27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2809 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

305. mál, framleiðslulán til íslensks iðnaðar

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég fagna því sannarlega, að ég er búinn að fá góðan liðsmann í þeirri tveggja þinga baráttu, sem ég hef staðið í hér, því að æðioft hefur rekstrarfjárþörf iðnaðarins borið á góma. Ég spurðist fyrir um nákvæmlega sama efni í haust og fékk nokkurn veginn sama svar og hæstv. ráðh. gaf nú, að því undanskildu, að nú eru komnar reglur og farið að sjást ljós í þessu og líklega búið að veita tveimur fyrirtækjum fyrirgreiðslulán. Það voru sett lög í fyrra, fyrir næstum því heilu ári, sem gerðu veðsetningargildi iðnaðarins mögulegt og það er ekki enn nema að litlu leyti farið að taka til iðnaðarins. Þá kom með miklu yfirlæti yfirlýsing um stórbrotna iðnbyltingu, eins og allir muna. Eins var fyrir stuttu lagt fram frv. í hv. Ed. um rekstrarsjóð iðnaðarins, en allt kemur fyrir ekki. Iðnaðarfyrirtækin sjálf fá ekki nauðsynlega rekstrarfjárfyrirgreiðslu. Það er bláköld staðreynd, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, og þetta held ég, að sé vegna þess, að viðskiptabankarnir telja sig ekki hafa það fjármagn, sem iðnaðurinn þarf að fá til eðlilegs rekstrar.

Hv. fyrirspyrjandi nefndi dæmi um skóverksmiðju á Egilsstöðum. Ég skal nefna annað dæmi um gólfteppaframleiðsluna í landinu. Mér er tjáð, að hún falli ekki undir þessar reglur. Það liggur þá ekkert annað fyrir en að þessi iðnaður hætti, en inn verður að flytja erlend gólfteppi í staðinn og út lakari ullina, sem framleidd er í landinu.

Hér þarf vitanlega að taka til höndum. Auðvitað er það alveg rétt, að gjaldeyrissparandi iðnaður er nákvæmlega jafnþýðingarmikill og gjaldeyrisaflandi iðnaður. Og nú vil ég mega heita á hæstv. bankamálaráðh., að hann láti iðnaðinn í landinu njóta sömu fyrirgreiðslu að því er varðar fjármagn til rekstrar eins og aðrir atvinnuvegir hafa og það verði einhvern tíma hætt að líta á iðnaðinn sem annars flokks atvinnuveg. Hann er orðinn jafnrétthár hinum.