31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

269. mál, áfengismál

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er nú alltaf vafasamt, hvort það borgar sig að kveðja sér hljóðs, þegar ekki eru nema 2 mínútur til umráða til þess að ræða um þau mál, sem á dagskrá eru, og verður varla mikið sagt. En hæstv. heilbrh. talaði um, að þessar fsp. hefðu verið eins konar úttekt, gæfu tilefni til úttektar á gerðum fyrrv. ríkisstj. En ég held, að ég verði að segja það, að við erum tilbúnir hvenær sem er að ræða á jafnréttisgrundvelli um gerðir fyrrv. ríkisstj., bæði í fangahúsamálum og öðrum mannréttindamálum. Það er vitanlega mikið atriði, hvernig búið er að drykkjusjúklingum, og sumir bera réttlætið alveg utan á sér og líður illa, ef þeir vita til þess, að öllum hefur ekki verið refsað, sem hafa verið dæmdir. En ég held, að þetta sé svo mikið vandamál, að við höfum sem sagt öll hér í hv. Alþ. áhyggjur af því, hvernig það skuli leysa á sem heppilegastan hátt. Enginn vafi er á því, að fyrrv. ríkisstj. gerði mikið í þessum málum, bæði hvað drykkjusjúklinga snerti og eins fangahús. Fangahús voru byggð, Síðumúli og Litla-Hraun, og það ber ekki vott um mikil þrengsli í fangahúsunum, að það skuli hafa verið 10 klefar auðir í nýju byggingunni á Litla-Hrauni. Hæstv. dómsmrh. þarf ekki að svara því, en hver er ástæðan? Og svo er talað um, að það vanti ríkisfangahús og að öll vandamál væru leyst, ef það væri fyrir hendi. Sumir lifa í þeirri trú, að þjóðfélagsþegnarnir fari batnandi og það verði minni þörf á því í framtíðinni að loka hundruð manna eða þúsundir innan dyra, hvort það sé ekki hægt að finna eitthvert annað ráð, sem kemur að meira gagni en það að loka menn inni. (Forseti: Hv, þm. hefur talað í tvær mínútur.) Já, ég veit það hæstv. forseti, og ég skal ekki níðast á því, annars hefði verið ástæða til þess að segja svolítið meira.