28.03.1973
Neðri deild: 71. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2846 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

188. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal verða við ósk forseta um að stytta mál mitt. Það eru aðeins nokkur atriði, sem ég vildi láta koma fram vegna ræðu hv. síðasta ræðumanns.

Hann minntist nokkuð á það í sambandi við könnun þá, sem opinber aðili, sem ég kalla, Fiskifélagið og trúnaðarmenn þess höfðu staðið fyrir, að hún væri ómark, það hefði verið búið að hreinsa smáfisk úr og hann fluttur í gúanó. Vera má, að svo sé. Þetta er meira en ég hef heyrt, og ég hef satt að segja aldrei leyft mér að væna trúnaðarmenn þessara samtaka um slíkar aðgerðir. Hitt er rétt, sem hv. þm. sagði, að það þekktist hér fyrr á árum, að mokað væri fyrir borð því, sem ekki var seljanlegt eða nýtanlegt. Ég vil benda á það, að mér er ekki kunnugt um, að þetta hafi skeð, eftir að farið var að lögbinda stækkun möskvans. Það var líka hér áður fyrr, og var vitnað í það m. a. af útvegsmönnum á Akranesi, að Árni Friðriksson barðist fyrir því, að flóinn yrði friðaður. Það var á þeim árum, þegar ofsókn var í Faxaflóa, þegar togarar allra þjóða veiddu að upp að þrem mílum, meðan hægt var að vera með voðina, hvort sem það var botnvarpa eða dragnót, svo smámöskvaða, að ekkert fór út úr henni. Hann mælti þá með lokun og friðun Faxaflóans. Hins vegar hefur enginn af þeim, sem hafa mótmælt þessu, vitnað til þess, að sami vísindamaður mælti með lögum um dragnótaveiðar, sem við settum hér á Alþ. 1961, einfaldlega vegna þess, að það var sett í lögin þá og búið að setja reyndar í önnur lög áður ákvæði um mjög mikla stækkun möskvans.

Það er vel skiljanlegt, að hv. þm. komi með þessa spurningu: Af hverju geta þessir Reykjavíkurbátar ekki veitt með línu? Nú held ég, að fiskimenn í Reykjavík hafi aldrei rekið sínar fiskveiðar sem sport. Þeir hafa orðið að reka þær þannig að gera það á sem hagkvæmastan og ódýrastan hátt. Þessir bátar eru með fjögurra manna áhöfn á botnvörpu og dragnót. Ef þeir væru hins vegar með línu, þyrfti 9 menn til þess að sjá um það úthald. Þetta fólk er ekki til í dag, ekki hér í Reykjavík. Auk þess þekkjum við, að það eru nokkrar hefðir, sem liggja til grundvallar í sambandi við notkun veiðarfæra í ákveðnum verstöðvum og ákveðnum stöðum. Akranes, Vestfirðir og reyndar fleiri staðir — um ákveðið tímabil Suðurnesin — eiga sitt ágæta línufólk, línumenn, sem kunna vel með það veiðarfæri að fara, og ala jafnóðum upp, ef einhver fellur frá. Fiskimenn á öðrum höfnum eru meira bundnir af þeim veiðarfærum, sem þeir hafa alizt upp með og breyting hefur ekki orðið á, vegna þess að þeir hafa í áranna rás séð, að þetta var þeirra hagkvæmasta veiðarfæri.

Hv. þm. minntist nokkuð á það, að við flm. værum með þessu frv. að ráðast gegn dreifbýlinu við Faxaflóa. Satt að segja álít ég, að það hafi verið erfitt að gera mun á því, hvað sé dreifbýli og þéttbýli. Þegar verið er að ræða um dreifbýli hér í þingsölum, a. m. k. þegar talað er um vandamál dreifbýlis, hef ég nú frekar litið svo á, að verið væri að tala um skort á því, sem t. d. þetta þéttbýlissvæði við innanverðan Faxaflóa hefur í sambandi við menntunarmöguleika, heilsugæzlu, samgöngur, félagslega og opinbera þjónustu. Ég held að þeir geti ekki kvartað um það, þessir íbúar á dreifbýlissvæðum við Faxaflóa, að þeir hafi ekki þessa þjónustu í alveg jafnríkum mæli og sumt fólk í úthverfum Reykjavíkur eða uppi í Mosfellssveit.

Það er langt frá því, að ég telji eitthvert píslavætti lagt á okkur Reykvíkinga vegna þessarar friðunar. En ég skil ekki, ef friðunarsjónarmiðið er svona ríkt í mönnum, af hverju það er ekki látið ríkja víðar, þar sem nákvæmlega sömu ástæðurnar eru til og sama þörfin, ef þörf er þá hér? Hvað um Breiðafjörð? Breiðafjörður er friðaður innanverður. En hvernig er hann friðaður? Hann er friðaður til einkanýtingar íbúanna, sem búa við innanverðan Breiðafjörð. Þar er hver einasta vinnandi hönd við vinnu í fiski eða skel. Hv. þm. gleymdi að geta þess, að það má líka veiða skel á þessu svæði. Það er mesti atvinnugjafi, sem hefur komið á síðustu árum í þeim höfnum og byggðarlögum, þar sem slíkum afla er landað. Það er ennþá leyft að veiða rækju í Ísafjarðardjúpi. Menn við Ísafjarðardjúp hafa haldið því fram um langt árabil, að það sé drepið svo og svo mikið af ýsuseiðum, þegar rækjutrollið er á ferðinni. Það kom líka í ljós og var sannað, að þetta gerðist hér á rækjumiðum, sem farið var að nýta fyrir nokkrum árum út af Reykjanesi eða í kringum Eldey. Það var þá bannað þar. Það hefur líklega verið vegna þess, að það voru nokkrir bátar úr Reykjavík, Hafnarfirði og Keflavík, sem stunduðu þessar veiðar. Ég geri ráð fyrir því.

Hv. þm. minntist nokkuð á Borgarnes. Ég er fús til þess að vera með honum í að flytja brtt. við frv. og veita Borgnesingum heimild, ef þeir ætla að fara að koma með fiskverkun. Ég hef alltaf álitið, að það væri mjög skynsamlegt að reyna að afla sér hráefnis, og þá kannske fyrst og fremst með því að gera út. Og ef þeir vilja kaupa sér almennilegt skip, þá fá þeir auðvitað aðgang, eins og aðrir bátar, að þessu svæði, ef þeir eru af þeirri stærð. Það má sjálfsagt breyta fyrir þá sérstaklega þessu svæði, sem við leggjum til að þarna sé friðað. En ég skal viðurkenna það, að ég hafði ekki í huga Borgarnes, auk þess sem ég hef ekki heyrt talað um neina útgerð þar um langt árabil.

Vegna þess að hv. þm. las samþykkt Fiskideildar Gerðahrepps, get ég auðvitað líka lesið fyrir hv. þm. þá samþykkt, sem gerð var í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir stuttu um að mæla efnislega með þessu frv., sem hér er flutt.