, að þm. getur ekki tekið eftir því, sem sagt er, og kemur hér upp með töluverðan derring út af því, að það sé kokhreysti af mér, það sem ég hafi sagt, að ég hafi fallið frá kröfu um að fá skýrslu. Ég var ekki að segja það. Á ég að endurtaka það, sem ég sagði? Ég sagðist hafa beðið um leyfi til þess að fá birta úr skýrslu, sem ég hafði fengið sem nm. í landhelgisnefnd og utanrmn. En það var óskað eftir því við mig, meðan umr. stæðu yfir, að ég félli frá óskinni um að gera þetta opinbert. — Það var þetta, sem ég sagði.