27.03.1973
Sameinað þing: 62. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2809 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

305. mál, framleiðslulán til íslensks iðnaðar

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Sýndarmennskan ríður ekki við einteyming í því máli, sem hér hefur verið til umr. Það kom fram af ræðu hv. síðasta ræðumanns og í svörunum, að það hefur ekkert gerzt, frá því að lög um veðtryggingu iðnrekstrarlána voru sett í fyrra, og það gerist auðvitað ekki neitt í sambandi við frv. um rekstrarlán til iðnaðarins, sem nú hefur verið lagt fyrir þingið. Það er búið að veita tvö lán á grundvelli einhverra reglna, sem settar hafa verið samkv. þessum l., en ég er sannfærður um, að þessi lán hefðu alveg nákvæmlega eins verið veitt, þó að þessi lög hefðu aldrei verið sett. Það voru sett hér á árinu 1970 lög um útflutningslánasjóð. Mér hefur verið tjáð af bankastjórum, að útflutningsiðnaðurinn hafi fengið það, sem hann hefur beðið um af lánum í sambandi við sinn útflutning. Hér hefur ekkert nýtt skeð. Hæstv. ráðh. les upp, að það geti jafnframt komið til greina lán út á aðrar iðnaðarvörur, einkum vegna ártíðabundinna ástæðna, eins og birgðasöfnunar í landinu. Þetta hefur alltaf verið gert. Framkvæmdabankinn byrjaði á sínum tíma að lána út á birgðir í vissum, tilteknum tilfellum, og Seðlabankinn tók svo við því verkefni, þegar Framkvæmdabankinn var lagður niður. Stóriðnaður innanlands, sem safnar miklum birgðum, eins og Áburðarverksmiðjan og Sementsverksmiðjan, hefur auðvitað fengið stórlán út á sínar afurðir. M. ö. o.: sýndarmennskan er hér í fyrirrúmi, en raunverulegar aðgerðir engar.