31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

269. mál, áfengismál

Fyrri spurningin frá hv. þm. er:

„Hvað er rúm fyrir marga drykkjusjúklinga á gæzluvistarhælum?“ Á gæzluvistarhælum er rúm fyrir 70 menn: 40 í Gunnarsholti, sem er ríkisstofnun, og 30 í Víðinesi, sem er sjálfseignarstofnun.

Síðari spurningin er: „Hversu margir drykkjusjúklingar hafa verið fluttir í sjúkrahús á ári s.l. 3 ár, sbr. 1, gr. l. nr. 39 frá 1964?“ Einu tölurnar, sem tiltækar eru um innlagningu drykkjusjúklinga á spítala, eru tölur Kleppsspítalans, en það er sá spítali, sem tekur á móti flestum þeim, sem lagðir eru inn á sjúkrahús vegna drykkjusýki. S.l. 5 ár var fjöldi þessara sjúklinga sem hér greinir: Árið 1967 333 eða 50% af öllum sjúklingum, sem lagðir voru inn á Kleppsspítalann, áríð 1968 271 eða 39% af tölu þeirra sjúklinga, sem lagðir voru á spítalann, árið 1969 382 eða 43%, árið 1970 325 eða 41% og árið 1971 275 eða 39%. Þess ber að geta, að hér er um að ræða alla drykkjusjúklinga, og kann að vera hér um að ræða tvítalningu eða margtalningu, því að í skýrslum spítalans er ekki sérstaklega frá því greint, hvort sjúklingur hefur verið fluttur þangað eftir ítrekaðar handtökur eða komið á annan hátt.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. þm. á þeim hlutfallstölum, sem ég nefndi áðan. Hlutfall drykkjusjúklinga af öllum sjúklingum, sem lagðir eru á Kleppsspítalann, er frá 39–50% á þessu árabili, og það gefur til kynna, hversu geigvænlegt þetta vandamál er.

Það hefur tíðkazt hér mjög mikið að tala af mikilli alvöru um eiturlyfjavandamál, og sízt vil ég draga úr því, að um það sé fjallað af fullri alvöru. Hitt er engu síður staðreynd, að drykkjuskaparvandamálið er miklu víðtækari og alvarlegri þjóðfélagsmeinsemd. En hættan er bara sú, að menn eru farnir að venjast henni og taka hana sem sjálfsagðan hlut. Menn kunna ekki orðið að hneykslast á því alvarlega ástandi, sem þar er um að ræða.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að það var gerð sú breyting á lögum, að farið var að líta á drykkjumenn sem sjúklinga 1964. En vegna þess, hversu þröngur húsakostur er á Kleppi, hefur ekki verið gerlegt að taka að nokkru gagni upp þá þjónustu, sem lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra gera ráð fyrir. Á þessu verður hins vegar veruleg bót ráðin með tilkomu fyrirhugaðrar geðdeildar við Landsspítalann. Mikið vantar einnig á, að rými sé tiltækt á gæzluvistarhælum fyrir þá, sem þarfnast dvalar á slíkum stofnunum. Framlög til gæzluvistarsjóðs, sem á að standa straum af kostnaði af framkvæmd laga um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, hafa allt fram á síðasta ár verið allt of lág, til þess að hægt hafi verið að hefjast handa um uppbyggingu stofnana vegna drykkjusjúkra. Og viljinn til framkvæmda uppbyggingarinnar var ekki meiri en svo, að peningar sjóðsins voru notaðir til þess að greiða fyrir dvöl sjúklinga í Gunnarsholti allt fram til ársins 1970, þrátt fyrir ákvæði laga frá 1964, þar sem segir, að gæzluvistarsjóður hafi fyrst og fremst það hlutverk að auka og reisa stofnanir fyrir drykkjusjúka. Í lögum frá 19fi4 var ákveðið, að greiða skyldi 7.5 millj. árlega af ágóða Áfengisverzlunar ríkisins í gæzluvistarsjóð. Þessi upphæð var síðan látin standa í stað til ársins 1970 þrátt fyrir óðaverðbólgu á öllu þessu tímabili. Áríð 1970 var hún hækkuð smávægilega eða upp í 8 millj. Árið eftir fékk sjóðurinn svo 12 millj. eftir æðihörð átök hér á Alþ. Ég minnist þess, að hæstv. núv. utanrrh. beitti sér af mikilli hörku fyrir því, að sú fjárveiting væri hækkuð, og tókst að ná verulegum árangri. Í samræmi við það ákvæði stjórnarsáttmálans, að bæta skyldi úr ófremdarástandi í málum drykkjusjúkra, var framlag til framkvæmda á vegum gæzluvistarsjóðs svo hækkað í 20 millj. á þessu ári.

Stærsta verkefnið, sem nú er unnið að, er bygging hælis fyrir erfiða drykkjusjúklinga. Undirbúningsnefnd var skipuð í fyrra, og hefur hún gert áætlun um byggingu hælis fyrir 23 menn. Hælinu hefur verið valinn staður í landi Vífilsstaða og gert ráð fyrir, að síðar verði hægt að bæta við allt að þremur jafnstórum einingum, ef þörf krefur. Öllum tæknilegum undirbúningi er að verða lokið, og verður bygging hússins boðin út í næsta mánuði.

Önnur verkefni sjóðsins á árinu hafa verið þessi: 1. Sjálfseignarstofnun Bláa bandsins í Víðinesi áformar að byggja þar elliheimili fyrir 36 drykkjusjúk gamalmenni. Í fyrsta áfanga byggingarinnar verður rúm fyrir 12 vistmenn og aðstaða fyrir læknisþjónustu á staðnum. Til þess að flýta fyrir þessari uppbyggingu ákvað heilbrn. að greiða aukaframlag úr gæzluvistarsjóði á þessu ári, þannig að Bláa bandið fengi 1.2 millj. til framkvæmda sinna á árinu í stað 600 þús., eins og gert hafði verið ráð fyrir. Þetta aukaframlag á að geta orðið til þess, að fyrsta áfanga byggingarinnar verði lokið seint á næsta ári.

Í öðru lagi hefur verið veitt fé til byggingar starfsmannaíbúða í Gunnarsholti, en aðstöðuleysi starfsmanna þar hefur verið mjög bagalegt.

þriðja lagi hefur gæzluvistarsjóður á árinu staðið straum af byggingarframkvæmdum við Kleppsspítalann, en þar hefur þjónustuaðstaða verið stórbætt, en drykkjusjúklingar eru, eins og ég minntist á áðan, milli 39 og 50% af öllum sjúklingum þar.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1973 er aftur gert ráð fyrir 20 millj. kr. framlagi til gæzluvistarsjóðs, þannig að hægt verður að vinna að fullum krafti að meginverkefni þess árs, sem verður bygging hælisins við Vífilsstaði, jafnhliða því sem framkvæmdir í Gunnarsholti eða Víðinesi verða styrktar.