27.03.1973
Sameinað þing: 63. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2819 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

65. mál, vegagerð yfir Sprengisand

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þessa till, um vegagerð yfir Sprengisand. Umsagnir hafa borizt frá nokkrum aðilum, sýslunefnd Þingeyjarsýslu, sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu og vegamálastjóra. Ég vil fyrst vekja athygli á vissum atriðum í þessum umsögnum.

Sýslunefnd Þingeyjarsýslu mælir eindregið með samþykkt þessarar till. og tekur fram, að sýslunefndin hafi margsinnis með ályktunum látið í ljós áhuga á lagningu vegar úr Bárðardal suður um Sprengisand. Þá má enn fremur geta þess, að sýslunefndin víkur að því sérstaklega, að hún álíti nauðsynlegt að brúa á sumrinu 1973, þ. e. a. s. næsta sumri, Mjóadalsá, til þess að áin verði brúuð, eins og stendur í umsögninni, fyrir þjóðhátíð 1974, en margir Norðlendingar hyggja á að fara þessa leið til Þingvalla.

Sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu telur rétt, að stefnt sé að því, að lagður verði akvegur yfir hálendið á þessum slóðum, en getur þess um leið, að áform séu um raflínulögn yfir hálendið frá virkjunum á Suðurlandi og til Norðurlands og leysa með þeim hætti orkuþörf Norðlendinga. Því telji sýslunefndin heppilegt, að saman fari línustæði og vegarstæði, en þar sem línustæði sé svo fjarri og óathugað, þá sé ekki rétt eða tímabært, eins og sakir standi, að kveða á um vegarstæðið.

Í till., sem hér liggur fyrir til umr., er farið fram á, að athugun verði gerð á hagkvæmni vegar á þessum slóðum, en alls ekki, að það verði ákvarðað, hvar vegurinn skuli liggja. Þess vegna byggist niðurstaðan í umsögn þeirra Eyfirðinganna að vissu leyti á misskilningi. En að öðru leyti er sýslunefndin samþykk því, að þarna verði gerð athugun á vegarstæði, og að sjálfsögðu, að vegur verði þarna lagður. En að sjálfsögðu verða, um leið og athuguð er hagkvæmni þessarar vegagerðar, tekin mið af því, hvar raflínan skuli lögð, því að það er í raun og veru auðsætt, að þetta hvort tveggja þarf mjög að fara saman.

Umsögn vegamálastjóra er m. a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árunum 1958 og 1959 var gerð ítarleg athugun á Sprengisandsleið, og voru niðurstöður þeirrar athugunar sendar ríkisstj. og Alþ. 1961. Niðurstöður þeirrar athugunar voru á þá lund, að gera mætti sumarfæran veg fyrir fjallabifreiðar um Sprengisand með tiltölulega viðráðanlegum kostnaði, og var þá miðað við, að gerð yrði kláfferja á Tungnaá, eins og síðar varð. En nú hafa aðstæður breytzt til ferða yfir Sprengisand með byggingu brúar á Tungnaá hjá Sigöldu og lagningu upphleypts vegar frá Búrfellsvirkjun að Þórisósi. Leggja mun fleiri leið sína um Sprengisand en áður var, þó að enn séu á þeirri leið verulegar torfærur, eins og Nýjadalskvísl og Mjóadalsá hjá Mýri í Bárðardal.

Með tilliti til þess, að mikið hefur borið á till. um gerð akvegar um Sprengisand á undanförnum tveimur árum, verður að telja æskilegt að láta framkvæma þá athugun, sem ofangreind till. gerir ráð fyrir, og þá bæði á hugsanlegum kostnaði við slíka vegagerð miðað við sumarveg og þá sérstaklega á hagkvæmni slíkrar vegagerðar.

Með vísun til þessa leyfi ég mér,“ — segir vegamálastjóri, — „að mæla með því, að till. þessi verði samþykkt og jafnframt verði gerðar ítarlegar athuganir á umferð frá Reykjavík austur fyrir Akureyri til þess að fá úr því skorið, hve margir hefðu hugsanlega hag af þeirri styttingu, sem vegagerð yfir Sprengisand hefur í för með sér.“

Þá vekur vegamálastjóri í bréfi sínu enn fremur athygli á því, að í vegáætlun fyrir árið 1975 séu veittar 6.4 millj. kr. til brúar á Mjóadalsá hjá Mýri í Bárðardal, en vegamálastjóri segir, að þetta sé í raun og veru ein versta torfæran á Sprengisandsleið. Þessa samþykkt fjárveitingar á vegáætlun til brúargerðar verður væntanlega að skoða sem viljayfirlýsingu af hálfu Alþ. um verulegar endurbætur á þessum fjallvegi öllum.

Þá hef ég farið yfir þær umsagnir, sem liggja fyrir.

Allshn. barst bréf frá oddvita Skútustaðahrepps, þar sem segir, að sveitarstjórn hafi á fundi lýst fullum stuðningi við þessa þáltill. Enn fremur vil ég geta þess, að Búnaðarþing hefur á s. l. ári samþ. fyllsta stuðning við till. þess efnis, sem getur í þáltill.

Í sambandi við umsögn vegamálastjóra vil ég geta þess, að hann telur, að kostnaður við athugun á hagkvæmni vegarins geti orðið allt að 350 þús. kr., og enn fremur, að það sé ekki á vegáætlun, sem nú gildir, nein fjárveiting í þessu skyni. En þar fyrir hefur vegamálastjóri lýst stuðningi sínum við þáltill. Ekki þarf að taka það fram, að Sunnlendingar eru mjög hlynntir þessari vegagerð og hafa ekki síður áhuga á henni en norðanmenn.

Þó að um verulegt fjármagn sé að ræða til greiðslu á væntanlegum kostnaði við framkvæmd þáltill., höfum við í allshn. ekki gert till. um breyt. á þáltill. þess efnis, að kostnaður verði greiddur úr ríkissjóði. Við treystum því fyllilega, að ríkisstj. sjái sér fært að standa undir þessum kostnaði, a. m. k. í bili eða þar til fjárveiting fæst með formlegum hætti, ef þess yrði þá talin þörf á sínum tíma.

Ekki er búizt við því, að rannsókn verði lokið á þessu ári, heldur þurfi að halda áfram rannsókn á næsta ári. Hér er um svo stórt rannsóknarefni að ræða. En sem sagt, n. treystir því, að framkvæmdir verði hafnar á þessu ári samkv. þáltill. og verði lokið eins fljótt og auðið er.

Með hliðsjón af því, sem ég hef tekið fram, og ekki sízt umsögnum, mælir allshn. einróma með samþykkt þessarar till.